Yfirsýnin mikilvæg

panta-bok-fritt

Grein birt 2. febrúar 2013 Undir liðnum Fjámál Heimilanna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Mynd: Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fjármál heimilanna eru margslungin og fjölþætt sem þýðir að til eru margar leiðir til að spara, skera niður eða hagræða. En til þess að auka líkur á að þessar leiðir beri árangur og að við náum jafnvægi í fjármálunum er eitt af grunnatriðunum að vita hvar við stöndum og högum okkur í fjármálunum. Til þess að ná slíkri yfirsýn er nauðsynlegt að skrá niður allar tekjur og öll gjöld. Með því fáum við besta mögulega yfirlit sem hugsast getur um neyslu okkar.Fyrirtæki halda fjárhagsyfirlit til þess að öðlast yfirsýn yfir reksturinn en þegar einstaklingar eiga í hlut er oftar en ekki litið á slíkt sem kjánalega tímaeyðslu. En mörg okkar eiga ekki auðvelt með að muna í hvað peningarnir fara. Þess vegna mælum við með að fólk bæði skrái niður neysluna og safni kvittunum fyrir kortafærslum sínum. Allar tekjur og gjöld, laun, greiddir reikningar og dagleg neysla er skráð jafn óðum í dagbók. Með slíku yfirliti yfir daglegt líf getum við fljótlega fengið skýra mynd af því hvernig við notum peninga okkar. Nú getum við yfirfarið neysluna og séð hvort allir peningar nýtist okkur eins vel og við viljum. Nú getum við betur séð hverju má breyta til að hafa meiri peninga á milli handanna.

Einstaklingar sem eru gjarnir á að skjótast oft eftir fáum hlutum í klukkubúðir geta til dæmis valið að notast við innkaupalista í ódýrari verslunum og fækka þannig ferðum í klukkubúðir. Einnig er hægt að útbúa matseðil fyrir vikuna og því hægt að kaupa inn fyrir viku í senn. Þar með er kominn sparnaður í tíma, eldsneyti og lægra vöruverði. Með þessum hætti er svo hægt ráðstafa því sem sparast í annað, til dæmis greiða skuldir, leggja inn á sparireikning eða nýta í annan daglegan rekstur á heimilinu. Með aukinni vitund getum við með skjótum hætti öðlast aukna öryggistilfinningu gagnvart fjármálunum.

Allir geta aukið vitund sína á þennan hátt og finna má breytingar mjög fljótt. Að auki bætist við að ef fylgst er svo grannt með neyslunni verður auðveldara að taka aðrar og betri ákvarðanir varðandi hvað er keypt inn. Þannig minnkar neysla á óþarfa og okkur skortir síður nauðsynjavörur. Í lok dags líður okkur mun betur yfir að hafa góða og raunverulega sýn yfir fjármálin okkar.

Haukur Hilmarsson

panta-bok-fritt