Samfélagsbanki

namskeid

Það er ekkert lögmál að bankinn þinn hafi það markmið að græða eins mikið á þér og hægt er með öllum tiltækum ráðum. Okurvexti ofan á verðtryggingu, endalaust ný, meiri og hærri þjónustugjöld, jafnvel fyrir það sem þú gerir heima hjá þér í gegnum tölvu og að þú fáir sáralitla vexti á innistæðum. Það er ekki heldur neitt lögmál að sveitarfélög, fyrirtæki eða aðrir aðilar séu sligaðir af rándýrum vöxtum og afborgunum af lánum. Þetta gæti allt verið miklu betra.
Þinn eigin banki þar sem þú átt þinn hlut, er með lága vexti á lánum og lítil eða engin þjónustugjöld. Það eru engir bónusar, ofurlaun eða aukagreiðslur til stjórnenda. Þú ákveður laun stjórnenda. Þegar samfélagsbankanum þínum gengur vel þá fer hagnaðurinn í að lækka vexti á lánum og hækka vexti á innistæðum. Banki sem er ekki að reyna að græða á þér, heldur banki sem er að reyna að spara fyrir þig.
Samfélagsbankinn veitir lán til fyrirtækja og einstaklinga eins og bankar gera. Hann tekur hins vegar aldrei þátt í áhættusömum fjárfestingum eða fjármálabraski. Aðalatriðið er að samfélagsbankinn sé öruggur staður til að geyma peninga. Hann mun ekki tapa öllum peningunum þínum í næsta bankahruni. Samfélagsbankinn lánar síðan út þessa peninga og hefur af því hæfilegan arð. Það er þó aldrei markmið að græða sem mest á viðskiptavininum, sem er reyndar líka eigandi bankans.
Rúmlega helmingur Þjóðverja, meira en fimmtíu milljónir manna, nota samfélagsbanka til bankaviðskipta og rúmlega 80% munu verja samfélagsbankann hverskonar árásum. Þeir eru líka þekktir í Austurríki, Svíþjóð og sömuleiðis í flestum löndum sem við viljum bera okkur saman við. Meira að segja í Bandaríkjunum, í N-Dakótafylki er meðal annars samfélagsbanki og já hann er svo sannarlega ekki rekinn á forsendum einhverskonar sósíalisma eða kommúnisma. Hann var einmitt stofnaður til að verja fjármuni einstaklingsframtaksins.
Í stjórnmálasamtökunum Dögun hefur verið unnið ötullega að stofnun samfélagsbanka árum saman. Dögun fékk meðal annars einn æðsta yfirmann frá Sparkassen í Þýskalandi, Wolfram Morales, og hina bandarísku Ellen Brown rithöfund og ráðgjafa, hingað til lands og héldu kynningarfund þann 13. febrúar síðastliðinn. En það er í samræmi við stefnu Dögunar sem hefur verið með samfélagsbanka á stefnuskrá sinni lengi.
Margir Íslendingar eiga erfitt með að skilja samfélagsbanka, sem hafa farið í gegnum kollsteypur fjármála og hagkerfa, heimsstyrjaldir og allskonar óáran, en staðið það allt af sér. Þetta eru einfaldlega ódýrari og öruggari bankar. Fjármálaráðherra hefur kallað Íbúðalánasjóð samfélagsbanka, sem er tómt bull. Sparisjóðir hafa verið kallaðir samfélagsbankar, sem er líka rangt. Það er ekkert slíkt hér á landi, en það væri Íslendingum til mikilla heilla að bæta úr því. Landsbankinn gæti til dæmis auðveldlega orðið samfélagsbanki og hann er líka einfaldlega hægt að stofna. Það er ekkert mál að stofna samfélagsbanka. Regluverkið er allt tilbúið og hefur verið fínpússað bæði í Bandaríkjunum og Þýskalandi í yfir hundrað ár. Það vantar bara vilja stjórnmálamanna til að fara í verkefnið. Það er hægt að hefja það í næstkomandi kosningum með því að kjósa rétt. Samfélagsbankaflokkurinn Dögun vill að rúmlega helmingur íslenska bankakerfisins verði samfélagsbanki, landi og þjóð til heilla.
Baldvin Björgvinsson, stjórnarmaður í Dögun, stjórnmálasamtökum um réttlæti, sanngirni og lýðræði.

bok-ofan-post