Sparikrukkan – vika 18

namskeid

Kæru vinir,

Nú er vika 18 og við setjum 1800 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 17.100 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar: Taktu mat með þér í vinnuna

Hvenær er rétti tíminn til að byrja að tala við börnin um peninga?

Samkvæmt hugmyndafræði Skuldlaus.is þá er rétti tíminn til að ræða fjármál þegar börnin eru nógu gömul til að læra almenna mannasiði, þakka fyrir sig og sýna kurteisi. Ég legg til að við byrjum að ræða við börn strax við þriggja ára aldur.

Talaðu við barnið um hvernig peningar verða til. Bentu á lögreglumann og segðu frá hvernig hann fær borgað fyrir að passa íbúana. Bentu á leikskólakennarann og segðu frá hvernig hann eða hún fær borgað fyrir að kenna börnum. Segðu barninu hvernig mamma og pabbi fá peninga.

Kenndu barninu að spara. Verðlaunakerfi þar sem barnið fær stein, stjörnu eða límmiða fyrir að vera duglegt kennir barninu að margt smátt gerir eitt stórt. Gefðu barninu sparibauk svo það geti á sama hátt safnað peningum sínum saman. Hjálpaðu því að setja sér einfalt markmið til að nota peninginn.

Kenndu barninu um virði peninga og eigna. Verðlaunaðu barnið fyrir að hugsa vel um eigur sínar, leikföng og föt. Taktu barnið með í búðina og ræðið saman um hvaða vörur eru dýrari en aðrar og hvað gæti verið góð kaup. Gefðu barninu pening og leyfðu því að velja sínar eigin vörur. Útskýrðu fyrir því hvernig það getur valið að kaupa ekki í dag heldur spara fyrir seinni tíma.

Vertu til fyrirmyndar. Hvernig þú kemur fram og notar peninga mótar fjármálahegðun barnanna.

Hafið börnin með á fjármálafundum fjölskyldunnar. Því fyrr því betra því að þekking nú kemur í veg fyrir vanda síðar. Hafðu barnið með í ráðum þegar innkaupalisti er gerður og leyfðu þeim ða velja matseðil vikkunnar með þér. Þegar börn eldast er hægt að kenna þeim einfaldar fjárhagsáætlanir til að vinna að markmiðum, bæði eigin og allrar fjölskyldunnar.

Kynntu þér vefinn www.318.is en þar er áhersla lögð á að hegðun barna hafi jákvæð áhrif á fjármál þeirra á fullorðinsárum.

Við minnum á facebook síðu okkar og biðjum ykkur að deila henni meðal vina.

bokhaskoalprent-ofan-post