Stærstu mistök ríkisstjórnarinnar (og þau næststærstu)

bok-ofan-post

fréttabréf www.spara.is

Það eru allir kostir vondir, segir fjármálaráðherra, og svo sannarlega er það rétt en að velja lakasta kostinn er ekki þjóðráð. Hækkun á neyslusköttum er líklega það versta sem ríkisstjórnin gat gert við núverandi aðstæður því að hún leggst með tvöföldum þunga á heimilin sem ekki mega við miklu. Í fyrsta lagi hækkar verðlag svo að minna verður eftir í buddunni til þess að borga annað og, í öðru lagi, hækka lán og afborganir vegna verðtryggingarinnar.

Ég velti því fyrir mér hvort ríkisstjórnin og hagfræðilegar ráðgjafar hennar líti á heimilin í landinu fyrst og fremst sem þjóðhagslega stærð sem hægt sé að stýra með tilfærslum á fjármunum. Einkaneysla, sem er ekkert annað en útgjöld heimilanna, er stærsta einstaka þjóðhagsstærðin og hefur langmest áhrif á efnahagskerfið, það er því afar freistandi að leika sér með hana í hagfræðilíkaninu. Í eðlilegu árferði væri ekkert við það að athuga að hækka veltuskatta sérstaklega á vörur eins og tóbak og áfengi, bensín og jafnvel sykur. Adam Smith, faðir klassískrar hagfræði, nefndi sjálfur neysluvörurnar, tóbak, romm og sykur, sem einstaklega vel fallnar til skattlagningar. En við búum ekki við eðlilegt efnahagsástand og því kunna “eðlilegar” efnahagsaðgerðir að reynast banvænar.

Ég velti því einnig fyrir mér hvort ríkisstjórnin líti á heimilin eins og þau séu neðst í “fæðukeðjunni” og því verði þau að taka á sínar herðar efnahagshrunið og hjá því verði einfaldlega ekki komist, eðli máls samkvæmt. Frysting lána, lengingar og greiðslujöfnun eru þá aðgerðir sem eigi að gera heimilunum kleift að taka á sig byrðarnar í þeirri von að efnahagurinn batni á næstu árum og þau muni því lifa hremmingarnar af.

Ef þetta er kjarninn í hugsun og aðgerðum ríkisstjórnarinnar, þá er hún að gera sín mestu mistök, og þau næstmestu líka. Heimilin eru lifandi fólk sem getur brugðist við með allt öðrum hætti en reiknilíkanið gerir ráð fyrir og það er ekki ólíklegt að það verði raunin í því viðkvæma og ótrygga og ástandi sem er í landinu.

Næststærstu mistök ríkisstjórnarinn væru að gera ráð fyrir efnahagsbata næstu árin. Ef við myndum aðeins rétta úr hnjánum og reisa höfuðið til þess að líta í kringum okkur, þá blasir næstum því við að löndin í kringum okkur eru að glíma við efnahagskreppu og einnig gjaldmiðlakreppu, líkt og við Íslendingar. Bretar eru á barmi gjaldþrots og pundið fellur, Bandaríkin eru að skuldsetja sig í þrot og dollarinn fellur, ríki ESB eru einnig að glíma við svipaðan vanda hvert um sig og sameiginlega. Alþjóðlega orkumálastofnunin spáir hækkun olíuverðs í 200 USD á fatið á næstu árum og það, eitt og sér, yrði rothögg fyrir iðnvætt efnahagslíf vesturlanda. Með þetta í huga veit ég satt best að segja ekki hvað ríkisstjórnin er að hugsa – er hún blind á það sem er að gerast úti í heimi eða heldur hún að virkilega að hagkerfi heimsins muni rétta úr kútnum á næstu árum og við verðum bara fyrst til þess? Ef svo er verður hún að færa einhver rök fyrir því. Það er athyglivert að alþjóða gjaldeyrissjóðurinn kyndir undir þeirri skoðun að við munum geta greit skuldir okkar og að efnahagslífið muni taka við sér á ný á næsta ári. Sjóðurinn veit betur, en það er dæmigert fyrir hann að dikta upp efnahagsbata til þess að þrýsta á að við greiðum sem fyrst upp skuldirnar, hvað sem tautar og raular. Þannig hefur hann alltaf unnið og þannig hefur einnig núverandi fjármálaráðherra lýst honum (áður en hann settist í ríkisstjórn). Trúi ríkisstjórnin virkilega á skjótan efnahagsbata, þá eru það hennar næststærstu mistök, að mínu áliti. Ég mun rökstyðja það álit mitt betur í næstu fréttabréfum.

Ingólfur H. Ingólfsson

www.spara.is

bokhaskoalprent-ofan-post