Siðleysið og reiðin

panta-bok-fritt

„Bandaríska söngkonan Erykah Badu hefur nú verið ákærð fyrir ósiðlega framkomu á almannafæri vegna nýs myndbands við lag hennar, Window Seat, sem hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og víðar.

Í myndbandinu gengur Badu um miðborg Dallas í Texas og fækkar smátt og smátt fötum. Í lok myndbandsins fellur hún nakin á götuna eins og hún hafi verið skotin á sama stað og John F. Kennedy, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var skotinn til bana í nóvember 1963.“ Söngkona ákærð fyrir ósiðlega framkomu – mbl.is

Ég áttaði mig ekki á því strax, en mér fannst þetta vera eitthvað skakkt.  Konan er sökuð um ósiðlegt framferði fyrir það eitt að fara úr fötunum og detta í götuna og gæti verið sektuð um 64 þúsund krónur fyrir dónaskapinn.

Á sama tíma í glerhýsum um allar koppagrundir fá bankamenn og fjárglæframenn, sem marga mætti senda beint í spilafíknarmeðferð, niðurfellda milljarða af skuldum.  Þeir fá illt auga og umtal fyrir að velta skuldunum á almenning og þannig hrifsa heimili og atvinnuöryggi af hundruðum ef ekki þúsundum fjölskyldna með braski sínu.  Ekki fer mikið fyrir kærum um ósiðlegt framferði þar.

Ástæðan gæti verið að fjármálahneykslið er gert svo flókið að enginn almennur skilur það og nær að verða reiður á réttlætanlegan hátt.  Við fáum bara að sjá eitthvað svo flókið og hræðilegt og svo stórt að enginn veit við hvern á að sakast samkvæmt viðmiðunarreglum samfélagsins.  Flestir geta bara gefið bankanum illt tal án þess að geta losað reiðina fyrir alvöru.

En samfélagið gefur okkur síðan leyfi til að reiðast konu sem stripplast í miðbænum.  Djö… dónaskapur fyrir framan börnin.

Það sorglegasta er að við fáum þetta leyfi til að reiðast út um allt, jafnvel inn á heimili okkar.  Eitthvað atvik fyllir mælinn, einhver ruggar bátnum, potar í spenntar taugar og losar viðkvæmar tilfinningar. Barn sullar niður mjólk, unglingurinn skilar ekki glasi í vaskinn, konan hefur ekki tíma til að hlusta á þig, kallinn nennir bara að horfa á fréttir….

…og þá losnar reiðin sem bankakerfið byggði innra með þér.

panta-bok-fritt