Sparikrukkan – vika 26

Untitled-1

Kæru vinir,

Nú er vika 26 og við setjum 2.600 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 35.100 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar er að kaupa notað. Hægt er að gera góð kaup á lítið notuðum vörum og hlutum eins og bílum, farsímum, fötum, heimilistækjum og húsgögnum.

Við erum hálfnuð

Þessa viku stöndum við á tímamótum. Við erum búin að safna í hálft ár. En þótt tíminn sé hálfnaður þá erum við aðeins búin að safna einum fjórða (25%) af markmiðinu okkar. Nú tekur við seinni hluti sparnaðarins og sá hluti sem við förum að sjá peninginn virkilega safnast saman. Það er því við hæfi að taka smá upprifjun um af hverju við aukum sparnað um 100 krónur á hverri viku en spörum ekki jafnt allt árið.

Við erum meira vakandi

Það er munur á að spara jafna upphæð í hverri viku eða að auka sparnaðinn reglulega eins og við gerum. Með því að auka sparnaðinn þá erum við meira vakandi fyrir hverri greiðslu því við þurfum að breyta henni og hækka um 100 krónur í hverri viku. Því meira sem við venjum okkur á að vera vakandi fyrir fjármálum og sparnaði því betra.

Við snúum vörn í sókn

Við erum líka að venja okkur af því að nota peninginn í neyslu og fara að nota hann til að borga okkur. Með því að snúa fjármálunum úr neyslu í sparnað með 100 krónum á viku þá verður breytingin auðveld, næstum áreynslulaus. Ávinningurinn í lok árs er að þú getur auðveldlega haldið áfram að spara 10.000 krónur á mánuði og jafnvel haldið áfram og sparað meira og meira.

Í lok árs munt þú eiga 137.800 krónur í krukkunni. Pening sem þú átt án skuldbindinga og getur notað að vild. Mörg okkar hafa nú þegar ákveðið að nota þennan sparnað og slík markmið hjálpa okkur oft að spara.

Deilum reynslunni

Einn veigamesti þátturinn í að breyta hegðun er að segja öðrum frá hvernig okkur gengur. Ég vil því að lokum óska eftir reynslusögum frá ykkur um sparnað og betri fjármál. Það eina sem þarf eru nokkrar línur um hvað þið hafið lært á síðasta hálfa ári og í hvað þið ætlið að nota sparnaðinn. Sendu mér þína reynslu á skuldlaus@skuldlaus.is strax í dag.

namskeid