Atvinnuleysisbætur snúast ekki um bæturnar

bok-ofan-post

Atvinnuleysisbætur hafa verið algeng tekjulind einstaklinga síðastliðin ár. Margir sóttu rétt sinn til Vinnumálastofnunar (VMST) eftir bankahrunið 2008 vegna atvinnuleysis til að bregðast við tekjumissi. Síðastliðin ár hef ég tekið eftir auknum misskilningi á hvernig atvinnuleysisbætur eru í raun uppbyggðar. Margir þeirra sem ég hef aðstoðað telja þetta vera sjálfsagðan rétt sinn til bóta –en það er ekki alveg rétt.

Atvinnuleysisbætur er réttur þeirra sem eru atvinnulausir og uppfylla ákveðin skilyrði. Það er þó ekki sjálfkrafa né sjálfsagður réttur. Atvinnulaus einstaklingur þarf að sækja um bætur sínar og fær þær ekki fyrr en að undangenginni könnun á aðstæðum.

Umsókn um atvinnuleysisbætur er ekki  umsókn um fjárhagsaðstoð. Þetta er samningur milli Vinnumálastofnunar og einstaklings um aðstoð í atvinnuleit. Þeir sem eru í virkri atvinnuleit fái þar að auki fjárhagsaðstoð í formi atvinnuleysisbóta frá atvinnutryggingasjóði. Staðfesti viðkomandi ekki áframhaldandi virkni í atvinnuleit þá falla greiðslur niður. Neiti einstaklingur að þiggja vinnu og getur ekki fært skynsamleg rök fyrir því þá fellur samningurinn líka úr gildi.

Viðhorfið til atvinnuleysisbóta virðist hafa breyst með árunum og í dag er algengt að fólk horfi á bæturnar en ekki samninginn um atvinnuleit sem aðalatriðið. Umræðan verður síðan sú að það sé verið að pína fólk til að sækja einhver (stundum hundleiðingleg) námskeið svo það missi ekki bæturnar.

Reiði fólks gagnvart starfsfólki Vinnumálastofnunnar verður því á röngum forsendum vegna þess að það upplifir að það sé verið að setja þeim afarkosti til að halda bótum. Að þau missi bætur ef þau sinna ekki námskeiðum, ráðgjöf og atvinnuviðtölum sem þau eru boðuð til.

Þetta er sem sagt öfugt.  Þeir sem sækja um atvinnuleysisbætur eru að biðja um þessa aðstoð í atvinnuleit. Þau eru með samning um að þeim verði vísað á námskeið, ráðgjöf og í atvinnuviðtöl. Þau fá greiddar bætur á meðan af því þessi samningur var gerður. Þau missa bætur af því þau brjóta samninginn.

Einnig er algegnt viðhorf að af því einhver er á „bótum“ þá verði það verkefni Vinnumálastofnunar að finna vinnu fyrir hann. Einstaklingurinn bíði og þiggi bætur á meðan. Það er einnig rangt. Einstaklingur sem gerir samning við Vinnumálastofnun er alltaf ábyrgur fyrir atvinnuleit sinni. Hann gerir samning við stofnunina til að auka möguleikana að fá vinnu.

Það er því ekki nóg að þiggja bæturnar og lífa af þeim. Þú þarft atvinnutekjur til að geta byggt líf þitt upp fjárhagslega og félagslega. Nýttu þér þau tækifæri sem Vinnumálastofnun færir þér og gerðu þitt besta til að fá vinnu.

panta-bok-fritt