Sparikrukkan – vika 50

Untitled-1

Kæru vinir,
nú er vika 50 og  við setjum 5.000 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 127.500 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar er að læra á heimabankann.

Fastur kostnaður í heimabanka

Margir fá senda greiðsluseðla rafrænt í heimabankann sinn. Þetta eru greiðsluseðlar fyrir föstum mánaðarlegum kostnaði eins og rafmagni og hita, leikskóla, áskrift tímarita, sjónvarp, internet og þess háttar. Einnig afborganir lána og léttgreiðslur.

Það er því miður ansi algengt að fólk greiði ekki fastan kostnað sem birtast í heimabanka á réttum tíma. Það er ekki fyrr en greiðsluítrekun frá innheimtufyrirtæki berst inn um lúguna sem greiðsluseðillinn er greiddur, ásamt innheimtugjaldi. Þetta innheimtugjald er í mörgum tilfellum 600 til 800 krónur fyrir hvern vangreiddan greiðsluseðil. Á einu ári geta því „aukagreiðslur“ orðið allt að 7.000 til 10.000 krónur fyrir eina þjónustu sem alltaf er greidd of seint. Ef fleiri fastar greiðslur fá sömu meðferð er um að ræða samtals miklu hærri upphæðir sem greiðast „aukalega“ og algerlega að ástæðulausu.

Lausnin er að venja sig á að skoða heimabankann í hverri viku og sjá hvenær greiðsluseðlar eru á eindaga. Annað ráð er að læra á heimabankann og merkja við þá greiðsluseðla sem þarf að borga og síðan mun heimabankinn sjá um greiðslurnar á réttum tíma. Gæta þarf að því að eiga peninginn til á reikningi daginn sem greiða á. Margir velja að leggja inn á sér reikning innistæðu sem dugar fyrir föstum kostnaði. þá er engin hætta á að peningurinn fari óvart í daglegan rekstur.

Kynntu þér vel hvað heimabankinn þinn bíður uppá. Hafðu fyrir reglu að skoða heimabankann í hverri viku til að koma í veg fyrir að „missa af“ greiðslum á réttum tíma. Ávinningurinn getur talist í tugum þúsunda á ári.

bok-ofan-post