Þeir sem skulda tapa alltaf

namskeid

Gunnar Smári Egilsson skrifaði í Fréttatímann 21. júlí 2015. Birt með góðfúslegu leyfi hans :

Skoðum aðeins hvernig kjör fólks breyttust frá aldamótum og fram til 2007; á árunum sem leiddu til hruns efnahagslífsins.

Á þessum sjö árum jukust atvinnutekjur einstaklinga um 46 prósent á föstu verðlagi. Heildartekjurnar jukust mun meira vegna mikillar hækkunar fjármagnstekna eða um 78 prósent. Að krónutölu var hækkun fjármagnstekna næstum sú sama og hækkun atvinnutekna eða um 325 milljarðar króna að núvirði. Samanlögð hækkun atvinnu- og fjármagnstekna voru því um 650 milljarðar króna á núvirði eða sem svarar til um 93 milljarða króna tekjuaukningar á ári.

Góðæri byggt á lánum

Til viðbótar við auknar atvinnu- og fjármagnstekjur tóku Íslendingar um 1150 milljarða króna í ný lán á þessum árum eða að meðaltali um 164 milljarða króna á hverju ári. Samanlagt höfðu einstaklingarnir því til ráðstöfunar um 257 milljarða króna meira á hverju ári umfram það sem þeir höfðu árið á undan. Þetta ástand var kallað góðæri.

Af þessum 257 milljörðum króna, sem einstaklingar höfðu að meðaltali til ráðstöfunar á hverju ári umfram árið á undan, mátti rekja 18 prósent til hærri atvinnutekna, 18 prósent til tekna af verðbréfa- og fasteignamarkaði sem var að sjóða upp úr og 64 prósent var vegna aukinnar skuldsetningar. Þetta var því augljóslega ekki sjálfbært góðæri heldur fyrst og fremst drifið áfram af lántökum og að nokkru marki af tekjum sem hlutu að falla með útblásnum markaðnum sem þær byggðust á.

Þótt íslenskur almenningur beri ekki ábyrgð á falli bankanna þá er ljóst áfall vofði yfir fjármálum íslenskra heimila án tillits til þess hvort bankarnir tórðu eða féllu.

Tekjur hækka og fjármagnstekjur líka

Til að átta okkur betur á þessu skulum við skoða hvernig efnahagsleg staða fólks á aldrinum 35 til 50 ára þróuðust fyrir og eftir Hrun. Á þessum aldursárum er fólk hvað virkast á vinnumarkaði samhliða því sem flestir eru uppteknir af barnauppeldi. Þetta eru líka árin sem fólk skuldar mest vegna menntunar og húsnæðiskaupa. Það er ekki fyrr en seinna um ævina að fólk getur almennt lagt fyrir að ráði.

Hjá þessum hópi hækkuðu atvinnutekjur að meðaltali úr 603 þúsund krónum á mánuði árið 2000 í 766 þúsund árið 2007 eða 163 þúsund krónur á mánuði sem gera um 27 prósent. Heildartekjur hækkuðu úr 714 þúsund krónum á mánuði í 1.054 þúsund krónur 2007 eða um 340 þúsund krónur sem eru 48 prósent. Eins og hjá heildinni mátti rekja um helminginn af aukningunni til atvinnutekna. Restin kom af fjármagnstekjum eða öðru.

Árið 2000 voru um 84 prósent af þessum hópi skuldugir. Árið 2007 hafði það hlutfall lækkað í 77 prósent. Færri skulduðu, líklega vegna þess að fleiri komust af án þess að taka lán.

Skuldirnar hækka þó mest

Meðalskuld þeirra sem skuldaði var árið 2000 um 14,8 milljónir króna. Árið 2007 var meðalskuld hinna skuldugu komin upp í 27,7 milljónir króna. Hver skuldugur hafði þannig tekið nýtt lán að andvirði um 12,9 milljónir króna á þessum sjö árum. Það gera um 1054 þúsund krónur á ári eða rúmlega 153 þúsund krónur til viðbótar í hverjum mánuði.

Ef við brjótum tekjuaukningu hópsins niður þá hækkuðu árstekjurnar um 583 þúsund krónur að meðaltali hvert þessara sjö ára. Samanlögð hækkun tekna og ráðstöfunarfjár vegna nýrra lána var því að meðaltali um 1.637 þúsund krónur á ári. Af því voru 17,5 prósent tilkomin vegna hærri atvinnutekna, 18,5 prósent vegna fjármagnstekna og 64 prósent vegna nýrra lána.

