Sparikrukkan – vika 21

bok-ofan-post

Kæru vinir,

Nú er vika 21 og við setjum 2100 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 23.100 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar: Fækkaðu áskriftum á sjónvarpsstöðvum. Mörg okkar getum ekki horft á allt sem er í boði og þá er sniðugt að hætta með þær áskriftir sem minnst er horft á. Fylgstu með í nokkrar vikur hvaða sjónvarpsstöðvar þú horfir á og hættu með þær stöðvar sem þú horfir minnst á.

Hugarbókhald

Hefur þú einhvern tíma byrjað að spara fyrir einhverju en síðan misst sjónar á stöðunni og þá hætt að spara. Eða fallið í þá gryfju að þurfa að taka út sparnaðinn til að greiða óvænt fjárútlát eins og tannlækni eða viðgerð á bílnum? Ef svo er þá er líklegt að þú notist við hugarbókhald.

Hugarbókhald er í raun þegar við erum með fjármálin á tilfinningunni. Við munum hvað við erum með í laun og við munum hvað það kostar að lifa út mánuðinn. En ekkert er öruggt og allar tölur og upphæðir eru bara námundun. Líkurnar á að ruglast eða að fjárhagsstaða okkar verði óskýr eru mjög miklar. Okkur hættir til að flokka pening sem góðan og slæman. Við förum að reyna að spara þegar við ættum að greiða niður skammtímaskuldir og við neitum að nota óvæntar tekjur eins og vaxtabætur eða barnabætur til að greiða niður skuldir.

Fjármálin okkar eru ein heild. Við eigum að taka allt saman og vinna úr því sem einni heild. Við eigum að forgangsraða hvernig við losum skammtímaskuldir og spörum síðan fé.  Að greiða niður skuldir fyrst þýðir að þú getur sparað hraðar þegar skuldabyrði léttist, eins og við höfum bent á í grein um snjóboltaáhrifin. Og þá áttu sparnað sem er ekki ógnað af þokukenndum fjármálum.

Við getum líka notfært tilhneigingu okkar til að flokka góða og slæma peninga. Við einfaldlega nefnum sparnaðinn eftir einhverjum jákvæðum og hvetjandi markmiðum, til dæmis neyðarsjóður (sem jafngildir þriggja mánaða húsnæðiskostnaði) eða skólasjóður barnanna. Við eigum þannig auðveldara með að láta það eftir okkur að spara.

Kynntu þér einfalda leið okkar að skrá tekjur og gjöld og byrjaðu að safna upplýsingum um fjármálin þín.

bokhaskoalprent-ofan-post