Er fyrirframgreiddur arfur lausn á húsnæðisvanda?

namskeid

Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokkins hafa lagt fram frumvarp um lækkun eða afnám á erfðafjárskatti, eða erfðaskatti. Eitt af tilefnum frumvarpsins er að niðurfelling á erfðaskatti auðveldi skylmennum að koma fjármunum til skyldmenna, t.d. „aðstoð að hálfu foreldra við kaup á íbúðarhúsnæði eða til að leysa erfið fjárhagsleg mál. Í þessu sambandi þarf ekki að fjölyrða um erfiða stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði um þessar mundir og getur eðlilegri hvati til fyrirframgreiðslu arfs skipt máli í því sambandi.“

Þetta fyrirkomulag mun hjálpa einhverjum að kaupa sér eignir með því að fá fyrirfram þann arf sem viðkomandi er ætlaður. En á sama tíma er þessi hugmynd að mínu mati óhagstæð tímaskekkja.

Samfélagið allt er meira og minna tekjudrifið. Lausnir á fjárhagserfiðleikum verða þá líklegri til að vera tengdar hærri tekjum eða fjárhagsaðstoð í formi tekna. Mín skoðun er að við horfum á útgjöld til að bæta lífskjör einstaklinga og fjölskyldna. Í tæp fjörutíu ár hefur verðtrygging lána verið einn aðal valkosturinn í húsnæðislánum en einn aðalgalli þessara lána er að þau hækka ef verðbólga fer upp. Svar við þessari hækkun er að fólk vill hærri verð fyrir húsnæðið og því verða verðhækkanir á húsnæði samhliða hækkun lánanna. Þessi tenging á milli lána og húsnæðisverðs hefur verið næg röksemd fyrir því að verðtryggð lán séu veitt – „enginn tapar því húsnæðisverð hækkar alltaf“.

Blaðran stækkar

Hækkun verðtryggðra lána og húsnlæðisverð kallar á hærri tekjur til að greiða af lánum og húsnæði. Hærri tekjur auka kaupmátt og hærri kaupmáttur hækkar verðlag – fólk hefur efni á að kaupa dýrari eignir eða borga meira fyrir eignir. Þegar þetta er skrifað eru í gangi undarlegir tímar á fasteignamarkaði. Lítið framboð á húsnæði og margir að leita eftir eignum sem veldur því að fólk með aukinn kaupmátt býður hærra en uppsett verð í húsnæði. Eignir seljast á yfirverði.

Allt verð leitar því upp og allur markaðurinn fylgir með. Þetta er kallað ávöxtunarkeppnin þegar fólk eyðir meiru en það myndi gera á venjulegum tímum. Á þessu tímabili leitar fólk lausna utan eigin fjárhagslegar getu. Fólk leitar til foreldra til að geta keppt um yfirverðlagðar eignir.

En hvað ef við höfum áhrif á að húsnæðisverð hækki sem minnst?

Lausnin að mínu mati er að horfa á útgjöldin. Horfa á hvernig við bætum lífsgæðin með hagkvæmum innkaupum og neyslu. Alls ekki auðvelt þegar meginþorri landsmanna er að eyða auknum kaupmætti í draumahúsið, draumamatinn og öll lífsgæðin. En útgjöldin eru samt það sem við getum best haft áhrif á. Við höfum lítil sem engin völd yfir verðbólgu og verðtryggingu. Það tekur yfirleitt mörg ár að koma af stað launaskriði og hækka þannig tekjurnar okkar. Við getum hins vegar haft áhrif á hverju við eyðum strax í dag. Strax á eftir getum við ákveðið að hafa aðeins ódýrari kvöldmat, eða reykja bara aðra hverja sígarettu, eða hætta að versla í dýrum þægindaverslunum og kaupa ódýrar inn í lágvöruverðsverslun.

Ef við lækkum útgjöldin þá mun okkur ganga betur að greiða af lánunum okkar þegar niðursveifla er í samfélaginu og kaupmátturinn orðinn að kaupmáttleysi. Þá lenda færri í greiðsluerfiðleikum og færri þurfa að fara í langa fjárhagslega megrun og halda að sér höndum með því að sleppa öllum stóru hlutunum. Kaupa ekki nýja bíla eða stór heimilistæki eins og sjónvarp eða þvottavél. Láta það sem þau eiga duga og skipta ekki út fyrr en þau eru neydd til þess. Jafnvel þurfa að sleppa eðlilegum lífsgæðum eins og að kaupa föt, fara til læknis og í bíó bara til að greiða af húsnæðisláninu.

Stjórnvöld eiga að vera neytendavernd

Ef við hefðum stjórnvöld sem þrýsta á lægri útgjöld á húsnæðismarkaði þá fyrst fengjum við lausn. Ef fermetraverð er lækkað, ef lánakjör eru bætt og vaxtagreiðslur eru lækkaðar. Ef við þyrftum ekki að greiða okurvexti af óverðtryggðum lánum, ef fjármálafyrirtæki kæmust ekki upp með að beina fólki inn á óhagkvæmustu lán á markaðnum til að lækka mánaðarlegu útgjöldin þeirra.

Það er nefnilega skammgóður vermir að fá fyrirframgreiddan arf til að hafa efni á innágreiðslu á óhagstæðustu lánin, svokölluð Íslandslán.  Arfur á að vera aukapeningur og aukaeignir, ekki gjöf til að ná endum saman.

namskeid