Sparikrukkan – vika 47

Untitled-1

Kæru vinir,
nú er vika 47 og  við setjum 4.700 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 112.800 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar er að spyrja hvort við séum að kaupa þörf eða löngun.

Hvað gerir þú á hverjum degi án þess að veita því athygli? Setur þú fyrst sokk á hægri fót eða þann vinstri? Færðu þér morgunmat eða borðarðu ekkert fyrr en seinna um daginn? Ferðu alltaf sömu leið til vinnu?

Margt af því sem við gerum erum við að velja að gera af gömlum vana. Við höfum lært eitthvað og endurtökum því okkur líkar við það. Við erum örugg og þess vegna verður vaninn hugsanalaus. Við gerum þetta líka í fjármálunum. Við erum endurtekið að kaupa sömu vörur í hverri viku og hverjum mánuði. Og vaninn við endurtekningu veitir okkur þannig öryggi að við hættum að fylgjast með vöruverði. Verðið er yfirleitt það sama fyrir mjólk og brauð og litlar breytingar á verði hafa ekki mikil áhrif á okkur. Við þurfum ekkert að fylgjast með verði á mjólk því það er alltaf svipað. Eða hvað?

Hvað kostar einn líter af mjólk?

Fæstir geta svarað því upp á krónu. Ástæðan er að við erum orðin vön því að kaupa mjólk. Mjólkin fer bara í körfuna af því það vantar mjólk.

Þegar við fylgjumst ekki með verði á vöru og þjónustu þá fara fjármálin okkar að leka. Peningurinn hverfur þá án þess að við tökum eftir því. 1 króna sem hverfur í hverri viku eru bara 52 krónur á ári. En hvað ef það færi ein króna af hverri vöru? 20 hlutir í viku gera 1040 krónur og 100 hlutir á viku gerir 5200 krónur. Í þessu dæmi eru ekki háar upphæðir en verðmunurinn er oft miklu meiri en ein króna á hverja vöru. Það er til dæmis mikill verðmunur á milli lágvöruverðsverslana og þægindaverslana. Í Bónus kostar 1 lítri af mjólk 136 krónur en í 10-11 kostar sama magn 189 krónur. Við þurfum því að fylgjast með því sem við erum að kaupa og hvort verðið sé að breytast yfir tímabil.

Algeng dæmi eru um að folk geti sparað mörg þúsund krónur á viku við það eitt að fylgjast með því sem er keypt, hvað það kostar og hvort það sé raunveruleg þörf á að kaupa valdar vörur.

Svaraðu spurningunni „hvert fer peningurinn? Í eina viku og sjáðu hve miklu þú getur sparað.

Untitled-1