Mest af tekjuaukningu fór í að fóðra lánin

Ef við miðum við góð kjör á nýjum verðtryggðum lánum i dag þá greiðir fólk um 4.207 krónur á mánuði af hverri milljón í 40 ár, í 480 mánuði. Fólk endurgreiðir þá bankanum rúmlega tvöfalda þá upphæð sem það tók af láni á föstu verðlagi, 2.020 þúsund krónur fyrir hverja milljón að láni.

Eins og áður sagði var meðaltals skuldaaukning þessa hóps, 35-50 ára, um 12,9 milljónir króna frá árinu 2000 til 2007. Mánaðarleg greiðslubyrði vegna þessara lána sé miðað við kjör dagsins í dag er rúmlega 54 þúsund krónur, en var líklega ívið hærri á þessum árum vegna hærri vaxta. Eins og áður sagði höfðu atvinnutekjur fólks í þessum hópi hækkað um 163 þúsund krónur að meðaltali. Af þeirri upphæð hafa rúmlega 73 þúsund krónur farið í skatta og launatengd gjöld og síðan rúmar 54 þúsund krónur í afborganir og vexti af nýjum lánum. Eftir standa þá 35 þúsund krónur í auknar ráðstöfunartekjur. Fólk hefur því almennt varið um 60 prósent af auknum ráðstöfunartekjum eftir skatta í aukna greiðslubyrði vegna nýrra lána. Það þarf ekki spámann til að sjá að lítið má út af bregða svo lántakan skerði ekki mjög hag þessa fólks.

Tekjurnar lækkuðu en skuldirnar sátu eftir

Og það gerðist auðvitað, eins og allir vita. Fjármagnstekjurnar gufuðu að mestu upp, atvinnutekjur drógust mikið saman og margir áttu í stökustu vandræðum með að standa undir mánaðarlegum afborgunum og vöxtum. Það hefur oft og mikið verið fjallað um hvernig lánin hækkuðu skyndilega og markaðsvirði eignanna lækkaði að sama skapi og það eigið féð sem fólk taldi sig eiga gufaði uppl. Við skulum því ekki ræða breytta eignastöðu heldur aðeins benda á að meðaltekjur þessa hóps drógust saman um 316 þúsund krónur á mánuði eftir Hrunið. Þar af lækkuðu atvinnutekjur á mánuði um 141 þúsund krónur. Svo til öll tekjuaukning góðærisáranna gufaði upp. En skuldirnar sem fólk hafði tekið og taldi sig geta staðið undir miðað við góðæristekjurnar sátu eftir. Og þessi lán þurfti að fóðra mánaðarlega með afborgun og vaxtagreiðslum af skertum launum.

Tekjurnar þær sömu og þrettán árum fyrr

Árið 2013 voru lækkun skulda vegna dóma Hæstaréttar um ólögmæt gengislán, 110%-leiðina, fjölmörg gjaldþrot og eignasölu yfirstaðnar. Þá höfðu skuldir einstaklinga lækkað um 10 prósent að raunvirði frá 2007. En skuldugum hafði fjölgað úr 77 prósent af fólki á aldrinum 35 til 50 ára í 93 prósent árið 2013. Margir sem skuldaði ekkert árið 2007 urðu fyrir tekjutapi og brúuðu það með lántöku. Meðalskuld þeirra sem á annað borð skulduðu lækkað því meira en sem nam heildarlækkun skulda. Meðalskuld skuldugra hafði lækkað úr 27,7 milljón króna 2007 í 20,7 milljónir króna 2013 eða um 7 milljónir sem gera 25 prósent.

Þótt eðli skulda hópsins hafi þannig breyst nokkuð skulum við samt skoða hvernig staða hópsins breyttist frá aldamótum og fram til 2013. Heildartekjur voru nánast þær sömu. Árið 2013 voru þær aðeins 24 þúsund krónum hærri en þær höfðu verið árið 2000, eða 3 prósent hærri. Hrunið hafði svo gott sem þurrkað út alla aukningu heildartekna. Sama má segja um atvinnutekjur hópsins. Þær voru 2013 aðeins 22 þúsund krónum hærri en árið 2000, sem gerir 4 prósent hækkun raunlauna.

Afborganir og vextir nýrra lána hærri en hækkun launa

En 2013 voru skuldirnar hins vegar um 5,9 milljón krónum hærri að meðaltali en þær höfðu verið árið 2000. Afborganir og vextir af slíku láni á góðum kjörum í dag er um 26.500 krónur. Það er ívið hærri upphæð en sem nam hækkun tekna hjá hópnum frá aldamótum. Við þurfum að fara aftur til ársins 1998 eftir viðmiðun svo tekjuaukning hjá hópnum skili meiru en fór í afborganir og vextir af nýjum lánum. Aukin skuldsetning strokaði með öðrum orðum út kjarabætur af auknum tekjum.

