Svangir kaupa öðruvísi mat en saddir

namskeid

Það er gömul speki og margreynd að fara ekki svangur út í búð. Þá kaupir maður eitthvað í fljótfærni og eyðir of miklum pening. En kaupum við meiri mat eða erum við að kaupa annan mat en við myndum kaupa ef við værum södd?

Food and Brand Lab hjá Cornell háskóla hefur til margra ára rannsakað kauphegðun fólks. Í tveimur af þeirra rannsóknum (1) var reynt að svara þessari spurningu með því að fylgjast með hvernig vörur fólk verslar þegar það er svangt.

Fyrri rannsóknin var gerð á þátttakendum sem höfðu ekki borðað í fimm klukkustundir. Var þeim skipt í tvo hópa þar sem annar hópurinn fékk að borða kex þar til þau yrðu södd en hinn hópurinn fékk ekkert að borða. Þau voru svo öll látin versla mat í netverslun. Til að gæta jafnræðis voru sambærilegar vörur í boði með annars vegar hátt kaloríuinnihald og hins vegar með lágt kaloríuinnihald. Kaloría er mælieining fyrir orkuinnihald matvöru (2). Engar vörur voru verðmerktar.

Í seinni rannsókninni var fólk látið versla í sömu netverslun á hungurtímabili dagsins, til dæmis eftir vinnu en fyrir kvöldmat.

Niðurstaðan er áhugaverð. Þeir sem borðuðu ekkert aður en þau versluðu völdu vörur með hærra kaloríuinnihaldi en þau sem höfðu borðað.  Hungur eykur virkni heilans gagnvart ákveðnum tegundum matar og þótt við séum aðeins án matar í stuttan tíma þá hefur það greinileg áhrif á hvernig mat við veljum í verslunarferðum okkar.  Fólk velur síður mat með lágu kaloríuinnihaldi.

Það er því eins og undirmeðvitund stýrir okkur í að versla orkuna sem okkur vantar frekar en meira magn eða þær vörur sem eru okkur hollari.

Í rannsókn sem gerð var af Minnesota háskóla (3) kom í ljós að svangir eru líklegri til að kaupa sér aðrar vörur en matvöru. Jafnvel eitthvað sem vantar ekki. Eru tengsl nefnd á milli þess að hungur vekur upp söfnunartilfinningu og það ýti undir óhugsaða hegðun og versla óundirbúið aðrar vörur en mat.

Ekki fara svöng út í búð

Það er því okkur mikilvægt að gæta okkar í innkaupum. Nota alltaf innkaupalista til að versla þær vörur sem við þurfum að kaupa og forðast það að fara svöng í búðina. Stundum er nóg að fá sér einn banana eða brauðsneið áður en við förum að versla.

 

Heimildir:

namskeid