Sparikrukkan 2017 – vika 28

Untitled-1

Kæru vinir,

Nú er vika 28 og við setjum 2.800 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 40.600 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar er að nota reiðufé í stað debitkorts til að borga ekki færslugjöld

Óþægilegu hlutar fjármálanna

Fjármál geta verið óþægileg og flókin fyrir þá sem hugsa ekki reglulega um þau. Með öðrum orðum, ef fjármálin verða flóknari en á venjulegum degi þá er líklegara að við veljum að forðast þau, sérstaklega þegar þau verða óþægileg að vinna með.

Tökum sem dæmi að við eigum nokkra ógreidda reikninga. Ef við borgum þá núna þá eigum við lítinn pening eftir og þá minnka tækifærin á að fá þau lífsgæði sem okkur langar í. Lífsgæði eins og að fara í bíó, borða góðan mat, borða nammi, kaupa föt. Lífsgæðin sem okkur finnst að gefi okkur tilgang og stöðu í vinahópnum. Í þessari stöðu er upplifunin að missa lífsgæðin óþægilegri en upplifunin að skulda reikninga. Við missum möguleikan á lífsgæðunum strax en óþægindi vegna ógreiddra reikninga koma ekki fyrr en seinna. Þess vegna viljum við stundum fresta því að borga reikningana. Við viljum styðja við öryggistilfinninguna í dag.

Vandi okkar er að við ruglum saman fjárhagslegu öryggi og öryggistilfinningu. Hið fyrra er fjárhagslegt en hið seinna er tilfinningalegt.

Lausnin sem fyrr er að skrá niður allt sem við gerum við peingana okkar og setja okkur síðan markmið um hvað peningurinn á að gera fyrir okkur.  Í síðustu viku talaði ég um muninn á að verða ríkur eða hamingjusamur. Þetta er sami munurinn nema nú er það að standa í skilum (fjárhagslegt öryggi) eða að tilheyra (öryggistilfinning).

Að tilheyra er eins og með hamingjuna. Það þarf ekki að kosta neitt að tilheyra. Einfaldir hlutir eins og samtal við vin getur fært þér tilfinningu um að tilheyra. Jafnvel bara símtal. Samskipti við aðra er grunnþörf okkar í að tilheyra. Finndu þínar eigin hugmyndir um að tilheyra án þess að það kosti um of. Gætir þú átt sömu vini þótt þú seldir dýra bílinn þinn? Ættir þú sömu vini þótt þú værir í ódýrari, jafnvel notuðum fötum? Mun maki þinn elska þig jafn mikið ef þú útbýrð rómantískan kvöldverð heima í stað þess að fara eitthvað út?

panta-bok-fritt