Bankarnir eru krabbamein

panta-bok-fritt

Gunnar Smári Egilsson skrifaði í Fréttatímann 6. júlí 2015. Birt með góðfúslegu leyfi hans:

Frá því að bankarnir þrír, Íslandsbanki, Arionbanki og Landsbankinn, voru endurreistir fyrir almannafé hafa þeir skilað 392 milljarða króna hagnaði á núvirði. 419 milljarða króna hagnaði séu fyrstu þrír mánuðir þessa árs teknir með.

Þetta er hreint ævintýralegur hagnaður í ekki stærra hagkerfi á ekki lengri tíma, aðeins sex og hálfu ári. Hagnaðurinn jafngildir 177 milljón krónum á hverjum degi frá Hruni. Á þessum sama tíma þurfti allur almenningur að herða sultarólarnar og þola mikla skerðingu ráðstöfunartekna sinna, ríkissjóður þurfti að skera niður framlög sín til velferðarmála, sveitarfélög drógu saman seglin og stofnanir úr þjónustu. En bankarnir höfðu það hins vegar fínt. Sem er magnaður andskoti, því ef eitthvert fyrirbrigði ber meiri sök en önnur á Hruninu og efnahagslegum ógöngum Íslendinga; þá eru það bankarnir.

Út úr öllum kortum

Ég hef áður skrifað um hversu miklu meiri hagnaður íslensku bankanna er en þekkist í öðrum löndum. Þegar norsku bankarnir skiluðu helmingi minni hagnaði miðað við fólksfjölda en þeir íslensku ærðist þingið ríkisstjórnin, verkalýðshreyfingin og fjölmiðlarnir í Noregi. Bankarnir voru neyddir til að lækka vexti og draga með öðrum hætti úr því sem þeir soguðu til sín af fjármunum frá heimilum og fyrirtækjum. Íslendingar æmtu ekki þegar bankarnir fóru yfir norsku sársaukamörkin og þeir æmta ekki enn; þótt bankarnir hafi dregið til sín rúma 200 milljarða króna í hagnað frá Hruni umfram sársaukamörk Norðmanna.

Samanlagður hagnaður bandaríska bankakerfisins nam um 0,88 prósentum af landsframleiðslu Bandaríkjanna í fyrra. Samanlagður hagnaður íslensku bankanna þriggja frá Hruni og til ársloka í fyrra nam hins vegar 2,82 prósent af landsframleiðslu Íslands á tímabilinu. Samkvæmt því hafa Íslensku bankarnir þrír tekið til sín hagnað sem er 288 milljörðum króna hærri en ef þeir hefðu látið sér lynda bandarískan bankagróða — sem flestum þarlendra þykir reyndar nóg um.

Meiri hagnaður en í norrænum bönkum

Ef við skoðum reikninga nokkurra norrænna banka (Danske bank, DNB, Nordea, JyskeBank, SEB og Swedbank) þá er samanlagður hagnaður þeirra um 0,5 prósent af samanlögðum heildareignum. Hlutfallið er 0,1 prósent hjá Danske bank en 0,5 prósent hjá Nordea, 0,6 prósent hjá Jyske og 0,8 prósent hjá DNB, SEB og Swedbank. Ef við sleppum Danske bank vegna þess hvað hann sker sig frá; er hagnaður hinna 0,6 prósent af heildareignum. Þetta hlutfall er hins vegar 2,8 prósent hjá íslensku bönkunum þremur samanlögðum. Ef þeir tækju til sín í hagnað í sambærilegu hlutfall af heildareignum og norrænu bankarnir hefðu þeir frá Hruni skilið eftir 329 milljarða króna í íslensku samfélagi.

200 þúsund ferðamenn og 2,5 sinnum makríllinn

Sjálfsagt má deila um hvaða mælikvarða best er að nota til að meta of mikinn hagnað bankanna; mannfjölda, landsframleiðslu, hagnað af heildareignum eða eitthvað annað. Oftaka bankanna getur verið 200 milljarðar króna, 288 milljarðar króna, 329 milljarðar króna eða eitthvað þarna á milli. En það er sama hvernig á málið er litið; hagnaður bankanna er allt of mikill og skaðlegur samfélaginu.

Þessi fáránlegi hagnaður banka í miklum efnahagslegum þrengingum fyrir allan almenning sýnir að stjórnvöld hafa lagt mesta áherslu á að endurvekja sama skrímslið og skaðaði almenning mest. Engin endurreisn hefur tekist jafn vel á Íslandi og endurreisn bankanna —ef við mælum árangurinn í hagnaði bankanna. Ef við gerum hins vegar ráð fyrir, eins og aðrar þjóðir gera, að of mikill hagnaður banka sé samfélagslegt mein þá hefur endurreisn bankanna tekist hörmulega og valdið miklum skaða.