Þessi aldurshópur á Íslandi er því í sömu stöðu og millistéttin í Bandaríkjunum að því leyti að bættar tekjur hafa ekki skilað honum neinu. Ef hann hefur meira umleikis en fólk undir lok síðustu aldar, er það vegna þess að hann hefur tekið velferðina að láni. Og megnið af lánunum er á kjörum sem leiða til þess að hópurinn borgar til baka tvöfalda þá upphæð sem hann fékk að láni.

Áttunda undir veraldar

Albert Einstein sagði víst eitt sinn að vaxtavextir væru áttunda undur veraldar. Þeir sem skyldu hvernig þeir virkuðu fengju af þeim arð en þeir sem ekki skyldu þyrftu að borga þá. Íslenskur skuldari sem greiðir til baka rúmlega tvöfalda þá upphæð sem hann fær að láni greiðir hana til einhvers. Sá getur lánað aftur þá peninga sem Íslendingurinn greiðir mánaðarlega og fengið af þeim frekari vexti. Þegar Íslendingurinn hefur eftir 40 ár greitt 2.020 þúsund krónur fyrir hverja milljón sem hann fékk að láni hefur sá sem lánaði honum breytt þessari sömu milljón í rúmar fimm milljónir með því að lána hana aftur auk vaxtanna sem hann fékk borgaða um hver þessara 480 mánaðamóta.

Þetta kerfi, sem Einstein taldi til undra, er vél sem að mörgu leyti knýr áfram samfélagið sem við lifum í. Vélin flytur hægt en örugglega fjármuni frá þeim sem skulda til þeirra sem eiga, fyrst og fremst bankanna og efnafólks en einnig til lífeyrissjóðanna. Þetta er því sigurverk þeirra sem eiga peninga á sama tíma og það er pyntingartæki fyrir þá sem skulda. Það er engin leið fyrir venjulegan launamanna að ætla að standa vitlausu megin við þetta tæki, skulda megin. Sá sem stendur þeim megin mun borga fyrir auðæfi og velferð þeirra sem standa hinum megin. Launamaðurinn getur látist blekkjast um stund vegna hækkunar á markaðsvirði þess sem hann kaupir fyrir lánið, húsi eða hlutabréfum, en á endanum mun það lækka aftur og þá mun vélin mylja skuldarann undir.

Vitlaus krafa

Þessi vél er svo óréttlát að lengst af mannkynssögunni hefur hún verið bönnuð. Kristnum mönnum var fram að nútímanum bannað að taka vexti af lánum til meðbræðra sinna. Múslimum er það bannað enn í dag. Það er fyrst og fremst á síðustu áratugum sem fólk hefur hætt að véfengja réttmæti og réttlæti þessara vélar og farið að tigna hana; gert hana að sjálfu gangverki samfélagsins. Þetta sést ágætlega á viðbrögðum við Hruninu. Þá voru háværustu kröfurnar um að auðvelda fólki að skulda áfram svo það gæti áfram knúið þessa vél sem flytur fjármuni frá skuldugum til þeirra sem eiga.

Eðlilegri krafa hefði verið sú að byggt yrði upp samfélagskerfi sem byggði ekki á miklum og sífellt hækkandi skuldum almennings. Það er hægt að gera með því að halda kerfisbundið niðri íbúðaverði, bæði kaupverði og leiguverði. Það er hægt að gera með því að auka vægi almannarýmis og almannaþjónustu til að draga úr þörfum fólks fyrir stórt íbúðarhúsnæði. Það er hægt að gera með eflingu almenningssamgangna og ódýrra bílaleiga til að draga úr þörf fólks fyrir að skuldsetja sig vegna bílakaupa. Og sjálfsagt er hægt að gera margt fleiri. Ég ætla ekki að nefna fleira hér heldur benda á að í raun ætti samfélagsumræðan meira og minna að snúast um hvernig losa megi meginþorra almennings úr skuldum og slökkva á þessari vítisvél.

Það er mikilvægt fyrir efnahagslega heilsu meginþorra fólks. En það er líka mikilvægt fyrir félagslega heilsu samfélagsins. Þessi vél sem færir fé frá þeim sem eiga ekkert til þeirra sem eiga allt eitrar samfélagið, verðlaunar fólk fyrir hegðun sem er ósæmandi heiðvirðu fólki og brýtur niður fólk sem hefur lítið annað til sakar unnið en að vilja búa sér og sínum sæmilegar lífsaðstæður.

Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is

namskeid