Veruleikinn okkar

Untitled-1

Öll lifum við í sömu veröld, öndum að okkur sama loftinu og sjáum sömu sólina.  Öll sjáum við þennan veruleika, en ekkert okkar sér hann sömu augum.  Hvert okkar byggir sinn veruleika upp eftir væntingum og draumum, en líka á reynslu og fortíð.  Okkar persónulega skynjun á veruleikanum er því að mestu leiti tilfinningadrifin.  Á meðan ég kann vel við Ólaf Ragnar Grímsson, gæti þér líkað illa við hann.  Í því ljósi gæti mín upplifun á orðum forsetans verið þvert á þína skoðun.  Þótt orð hans og raunveruleiki sé hinn sami hjá okkur báðum er persónuleg skynjun okkar á veruleikanum, vegna tilfinningalegra skoðana okkar, ekki sú sama.

Ein af óskrifuðum reglum okkar í óheilbrigðum mannlegum samskiptum er að rugga ekki bátnum.  Þegar ég tala um að rugga ekki bátnum á ég við að ég forðist að ræða tilfinningar.  Ef ég segi eitthvað sem gæti komið þér úr jafnvægi, gæti ég vakið upp samskipti með tilfinningar.   Það sem er þrautinni þyngra er að finna hvert þitt jafnvægi er, hver þinn persónulegi veruleiki er.  Eins og áður er komið að eru flestir þeirra sem lifa eftir óheilbrigðum samskiptaleiðum ekki að láta í ljós sínar réttu tilfinningar heldur setja frekar upp flókin leikrit og ljúga sér til um líðan.  Þess vegna mótum við okkur aðferðir til að „lesa hugsanir“ og „lesa á milli línanna“.  Við lærum að bregðast „rétt“ við þegar aðrir meina ekki það sem þeir segja.

Algeng aðferð til að rugga ekki bátnum er að halda sig við sambærilega veruleika.  Til dæmis eiga allir nánast sömu hugmyndir um veðurfar, og því er nokkuð öruggt að ræða um verðrið frekar en pólitík eða trúmál.  Sameiginlegur áhugi á hlutum, til dæmis bílum, getur haldið uppi heilu kvöldi í spjalli án þess að ræða eina einustu tilfinningu aðra en til bíla.

Ford Prefect-heilkennið úr myndinni „Hitch hiker’s guide to the Galaxy“ eftir Douglas Adams, eða „að sífellt staðhæfa hið augljósa“ er líka mjög vinsæl leið til samskipta í sambærilegum veruleika.  Með því að staðhæfa augljósa hluti lágmörkum við möguleikana á að rugga bátnum, og þannig setja okkur og aðra úr jafnvægi.

Dæmi um augljósar staðhæfingar:

Það er rigning
Þú ert á bílnum
Þú ert með húfuna

Dæmi um augljósar spurningar:

Er rigning?
Ertu á bílnum?
Ertu með húfuna?

Sjónvarpsþættir og persónur þeirra eru dæmi um hliðstæða veruleika.  Margir eiga samskipti við aðra um persónur þáttana, þessa hliðstæða veruleika, og ræða tilfinningar sínar sem þær væru tilfinningar ímyndaðra persóna þáttanna.  Þannig getur þú fengið svörun við þínum tilfinningum án þess að taka ábyrgð á þeim og afhjúpa að þær séu þínar.  Einnig leitum við leiða til að færa okkur frá veruleika okkar í einsemd og upplifa tilfinningar persóna þáttanna.  Með því að sökkva sér í vanlíðan og drama annarra má færa sig frá og aftengja sig sínum persónulega veruleika.  Sjónvarps-sápuóperur gera líklega það sama fyrir okkur og Gróa á Leyti gerði áður fyrr, bara án ábyrgðar.

Ein aðferð til að bera ekki ábyrgð á okkar tilfinningum er að nota það sem ég kalla fjarstýringuna.  Ég er óánægður með hvernig þú kemur fram við mig.  Í stað þess að segja þér það beint segi ég einhverjum öðrum að ég sé óánægður með þig.  Yfirleitt fær einhver sem getur talað við þig þessar fréttir af tilfinningum mínum og kemur þeim til skila.
Ætlunin er að þú munir fyllast skömm og sektarkennd og bregðast við með því að breyta hegðun, sýna iðrun, jafnvel tala við mig um málið.  Komi í ljós að þú bregðist ekki „rétt“ við, reiðist, komir mér í vonda stöðu, og sv.frv., get ég alltaf borið af mér ábyrgð, til dæmis með að segja að einhver af milliliðunum hafi misskilið málið.

Annað varðandi að rugga ekki bátnum er þegar við gefum stöðugt eftir.  Þegar við gefum allan okkar tíma til einhverra annarra.  Til dæmis nýr vinur eða vinkona.  Þá gefum við eftir áhugamál, vinnu, nám, frítíma til þess að uppfylla þarfir viðkomandi.  Við hættum að eiga mörk.

Ef þú átt erfitt að þekkja þín mörk frá annarra eða spurningum er ósvarað er þér velkomið að hafa samband við mig og leiða aðstoðar og leiðasagnar.

Kveðja,

Haukur

Untitled-1