Sparikrukkan – vika 34

bok-ofan-post

Kæru vinir,

Nú er vika 34 og við setjum 3.400 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 59.5000 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar er að geyma matarafganga og borða sem nesti í vinnunni.

Borga skuldir eða spara?

Þessi spurning kemur oft upp í samtölum mínum við fólk sem er að fara yfir fjármálin sín. Tökum sem dæmi hjón sem keyptu sér bíl á bílaláni. Þau eiga eftir að borga 100.000 krónur og afborganirnar eru 15.000 kr á mánuði. Þau fengu 100.000 krónur endurgreiddar frá skattinum um síðustu mánaðarmót og í þeirra huga er eðlilegt að borga upp skuldina því skuldin ber hærri vexti en sparireikningur. Losna við skuldina og byrja svo að spara.

Í þeirra tilfelli er svarið ekki svo einfalt. Þessi ákveðnu hjón eiga engan sparnað fyrir og ef þau borga upp skuldina þá er einni skuldinni færra en enginn sparnaður.

Allir eiga að spara í neyðarsjóð. Ef þú átt ekki neyðarsjóð þá skaltu byrja að spara strax. Neyðarsjóður á að vera að minnsta kosti sem nemur þriggja mánaða húsnæðiskostnaði sem hægt er a grípa til ef óvænt útgjöld koma upp. Bilun í bílnum eða tannpína gera ekki alltaf boð á undan sér og getur kostað sitt. Neyðarsjóður getur bjargað þessu og þú þarft ekki að taka lán, borga með kreditkorti eða léttgreiðslum.

Hjónin sem ég nefndi yrðu best sett ef þau myndu leggja allan peninginn í neyðarsjóð og halda áfram að vera í skilum með afborganirnar. Þannig eru þau strax komin með þokkalegan neyðarsjóð sem þau geta gripið til ef eitthvað kemur uppá.  Ef þau greiða upp skuldina þá eiga þau ekki neyðarsjóð og þyrftu að taka lán fyrir ófyrirséðum útgjöldum sem eru hærri en 15.000 krónur.

Athugið að umrædd hjón eru í skilum með allar mánaðarlegar greiðslur og því er þeim ráðlagt að búa til neyðarsjóðinn strax. Ef þú ert með greiðslur í vanskilum þá mælum við með að aukapeningurinn fari í að greiða vanskil og það sem eftir stendur í neyðarsjóð. Ef vanskil eru 50.000 krónur þá greiðist það upp og svo fara 50.000 krónur í neyðarsjóðinn.

Markmiðið er að byrja að byggja upp neyðarsjóð strax.

namskeid