Veltuverkfall

namskeid

Bankar voru í upphafi frábær hugmynd, en einmitt bara það, frábær hugmynd.  Þeir áttu að vera góð viðbót og ætlaðir til að auka þægindi okkar, en þeir voru aldrei, og verða aldrei nauðsynlegir í samfélaginu.

Það fer til að mynda enginn með hjartveikan mann í banka.  Það er brunað beint á sjúkrahús.   Það fer enginn með ólæs börnin í næsta bankaútibú.  Þau fara í skóla.  Og á meðan enginn er samdrátturinn í nýjum og/eða gjaldþrota bönkum sættum við okkur við niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og menntamálum.

Bankinn er bara fjármiðill.  Lánar og geymir peninga, og það meira að segja á mjög ósanngjörnum kjörum.  Enn bankar hafa gert sig ómissandi í alltof flóknum fjármálaheimi.  Veð og ábyrgðir, vextir og verðbólga binda okkur eins og þræla.

Því fyrr sem við sjáum að bankar eru bara þjónustufyrirtæki, því fyrr losum við okkur úr ímynduðu skuldafangelsinu.  Okkur dugar einn banki.   Og ef hann hentar ekki eða verður gráðugur, þá hættum við að versla við hann og fáum okkur annan. Punktur.

Það er hávær umræðan núna varðandi greiðsluverkfall almennings, en ég hef heyrt marga telja þetta góða hugmynd og væru samt bara með ef þeir þyrðu.  Flestir óttast nefnilega ömurleg ítök bankanna og leiðir þeirra gegnum veð, ábyrgðir og dómstóla til að gera viðskiptavini sína öreiga.

En þetta er ekki ómögulegt.  Við eigum öll okkar tækifæri til þess að láta heyra í okkur.

Ein leiðin er áhlaup á bankana, eða veltuverkfall.  Veltuverkfall er ekki greiðslustöðvun, það hættir enginn að greiða af lánum og/eða hættir að greiða reikninga.  Í veltuverkfalli hættum við að velta peningunum okkar,  launum og sparifé, gegnum bankana. Við hættum að versla ónauðsynjar af bönkunum.

Gerðu til dæmis:

  • Forðastu að velta peningum í gegnum bankakerfið.
  • Reyndu að greiða reikninga milliliðalaust
  • Farðu einfaldlega fram á að launin verði greidd út í seðlum.
  • Notaðu staðgreiðslu í stað debit og kreditkorta
  • Stingdu debitkortinu ofan í skúffu
  • Farðu í bankann og tæmdu alla reikninga.

Ef þú átt ekki kost á að loka reikningum vegna til dæmis yfirdráttarskuldar, leggðu mánaðarlega inn á reikninginn og láttu lækka yfirdráttinn sem því nemur.  Hafðu bara eins lítinn pening í bankanum og þú getur.

Ef þú vilt ekki geyma peninginn undir koddanum, má leigja bankahólf eða leggja hann inn hjá minni Sparisjóðabönkum, sem faldir eru um land allt.  Hagsmunasamtök Heimilanna eru til dæmis með reikning hjá Sparisjóði Suður Þingeyinga – Laugum.

Aðalatriðið er að þú ræður hvert þú beinir peningunum þínum. Hvort sem það eru verslanir, bensínstöðvar, bankar eða koddinn.  Þú ræður.

Ég er í veltuverkfalli.  Hvað ætlar þú að gera?

panta-bok-fritt