Sparikrukkan – vika 3

panta-bok-fritt

Kæru vinir,

Nú er vika 3 og við setjum 300 krónur í krukkuna.
Í Sparikrukkunni þessa viku eiga þá að vera samtals 600 krónur.

Við upphaf sparnaðar er oftar en ekki erfitt að sjá árangur vinnunnar. Það er augljóst í okkar tilfelli þar sem við höfum aðeins safnað 600 krónum á þremur vikum. En ef við veljum að halda áfram mun sýnilegur árangur koma mjög fljótt í ljós. Við munum sjá lítinn sparnað margfaldast.

Er erfitt að fara með þreytt og svöng börn út í búð?

Þegar við förum með börnin þreytt og pirruð í búðina eru nokkur góð ráð til að gera innkaupin auðveldari fyrir alla. Svöng og þreytt börn eru uppfull af tilfinningum og því mikilvægt að dreifa athyglinni með því að gefa þeim verkefni. Ef að börnin byrja að „suða“ og vilja áhugaverðar vörur má benda á innkaupalistann og segja: „Við getum ekki keypt þetta núna, það er ekki á listanum“. „Mundu þetta svo við getum skrifað þetta á nýja listann sem er heima“. Það má líka segja: „Mundu með mér hvað þig langar í og við förum heim og segjum mömmu/pabba frá því“.

Sjaldnast muna börnin hvað þau voru að biðja um þegar þau eru komin heim og orðin róleg.

Þegar fleiri en einn fullorðinn eru að versla er gott ráð að annar aðilinn taki börnin í einhver verkefni til að gefa hinum tækifæri til að versla. Það má labba um fyrir utan búðina og skoða umhverfið, það má labba um búðina og velja hvað á að kaupa á nammidaginn, nefna ávextina, velja hvaða morgunmat á að kaupa þegar morgunmaturinn heima klárast og svo framvegis.

Munið bara hvað börnin eru að velja og þá má koma þeim á óvart, t.d. þegar morgunkornið klárast 🙂

Að lokum má vera með einn „suðdag“ í viku. Þá mega börnin velja sér eina vöru sem kostar eitthvað ákveðið, t.d. 300 kr. Þetta eykur líka verðvitund barnanna og mörkin eru skýr.

Hægt er að lesa meira um hvernig hungur hefur áhrif á innkaupin í greininni svangir kaupa öðruvísi mat en saddir.

Verið dugleg að senda ykkar hugmyndir um sparnað á facebook síðuna okkar http://www.facebook.com/Skuldlaus

Þeir sem vilja prenta áætlunina út þá er hér hlekkur á exel skjal með öllum vikunum 52, upphæðum til að spara og hvað hefur sparast: Sparnaðarleið

Kær kveðja og góða skemmtun,

Haukur.

Untitled-1