Verðmætaþoka

Untitled-1

Í nýlegri frétt í Ríkisútvarpinu var rætt um hve mikið magn óskilamuna safnist upp í skólum og íþróttamiðstöðvum. Í einu tilfelli taldi umsjónarmaður að óskilamunir fylltu eina þvottakörfu á dag. Nokkuð sem vakti athygli er að þrátt fyrir að fólk fái tilkynningu símleiðis um að eiga óskilamuni þá kæmu ekki allir að sækja eigur sínar. Svari því jafnvel til að það mætti bara gefa umrædda muni. Á meðal óskilamuna sem ekki eru sóttir samkvæmt fréttini væru til dæmis úlpur frá 66°N sem geta kostað á bilinu frá 70 til 80 þúsund krónur.

Ein stærsta ástæðan fyrir þessu undarlega háttarlagi er það sem ég kalla verðmætaþoka, þegar fólk hefur ekki tilfinningu fyrir hvað vörur og þjónusta kosta. Tækniþróun í viðskiptum og yfirgnæfandi notkun korta og rafrænna peninga er aðalorsök verðmætaþoku. Þeir sem venjast á að framkvæma alltaf sömu hegðun til að fá mismunandi vörur, til dæmis rétta fram debitkort og fá allar sínar vörur í skiptum, er í miklu meiri hættu á að missa tengingu við verðmæti vöru og þjónustu. Líklegra er að viðskiptin verði hugsanalaus og viðkomandi hættir að greina ódýra vöru frá dýrari. Rétt eins og fimm ára barn sem spyr foreldra „af hverju notarðu ekki bara kortið“ laumast barnsleg hugsun inn í fjármálin.

Verðmætaþokan villir sýn þegar fólk hirðir ekki um eigur sem gleymast í íþróttahúsum og skólum. Það er ekki tilfinningin að tapa verðmætum sem vaknar heldur tilhugsunin um vesenið að þurfa að sækja óskilamuni og að viðurkenna gleymsku sína. Tími virðist dýrmætari en varan. Þar sem að viðkomandi tengir ekki við verðmæti óskilamunanna þá er auðveldara að segja „ Æi, þú mátt bara gefa þetta“ af því við notum bara kortið til að fá annað.

Verðmætaþokan hjálpar kaupmönnum að selja mjög dýra vöru á auðveldan hátt. Fólk hlustar á þörf sína fyrir nýjum hlutum án þess að meta verðgildið rétt. Merkjavara og tískuvara verður auðseljanleg þeim sem skynja ekki verðmæti. Álit annarra er orðið dýrmætara.

Verðmætaþokan hefur einnig áhrif á tekjurnar okkar en í stað þess að glata verðgildi peninga þá missum við verðgildi á tíma. Við missum tengingu við hvað við fáum mikið greitt fyrir vinnuframlag okkar. Við vitum ekki hvað tíminn kostar.  Mjög algengt er að fólk sem þiggur bætur frá ríki og sveitarfélögum þjáist af verðmætaþoku í þessari mynd. Uppruni tekna virðist áreynslulaus. Verðmætaþokan getur á þennan hátt gert fólki með langtíma atvinnuleysi erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði. Þá er það vaninn við að fá bætur fyrirhafnarlítið sem veldur því að tíminn og fyrirhöfnin við að standa allan daginn við vinnu virðist lítils virði. Jafnvel þótt launin séu umtalsvert hærri en bæturnar þá virðist ekki taka því að vinna.

Þegar við þjáumst af verðmætaþoku er algengt að við hugsum í einfeldni að hlutirnir „reddist“ einhvern veginn, jafnvel með lottóvinningi. Aðstæður þeirra sem lifa í slíkri þoku breytast í raun aldrei fyrr en tekið er á vandanum. Peningar halda áfram að „gufa upp“ eða  engin störf eru „þess virði“.

Hafa ber í huga að hér er ég ekki að gera lítið úr neinum heldur benda á að vani getur fært okkur frá skynseminni. Ég hef ekki enn hitt einstakling sem ekki er hægt að aðstoða út úr fjárhagsvanda. Það breytist ef fólk fær tíma og tækifæri til að læra að stjórna peningunum sínum og tíma.

Besta ráð sem til er gegn verðmætaþoku er að við vöknum til vitundar um hvað við fáum í tekjur og hvað við gerum svo við þær.  Við spyrjum okkur nokkrar einfaldar spurningar.

  • Hvaða pening fáum við?
  • Hvert fer sá peningur?
  • Þarf hann að fara þangað?
  • Vil ég að hann fari þangað?

Þegar þú svarar þeim þá ertu vakandi.

 *Grein fyrst birt á vef Víkurfrétta 29.01.2014*

Untitled-1