Ísland væri miklu betur sett ef bankarnir hefðu dregið minna til sín; ef þessir 200 til 329 milljarðar króna hefðu fengið að ávaxtast hjá fyrirtækjum og fjölskyldum í stað þess að vera notaðir til að efla bankakerfið og auka arð eigenda þess. Sé miðað við bandarískan bankahagnað samsvaraði umframhagnaður íslensku bankanna í fyrra tæplega 3 prósent af landsframleiðslu. Oftekinn bankagróði er því efnahagsleg stærð á borð 200 þúsund ferðamenn, tvo og hálfan makrílútflutning eða 27.750 króna hækkun mánaðarlauna til allra starfandi Íslendinga.

Stórt kerfi í litlu og lokuðu landi

Umfang íslenska bankakerfisins er minna en á Norðurlöndunum sé miðað við landsframleiðslu. Á meðan heildareignir íslenska bankakerfisins eru 167 prósent af landsframleiðslu er hlutfallið 212 prósent í Svíþjóð, 248 prósent í Danmörku og 249 prósent í Finnlandi. Hlutfallið er lægra í Noregi, 139 prósent, en það er vegna þess að olían spennir upp landsframleiðsluna en er haldið að miklu leyti utan hagkerfisins.

Það er hins vegar spurning hvort rétt sé að bera saman hrunið íslenskt bankakerfi í harðlæstu hagkerfi bak við gjaldeyrishöft saman við bankakerfi sem hafa fyrir löngu jafnað sig af sínum hrunum og starfa í stabílum hagkerfum. Líklega væri nær að bera íslenska kerfið við Lettland (130%), Slóveníu (128%), Tékkland (118%), Slóvakíu (85%), Pólland (84%) eða Litháen (66%). Í þessum samanburði er íslenska kerfið óvenjustórt.

319 milljarðar frá Hruni til eigenda

Þessi 419 milljarða króna hagnaður bankanna frá Hruni á núvirði er hagnaður eftir skatta að viðbættum hagnaði af aflagðri starfsemi og öðru slíku. Sem sé bottom line, sá hagnaður sem eigendurnir hafa til ráðstöfunar. Samanlagður hagnaður bankanna þriggja fyrir skatta frá Hruni var hins vegar 500 milljarðar króna á núvirði. Ef við bætum við hagnaði af aflagðri starfsemi og öðru slíku þá var heildarhagnaður um 528 milljarðar króna. Af þeirri upphæð fóru 109 milljarðar í skatta og 98 milljarða í arð. 321 milljarður króna fór síða til að styrkja reksturinn og eiginfjárstöðuna.

Ef við skiptum heildarhagnaðinum niður þá hefur ríkissjóður fengið 21 prósent í skatt, eigendurnir 18,5 prósent í arð en 60,5 prósent hagnaðarins fór í að styrkja bankana eða var geymdir þar til síðari tíma útgreiðslu á arði til eigendanna.

Samanlagt eigið fé bankanna hækkaði úr 372 milljörðum króna á núvirði frá stofnun bankanna í október 2008 í 593 milljarða króna eftir þrjá fyrstu mánuði þessa árs. Eigið fé bankanna hefur því styrkst um 221 milljarð króna á þessu sex og hálfa ári. Á tímabilinu hafa eigendurnir greitt sér 98 milljarða króna í arð. Samanlagðar arðgreiðslur og styrking eiginfjár bankanna nema því um 319 milljörðum króna frá Hruni. Segja má að sú upphæð sé bætt staða bankanna og eigenda þeirra. Það er um það bil 135 milljónir á dag sem hafa þannig sogast úr efnahagslífinu og til eigenda bankanna.

Almenningur borgar, mikið

Sem kunnugt er á íslenska ríkið Landsbankann að mestu leyti og lítinn hlut í hinum bönkunum, Íslandsbanka og Arionbanka. Ef við skiptum arðgreiðslum á milli eigendahópanna þá fékk ríkið til sín tæpa 58 milljarða króna á núvirði en kröfuhafarnir (stundum kallaðir hrægammar) rúma 40 milljarða króna. Ástæða þess að ríkið hefur fengið meira er að Landsbankinn hefur greitt út hlutfallslega meiri arð en hinir bankarnir. Eigandinn þar þarf á peninga að halda á meðan eigendur hinna bankanna komast ekki með arð sinn úr landi.

Ef við skiptum aukningu eigin fjár bankanna á milli ríkisins og kröfuhafanna þá er hlutur ríkissjóð tæplega 63 milljarðar króna en kröfuhafanna 158 milljarðar króna.

Samanlagður bættur hagur hluthafanna vegna arðgreiðslna og aukins eigin fjár bankanna er þá 121 milljarður króna til ríkisins og 198 milljarðar til kröfuhafanna. Þetta er væn summa til kröfuhafa (áður nefndir hrægammar). Hún er afrakstur óeðlilegri stöðu íslensku bankanna í efnahagslífinu, stöðu sem ríkið færir bönkunum og gerir þeim fært að draga til sín óheyrilega mikinn hagnað.

