Sparikrukkan – vika 30

bok-ofan-post

Kæru vinir,

Nú er vika 30 og við setjum 3.000 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 46.500 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar er að velja verslanir. Ekki fara í “næstu” tiltæku búð. Veldu ódýrustu verslunina sem þú treystir. Farðu í verslanir sem þú hefur aldrei verslað í og gerðu verðkannanir.  Finndu “búðirnar þínar”.  Margir versla pakkamatinn og geymsluvöru í einni verslun og ferskvöru í annarri.

Hugrænt ósamræmi

Flækingur nokkur sem sem var á gangi gegnum skóginn rak augun í berjaklasa sem hékk á trjágrein einni. Hann var svangur og ákvað að ná í berin til að borða þau. En greinin var hátt í trénu og sama hvað flækingurinn reyndi að hoppa eða klifra þá náði hann aldrei til berjanna. Þegar hann að lokum gafst upp sagði hann við sjálfan sig: „Uss, berin voru hvort eð er súr og ég hefði ekkert viljað borða þau“.

Flækingurinn breytti trú sinni og hugsun til að hún passaði við hegðun hans.

Samkvæmt kenningunni um hugrænt ósamræmi (e. Theory of cognitive dissonance) þá viljum við ekki upplifa ósamræmi á milli þess sem við trúum og staðreynda í umhverfi okkar. Samkvæmt kenningunni þá munt þú finna neikvæðar tilfinningar sem hvetja þig til þess að breyta einhverju og eyða ósamræminu (Festinger, 1957).

Tökum sem dæmi einstakling sem hefur þá trú að það er rangt að skulda en upplifir að hann eyðir um efni fram. Til að eyða ósamræminu þá mun hann líklega gera eitt af tvennu:

  • Hann breytir trúnni sinni – „það er í lagi að skulda“
  • Hann breytir hegðun sinni – minnkar eyðslu og lækkar skuldir

Líklegast er að þeir sem breyta skoðunum sínum og trú geri það vegna þess að það er auðveldara og fljótlegra en að breyta hegðun sinni. Sérstaklega þegar erfitt er að sjá og skilja að hegðunin sé í raun röng eða óskynsamleg, eða þegar lausn á vandanum er ekki í sjónmáli. Algengt er að þá finnum við ásættanleg rök fyrir uppgjöfinni eins og flækingurinn gerir í sögunni hér að ofan. Þá skiptum við um skoðun svo hún passi betur við aðstæðurnar sem við erum í. Ef við getum ekki hætt að skulda þá förum við að finna rök fyrir því að skulda. „ Allir nota kreditkort og yfirdrætti, þetta er ekki skuld í þeim skilningi“.

Hugrænt ósamræmi fær okkur því til að fylgja fjöldanum þótt við vitum innst inni að það sem við erum að gera er fjárhgaslega óhagkvæmt og dýrt. Fjölmargir velja til dæmis verðtryggð húsnæðislán því „allir aðrir“ gera það. Fjölmargir kaupa sér verðlaun á borð við dýra snjallsíma eða fara á leik íslenska landsliðsins á EM af því „allir hinir“ gera það. Við látum undan freistingum þegar við finnum til ósamræmis á milli skynsemi og tilfinninga okkar. Við eyðum ósamræminu með því að láta tilfinninguna ráða. Við hugsum með okkur að „allir“ eru á leið á EM nema ég, eða „allir“ eiga nýjasta snjallsímann nema ég, og svo tökum við óskynsamar ákvarðanir.

Getur þú fundið atvik þar sem þú skiptir um skoðun til að eyða hugrænu ósamræmi? Þar sem þú lést tilfinninguna ráða?

namskeid