Sparikrukkan – vika 36

bok-ofan-post

Kæru vinir,

Nú er vika 36 og við setjum 3.600 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 66.600 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar er að hlusta á sjálfan sig

Þegar við förum þreytt, reið, sár eða svöng í búðina þá kaupum við oftar en ekki mat og vörur sem við myndum annars ekki kaupa. Þetta á líka við allt annað í fjármálunum okkar.

Ef við förum hrædd, reið eða sorgmædd til þjónustufulltrúa í viðskiptabankanum okkar þá eru miklar líkur á að við gerum óhagstæða samninga.

Þegar við erum hrædd, reið eða sorgmædd þá eru auknar líkur á að við opnum ekki gluggapóst eða förum ekki inn á netbankann okkar og það eru líka auknar líkur á hvatvísum og óhugsuðum ákvörðunum, rétt eins og við flýtum okkur að kaupa eitthvað þegar við erum svöng út í búð.

Við losnum við reiði, ótta og sorg þegar við fáum tækifæri til að meta aðstæður, ræða um þær og taka síðan að lokum úthugsaða ákvörðun. Alveg eins og innkaupalisti getur hjálpað okkur að ná markmiðum okkar þegar við erum svöng og þreytt í matvörubúðinni þá getum við náð markmiðum okkar í erfiðu atriðum fjármálanna með skipulagi.

Við þurfum að hlusta á okkur sjálf og læra að bregðast rétt við. Ef við erum hrædd, reið eða sorgmædd þá eigum við að láta nægja sem fyrsta skref að fá allar upplýsingar, ekki bara heyra þær, heldur fá upplýsingarnar skifaðar á blað eða prentaðar út. Við eigum svo að fara heim og fá tækifæri til að slaka á, fá annað álit, og taka síðan ákvörðun um hvernig við borgum eða hvort samningarnir eða þjónustan sé hagkvæm og góð fyrir okkur eða ekki.

Við vitum oftast svörin en tilfinningar okkar eru stundum svo yfirþyrmandi að við heyrum ekki í okkur sjálfum.

 

bokhaskoalprent-ofan-post