Þessi upphæð er tæplega helmingurinn af stöðugleikaframlaginu samkvæmt samkomulagi Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar við kröfuhafanna. Það má því segja að íslenskur og almenningur og fyrirtæki hafi lagt kröfuhöfunum góðan hluta af þessu framlagi.

Eigið fé greitt út sem arður

Hlutabréf norrænu bankanna, sem ég nefndi áðan (Danske bank, DNB, Nordea, JyskeBank, SEB og Swedbank) eru að meðaltali metin á markaði á um 1,5 sinnum eigið fé. Ef við gerum ráð fyrir að það sama gildi um íslensku bankanna þegar og ef þeir verða seldir þá myndi 221 milljarður króna í aukið eigið frá Hruni hafa aukið verðmæti þeirra um 332 milljarð króna. Ef sú væri raunin myndi samanlagður arður og verðmætaaukning bankanna gefa ríkissjóði 152 milljarða króna en kröfuhöfunum 277 milljarða króna eftir rekstur í sex og hálft ár eftir Hrun. Það er samanlagt 429 milljarðar króna — álíka upphæð og 1,3 milljón króna á hvern Íslending; 108 þúsund krónur til bankanna í hverjum mánuði frá Hruni frá hverju mannsbarni á Íslandi.

En aukið eigið fé eykur líklega ekki verðmæti íslensku bankanna svo mikið. Þeir eru í raun með alltof mikið eigið fé; eru útbólgnir af því. Það hefur hlaðist upp vegna óvenjuhárra krafna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall en líka vegna ógnargróða bankanna og lítils vilja hluthafana að greiða sér út arð, þar sem þeir eru lokaðir inn í fjármagnshöftum. Áður en bankarnir verða seldir munu hluthafarnir því líklega greiða sér út umtalsverðar fjárhæðir af þessu eigin fé sem arð.

Það er of snemmt að spá um hvernig að þessu verður staðið. Samningar kröfuhafana við ríkið og Seðlabanka eru með ákvæði sem hvetja ríkissjóð til slaka á eiginfjárkvöðum svo að finna megi hagkvæmustu skiptingu milli arðgreiðslna og söluverðs fyrir kröfuhafanna. Ef við ímyndum okkur að þriðjungur eigin fjárins yrðu greiddur út sem arður en bankarnir síðan seldir fyrir 1,5 sinnum eigið fé þá fengi ríkið í sinn hlut sem arð og aukið verðmæti bankanna frá Hruni um 121 milljarð króna en kröfuhafarnir 198 milljarða króna.

Almenningur borgar fyrir hrægamma

Hér er ekki tekið tillit til ákvæða um að svo og svo mikið renni til ríkisins ef söluverðið verði svo og svo hátt. Líta má á þau álvæði sem hvata til að halda uppi verðinu, til dæmis með því að þrengja ekki að góðri stöðu bankanna með skattlagningu eða harðari reglum. Þessi ákvæði eru form á stöðugleikaframlaginu fremur en eignaskipti milli ríkis og kröfuhafanna og því utan þessara vangaveltna hér.

Uppstillingin á sölu bankanna kann líka að verða önnur en sú sem hér var tekið dæmi af og upphæðirnar aðrar. Það er þó ljóst að að stór hluti stöðugleikaframlags kröfuhafanna kemur úr óeðlilegum hagnaði stóru bankanna frá Hruni; hagnaði sem er margfalt meiri en aðrar þjóðir þola sínum bönkum. Þegar upp verður staðið munu íslensk heimili og fyrirtæki því hafa fjármagnað stöðugleikaframlag kröfuhafanna. Ekki með eðlilegri ávöxtun á lánsfé heldur með fullkomlega óeðlilegum ofurgróða bankanna.

Almenningur seldur með

Það er því ekki rétt að stilla málum upp þannig að kröfuhafarnir séu loks að greiða skaðabætur inn í íslenskt samfélag fyrir hönd bankanna sem féllu. Að miklu leyti er það almenningur, sá sami almenningur og varð fyrir mesta skaðanum, sem hefur fjármagnað gjaldið sem kröfuhafar reiða af hendi til að losna frá Íslandi.

Almenningur situr hins vegar eftir með skaðann af Hruninu, kostnaðinn af lausnargjaldi kröfuhafanna og bölvaða bankanna í ofan á lag; efnahagsleg krabbamein sem soga til sín margfalt meiri fjármuni úr hagkerfinu en bankakerfi í öðrum löndum er leyft að gera.

Að stóru leyti byggjast samningar ríkis og Seðlabanka við kröfuhafana á að viðhalda óeðlilegri stöðu bankanna í efnahagslífinu til að fá sem hæst verð fyrir bankana þegar þeir verða seldir. Þegar það gerist verður íslenskur almenningur seldur með. Hann er forsenda fyrir áframhaldandi ógnargróða bankanna.

Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is

panta-bok-fritt