Svartir fötudagar- Tilboð eða neysluveisla

Untitled-1

Ég hef fylgst með svörtum föstudegi í nokkur ár. Fyrst um sinn vegna þess að það fréttist af svo ótrúlegri hegðun fólks sem var að keppast um útsöluvörurnar. Barsmíðar, troðningar og jafnvel morð hafa verið framin í einhverri ótrúlegri geðshræringu fólks sem vill fá vörur á afslætti. Upplifun mín var í bland undrun á slíkri hegðun og forvitni á hvaða vörur væru á svo miklum afslætti að fólk hættir lífi sínu og limum. En því meira sem ég skoða þessa neysluveislu því betur sé ég að þetta er að langmestu leiti bara hógværir kynningarafslættir og inn á milli fáir door-busters (í slæmri þýðingu hurðarbrjótar), miklir afslættir til að hvetja okkur til að mæta í verslanir eða á vefsvæði hungruð í að ná þeim fáu vörum sem eru á ofurgóðum tilboðum.

Okkur þykir gaman að fá verðlaun í einhverri mynd. Hvort sem það eru skór, föt, raftæki eða aðrar þær vörur sem fyrir okkur eru lúxus og verðlaun. Innra með okkur vaknar reglulega þrá fyrir eitthvað gott. Þessi hegðun er góð fyrir sölusálfræði svörtu föstudaganna. Eftirvæntingin að sjá hvaða vörur verði á ofurútsölu vex með tímanum og svo þegar tilboðin byrja að birtast förum við á stjá að leita að einhverju sniðugu. Og líkurnar á að við kaupum óþarfa verða óvenjumiklar á svörtum föstudegi.

Ástæðan er einföld. Við erum öll mannleg. Þegar við erum mætt á staðinn viljum við ekki missa verðlaunin sem við vonuðumst eftir á fá. Við viljum ekki standa tómhent á miðju gólfi í verslun eða hafa ekkert að velja í netverslun. Við viljum ekki heldur sitja heima og upplifa að allir nema við taki þátt í einhverrju tilboðsævintýri.  Ég líki þessu við að hafa beðið eftir aðfangadagskvöldi í margar vikur og sitja svo eftir með engan jólapakka. Sá tómleiki er mörgum sár og þá grípum við sárabætur á svörtum föstudegi. Við tökum eitthvað annað sem er á tilboði. Í sumum tilfellum þá kaupum við bara samt það sem okkar langar í og þá á fullu verði.

Svartir föstudagar eru söluherferð. Nafnið er sagt dregið af því að á þessum degi varð sala svo mikil að bókhaldið fór úr mínus (rautt blek í bókhaldinu) í plús (svart blek í bókhaldinu). Neysluveisla sem æsir okkur upp tilfinningalega og  platar okkur til að kaupa óþarfa.

Mín leiðsögn er að við látum skynsemina ráða en ekki tilfinningarnar. Að sjálfsögðu verða einhverjar vörur á góðum tilboðum og ef þessar vörur eru þær sem okkur vantar þá á að sjálfsögðu að nýta sér lækkuð verð. En ekki láta ímyndaða skorthugsun villa okkur sýn og halda að það sé núna eða aldrei sem við getum keypt vörur á tilboðum. Ekki trúa því að þessi dagur sé betri en aðrir tilboðsdagar.

Gætum þess að svartur föstudagur verði ekki svartur dagur í heimilisbókhaldinu okkar.

bok-ofan-post