Að skuldfæra jólin

namskeid

Jólalögin og jólaskapið fara að hellast yfir okkur í desember. Sagan segir að flestir komist í jólaskapið og gleðjist. Fólk hugsar með sér að jólin verði að vera grand, eitthvað til að muna eftir. En um leið og við leiðum hugann að peningum sökkva mörg okkar í þunglyndi því við vitum hvað jólin kosta okkur, bæði andlega og fjárhagslega. En þeir eru fleiri sem halda áfram í sínu gamla meðvitundarleysi og hafa jólin eins og áður, á kreditkortinu, og fresta þunglyndinu fram í febrúar.

Það er engin nýjung að fólk taki lán fyrir jólunum. Margir hafa vanist því gegnum árin að hækka heimildir á reikningum og kortum, setja jólin á kreditkortin og redda þessu eftir áramót. Í bandaríkjunum eru til fyrirtæki sem ráðleggja fólki hvernig hægt er að ná sér fjárhagslega eftir jólin. “Holiday hangover” er þekkt hugtak.

En af hverju ættir þú að forðast að setja jólin á kreditkortið? Svarið er einfalt. Kreditkortin eru aðeins blekking. Blekking um að þú getir keypt fleiri gjafir en þú raunverulega hefur efni á. Fyrir vikið ertu að greiða fyrir skuldina löngu eftir jól, jafnvel á raðgreiðslum til næstu jóla. Þú ert kannski að finna falskt frelsi í desember, en aðeins á kostnað þess að vinna þig gegnum fjárhagslegt álag löngu eftir jólin.

Það er ekki þess virði og þú getur farið aðra leið, miklu skemmtilegri.

Núna er  tíminn til þess að setjast niður og áætla jólainnkaupin. Grínlaust þá er þetta besta aðferðin.   Setjast niður núna og plana jólin.  Nokkrar klukkustundir við eldhúsborðið geta þýtt að þú eyðir minni pening í gjafir, en það þýðir ekki að þú sért nýskupúki. Það þýðir að þú hugsir eins og maður.

Ef þú vilt skuldlaus jól eru hér nokkrar hugmyndir:

Taktu ákvörðunina. Segðu upphátt við þig og þína að þessi jól fari ekki í skuld.  Að þú ætlir ekki að gefa þér yfirvinnustundir í jólagjöf.

Frystu kortið. Settu kreditkortið í stórt box sem er fyllt með vatni. Settu boxið í frystinn hjá besta vini þínum. Nú þarftu að þýða klumpinn til þess að geta notað kortið, og þú hefur nægan tíma til að sannfæra vin þinn um kjarakaupin á meðan.

Ákveddu hve miklu þú ert tilbúin/n að eyða, og haltu þig við það. Þegar þú gerir áætlunina mundu að þú eigir bara reiðufé. Hve mikinn pening ertu með í vasanum fyrir þennan mánuð?   Ef þú ert ekki með nægan pening, þá áttu ekki fyrir gjöfunum eða vörunum.  Haltu þig við þess áætlun.

Ég vil benda þeim á sem geta ekki átt skuldlaus (kreditkortalaus) jól, til dæmis vegna þess að of mikill peningur fer í skuldir (kreditkort, lánaafborganir ofl), að þið getið samt verið með. Þið ákveðið upphæðina, eitthvað sem mun ekki sliga ykkur eftir áramót, takið hana út af kreditkortinu, og síðan frystið þið kortið.

Gerðu ráð fyrir fleiru en gjöfum. Margir hafa fallið í þá gryfju að eyða of miklu af ráðstöfunarfé í gjafir, og þurft að skorta ýmislegt annað, til dæmis mat, flugelda, eldsneyti, fatnað og fleira. Ekki treysta á Kreditkortið til að “Redda” þér.

Gerðu gjafalista. Settu alla á listann sem þú vilt gefa gjafir og ákveddu hve dýrar gjafirnar mega vera fyrir hvern og einn. Legðu saman upphæðirnar og leiðréttu þar til allir fá eitthvað og þú skuldar ekki. Til gamans má geta þess að ein jólin fengu allir mínir vinir og ættingjar gjafir að andvirði 500 krónur hver, og enginn kvartaði, ekki einn.

Taktu fólk af listanum. Þetta hljómar ömurlega rétt fyrir jólin, en skoðaðu hverjum þú ert að gefa gjafir. Með fjármagnið í huga, þá geturðu ekki gefið öllum sem þú þekkir gjafir. Sendu jólakort til eins margra og þú kemst upp með, fjarskyldra ættingja, vina sem þú ert í litlu sambandi við, vinnufélaga og svo framvegis.

Ekki versla gjafir fyrir þig. Forðastu að versla “eitt fyrir þig, eitt fyrir mig”. Þá ertu að versla fyrir tvöfalt meiri pening.

Passaðu þig á magnafsláttum. Mikið af 2 fyrir 1 tilboðunum eru bara til þess að þú kaupir meira en þú þyrftir á að halda. Þetta gæti helst gengið til að ná tveim gjöfum á verði einnar, en þá yrðir þú að gera verðkönnun fyrst til að vera viss um að það sé réttur afsláttur.

Notaðu hugmyndaflugið. Það er merkilegt en sumir yrðu himinlifandi að fá heimabakaðar smákökur. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snúast hátíðarnar ekki um gjafirnar heldur að sýna hlýhug og góðmennsku. Þannig að ef þú býrð yfir hæfileikum eins og til dæmis að prjóna, smíða, mála eða yrkja vísur, nýttu það.  Notaðu hugaflugið og gefðu skemmtilegar og persónulegar gjafir.

Hafðu listann alltaf með þér. Það er aldrei að vita hvenær við dettum niður á skemmtilegar gjafir. Byrjaðu að leita að gjöfum strax í dag, löngu áður en örtröðin hefst eða áður en verð fara að hækka.   Þetta er líka gott tækifæri til þess að nota tímann í verðkannanir. Að versla tímanlega kemur líka í veg fyrir stress og að við ofeyðum í hraðanum á síðustu stundu.

Ef verslun býður fría innpökkun, segðu já takk. Þú sparar tíma og pening sem annars færi í pappír, slaufur og skrautbönd.

Hafðu viljann fyrir verkið. Þetta er ofsa gott orðatiltæki og á alveg við núna. Vertu glaðvakandi og passaðu að þú farir ekki fram úr áætluninni þinni.  Ekkert á kortið!!! Mundu að þú ert ekki bara að spara peninga, þú ert að losa þig við leiðinlegan og stressandi lifnaðarhátt.

Ef þú finnur til uppgjafar í þessu verkefni hafðu samband við mig og pantaðu viðtal og ráðgjöf.

Gangi þér vel

panta-bok-fritt