Að búa til peninga

Untitled-1

Ólafur Margeirsson, hagfræðingur skrifar:

Ekki allir átta sig á því að hver og ein einasta króna í umferð á Íslandi er skuldbinding einhvers. Seðlar og mynt eru t.d. skuldbinding ríkissjóðs í gegnum Seðlabanka Íslands. Um innistæður hjá Seðlabanka Íslands, sem er banki bankanna og banki ríkissjóðs, gildir hið sama. Þetta eru peningar sem ríkissjóður eða Seðlabankinn hefur komið í umferð, t.d. með því að borga fyrir vöru eða þjónustu sem ríkissjóður hefur keypt af borgurum landsins (t.d. laun opinberra starfsmanna). Þetta eru líka peningarnir – og einu peningarnir – sem ríkissjóður samþykkir sem greiðslu á skattaskuld. Innistæða einstaklings hjá banka, sem er skuldbinding bankans, er ekki samþykkt sem greiðsla á skattaskuld (það er bankinn sem samþykkir þá skuldbindingu og skilar svo skattgreiðslunni til ríkissjóðs fyrir hönd skattgreiðandans). Ríkissjóður mun eingöngu samþykkja sínar eigin skuldbindingar – seðla, mynt og innistæður banka hjá Seðlabanka Íslands – sem greiðsla á skattaskuld.

En ólíkt ríkissjóði og Seðlabankanum, sem geta búið til krónur eins og þeim lystir og geta þannig alltaf borgað sínar skuldbindingar í krónum með nýjum skuldbindingum, geta einstaklingar það ekki.

Þegar einstaklingur tekur lán í banka er hann að selja bankanum skuldbindingu sína. Það fer eftir trú bankans á einstaklinginn hvort hann fái lánið og þá á hvaða kjörum (enska orðið „credit“, sem þýðir „lánstraust“, „lán“ eða „innistæða á banka“ kemur frá latneska orðinu „crēdere“. Ítalir segja „io credo“ þegar þeir trúa eða treysta einhverju eða einhverjum). Bankinn borgar fyrir þessa skuldbindingu lántakans með því að borga með eigin skuldbindingu: innláni í þessum sama banka. Og þar sem innlán í banka er hluti af peningamagni í umferð eykst peningamagn í umferð – og þá hugsanlega verðbólga líka – þegar bankinn kaupir skuldbindingu lántakans.

Margir halda að bankar verði að taka við peningum frá einhverjum (innistæðueiganda eða Seðlabankanum) til að geta lánað þá út. En það er ekki rétt. Það eina sem bankinn þarf er lántaki sem hann treystir til að borga lánið til baka og að uppfylla ýmsar reglugerðir, einkum og sér í lagi hvað varðar eiginfjárstöðu sína. Uppfylli bankinn þessar reglugerðir getur hann búið til peninga (innlán), þ.e. lánað fé, eins og honum lystir.

Ferlið er afskaplega einfalt og er eftirfarandi:

Ímyndum okkur eftirfarandi hagkerfi. Við erum með Arion banka, einstaklingin Jón og fyrirtæki, Vélsmiðju Guðfinns. Efnahagsreikningar allra þessara aðila eru eftirfarandi.om-1
Nú vill hann Guðfinnur hjá Vélsmiðju Guðfinns taka lán hjá Arion banka til að borga laun eða kaupa vélar og tól sem kosta meira en 100kr, sem er hans reiðufjárstaða. Hann labbar því inn í bankann og biður um 200kr. lán. Bankastjóranum líst vel á viðskiptaáætlun Guðfinns og treystir honum til borga lánið til baka. Arion banki veitir því Vélsmiðju Guðfinns 200kr. lán og bókar slíkt sem a) innlán í eigu Vélsmiðju Guðfinns hjá Arion banka upp á 200kr. og b) útlán í eigu Arion banka sem Vélsmiðja Guðfinns skuldbindur sig til að borga samkvæmt lánasamningi. Eftir lánveitinguna líta efnahagsreikningar allra aðilanna svona út:

 

om-2

Athugið eftirfarandi:

  • Innistæða Arion hjá Seðlabanka Íslands er óbreytt eftir lánveitinguna, peningarnir komu ekki þaðan
  • Innistæða Jóns er óbreytt hjá Arion banka, peningarnir komu ekki heldur þaðan
  • Jón þurfti ekki að leggja fé inn í Arion banka til að Arion banki gæti búið til skuldbindingu á sjálfan sig og notað hana til að kaupa skuldbindingu Vélsmiðju Guðfinns
  • Peningamagn í umferð jókst um 200kr því innlán Vélsmiðju Guðfinns hjá Arion banka er hluti af peningamagni í umferð.
  • Vélsmiðja Guðfinns getur nú t.d. borgað laun eða keypt vélar og tæki upp að 300kr í stað 100kr. áður.
  • Eiginfjárhlutfall Arion banka hefur lækkað: það var 33% (500kr eigið fé / 1500kr heildareiginir) en er nú 29% (500kr eigið fé / 1700kr heildareignir). Reglugerðir setja takmörk um hversu lágt þetta hlutfall getur verið og þetta getur hamið getu Arion banka til að búa til innlán og veita lán innan eins tímabils. En þegar vextir og hagnaður kemur inn vegna útlána fyrri tímabila eykst eiginfjárstaða bankans svo þessi reglugerð getur ekki hamið bankann sé horft á mörg tímabil.

Það er einkar mikilvægt að allir skilji vel hvernig bankakerfið í reynd virkar, það bætir almenna umræðu um efnahagsmál. Þetta ferli og mörg önnur (t.d. greiðsla frá ríkissjóði, endurgreiðsla láns, greiðsla skatta og margt fleira) verður, ásamt mörgu öðru, útskýrt í bók sem höfundur þessa stutta pistils er að vinna að.

Þú getur styrkt mín skrif með mánaðarlegu 500kr. (5 USD) framlagi á Patreon (www.patreon.com/olafurmargeirsson). Í staðinn færðu áritað eintak af bókinni þegar hún kemur út – og aðgang að öllum öðrum pistlum sem ég skrifa á Patreon.

Bestu kveðjur,

Ólafur Margeirsson, hagfræðingur

www.patreon.com/olafurmargeirsson

 

 

bok-ofan-post