Sjálfstjórn

Untitled-1

Einn af mikilvægustu þáttum þess að breyta lífi sínu er að geta haft áhrif á eigin hegðun og líðan. Hvert og eitt okkar notast við eigin sjálfstjórn þegar við tökum stjórn á gömlum viðbrögðum með því að nota ný viðbrögð í staðinn fyrir gömul. Með viðbrögðum er átt við hugsanir, tilfinningar, viðbrögð við augnablikshvötum (e. impulse control) og hvernig við ráðum við að framkvæma. Mörg persónuleg og samfélagsleg vandamál, þar á meðal eiturlyfjamisnotkun, spilafíkn, átröskun, glæpahneigð og ofeyðsla á fjármunum hafa verið rakin til þess að einstaklingar geti ekki sýnt góða sjálfstjórn.

Við kynnum fyrir ykkur sjálfstjórn því hún er getan til þess að breyta eða ná yfirtökum á hvernig við hegðum okkur, til dæmis í fjármálum. En þessi geta er takmörkuð og minnkar þegar við beitum sjálfstjórn. Þessu má líkja við vöðva og líkamlegan styrk sem þreytist eftir því sem notkun varir lengur. Af því leiðir að því minni sem orkan okkar er því minni verður getan til að hafa stjórn á sjálfum sér. Okkur finnst við ekki geta gert neitt því okkur finnst við andlega þreytt.

Samsetning sjálfstjórnar

Skuldlaus.is byggir fjármálaráðgjöf sína á kenningum Baumeister um hvernig sjálfstjórn okkar þarf þrjá þætti til að virka fullkomlega. Þessir þættir eru eru:

  1.  Markmið 
  2. sjálfskoðun
  3. viljastyrkur

Markmið

Markmið eru nauðsynleg undirstaða og frumástæða þess að geta breytt núverandi hegðun eða aðstæðum. Til þess að geta breytt núverandi stöðu þá þurfum við að setja okkur eitthvert nýtt markmið. Sem dæmi má nefna að ef viljum bæta fjárhagsstöðuna þarf markmiðið að vera betri fjárhagsstaða en við upplifum í dag. Markmiðið þarf að auki að vera raunhæft til þess að við viljum og getum náð því. Sé illmögulegt að ná því eru meiri líkur á að verkefnið vaxi okkur í augum og við gefumst upp. Óraunhæf eða ruglandi markmið eru einnig líklegri til þess að við missum viljann til að ná þeim.

Sjálfskoðun

Sjálfskoðun (e. self-monitoring) er aðferð til þess að fylgjast með árangri. Almennt er árangur mældur með sífelldri endurskoðun; hvar er ég núna og hvað er langt í að ég nái markmiðunum mínum. Sjálfskoðun er mikilvæg til þess að geta breytt núverandi hegðun. Dæmi um sjálfskoðun er þegar einstaklingur vill bæta málfar sitt. Þá hlustar hann á sjálfan sig tala til að gera sig meðvitaðan um málfar og getur þannig metið hvort hann tali rétt mál. Verði hann var við rangt málfar getur hann gert breytingar á framsögn og orðalagi. Þetta ferli er meðvitað og endurtekið til að hafa áhrif á málfarshegðun og þannig nálgast og uppfylla markmiðið að tala gott mál. Í næsta hluta förum við yfir hvernig við beitum sjálfskoðun til að bæta fjármálin.

Viljastyrkur

Grunnþáttur sjálfstjórnar er getan til þess að standast freistingar eða mótlæti. Jafnvel þótt einstaklingur sé með skýr markmið og fylgist mjög vel með eigin hegðun og hugsun þá þarf hann að búa yfir vilja til að framkvæma. Án þessa viljastyrks eru fyrri þættirnir tveir, markmið og sjálfskoðun, tilgangslitlir.

Viljinn til að framkvæma og ná settum markmiðum er mældur í áhrifunum (e. affect) sem eitthvað ástand hefur á okkur. Samkvæmt styrkleikalíkani Baumeister er viljinn sambærilegur við líkamlegan vöðvastyrk. Einstaklingur finnur fyrir áhrifum þess að færast nær eða fjær markmiðum sínum. Ef við færumst nær eru áhrifin jákvæð og við upplifum tilfinningar eins og ákefð, kæti og eftirvæntingu. En ef við færumst frá markmiðunum finnum við neikvæð áhrif og upplifum tilfinningar eins og vonbrigði, reiði og sorg. 

Þessar tilfinningar hafa áhrif á viljann til að framkvæma. Uppfull af ákefð, kæti og eftirvæntingu þá er viljinn mikill en séum við uppfull af sorg, reiði eða vonbrigðum þá verður viljinn til að framkvæma lítill.  

Tilfinningarnar sem við upplifum þegar við fjarlægjumst erfiðaleika eins og fjárhagsáhyggjur eru léttir eða ánægja. Ef við erum ekki að ná að vinna okkur út úr vandanum verða tilfinningarnar ótti, sektarkennd eða kvíði.

Það er meira en bara að ná markmiðum sem hefur áhrif á viljann til að framkvæma. Ytri þættir eins og dagleg störf og heilsa hefur áhrif. Þegar við finnum fyrir stressi, máttleysi og reiði minnkar viljinn. Undir slíkum kringumstæðum á einstaklingur erfiðara með að standast freistingar. Þá gætum við frekar gefist upp fyrir skyndilausnum til að losna við erfiðar tilfinningar. 

Við hjá Skuldlaus.is teljum mikilvægast að kunna að bregðast við áhrifum tilfinninga og hugarfars. Við teljum það mikilvægara en að geta sett markmið og mælt árangur. Tilfinningar geti haft meiri áhrif á viljastyrk en hinir þættirnir tveir því án viljastyrksins verða þeir þættir ekki til gagns. Okkur mun skorta orku til að framkvæma og ná markmiðum og þá gefusmt við upp fyrir gamalli hegðun eða skyndilausnum. 

Mikilvægt er að muna og treysta því að við getum endurnýjað viljastyrkinn með slökun eða hvíld og með því að borða hollan mat. Það er líka mikilvægt að eiga góða vini og ættingja sem veita okkur næga hvatningu sem dugar til að halda áfram að vinna að markmiðum.

Í næsta hluta byrjum við vinnuna sjálfa, að færast frá fjárhagsvanda til fjárhagslegs bata, með því að beita sjálfskoðun.

 

Heimildir

bok-ofan-post