Sparikrukkan – vika 31

panta-bok-fritt

Kæru vinir,

Nú er vika 31 og við setjum 3.100 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 49.600 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar er að vita hvert peningarnir okkar eru að fara. Til þess að vita hvert peningarnir okkar eru að fara þá þarf að skrá það. Til eru fjölmargar leiðir til þess að skrá útgjöld og neyslu, allt frá því að skrifa í litla dagbók, safna kvittununum og skrá þær þegar við erum komin heim, eða skrá í smáforrit (app) í snjallsímanum okkar.

Eftir nokkra daga og vikur þá munt þú finna mikinn mun á fjármálunum þínum og ekki síst á hvernig þér líður. Rannsóknir sýna að þeir sem skrá fjármálin sín í dagbók finna breytingar á innan við einum mánuði. Breytingar sem geta haft varanleg jákvæð áhrif.

Auðveldasta aðferðin til að skrá útgjöld er aðferðin sem þú venur þig á að nota

Það skiptir engu máli hvaða aðferð við notum við að skrá. Það sem við þurfum að gera er að byrja í dag og endurtaka skráninguna oft á dag í margar vikur þar til við höfum vanist henni. Fyrstu dagarnir þegar við erum að venjast nýrri hegðun eru erfiðastir. Þá erum við líklegust til að gleyma okkur og ruglast og þá er einnig líklegast að við ákveðum að hætta, af því að „við getum þetta ekki“ eða “ við kunnum þetta ekki“.

Við hjá Skuldlaus.is höfum sett saman nokkur verkefni sem þú getur prentað út og notað til að byrja að skrá daglega neyslu. Þessi verkefni finnur þú hér: Verkefni

Einnig höfum við útbúið Excel skjal til að safna upplýsingum um heimilisbókhaldið. Smelltu hér til að sækja Heimilisbókhald Skuldlaus.is fyrir Excel

Til að styðja okkur þegar þetta er sem erfiðast er best að tala við maka okkar eða vini um hvað við erum að gera og hvað er erfitt við verkefnið. Vikulegir fjármálafundir með fjölskyldunni geta einnig hjálpað okkur. Það er einnig mikilvægt að þegar við gleymum okkur í skráningunni að gefast ekki upp heldur byrja aftur. Það er allt í lagi að eiga götótta skráningu þegar við erum að læra að skrá útgjöldin vegna þess að þegar við höfum vanist því að skrá útgjöldin þá erum við búin að losa okkur erfiðasta hluta fjármálavandans, vanþekkinguna.

Byrjaðu strax í dag að skrá hvert peningarnir þínir fara

 

bok-ofan-post