Sparikrukkan 2017 – vika 21

bok-ofan-post

Kæru vinir,

Nú er vika 21 og við setjum 2100 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 23.100 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar: Fækkaðu áskriftum á sjónvarpsstöðvum.  Nú er að koma sumar með  öllum sínum tækifærum til að njóta útiverunnar og þá getum við ekki horft á allt sem er í boði í sjónvarpinu. Þá er sniðugt að hætta með þær áskriftir sem minnst er horft á. Fylgstu með í nokkrar vikur hvaða sjónvarpsstöðvar þú horfir á og hættu með þær stöðvar sem þú horfir minnst á.

Innkaupalistar

Opnun Costco hefur vakið mörg okkar til umhugsunar um verðlag og framboð á vörum. Fréttamiðlar og samfélagsmiðlar loga í umfjöllunum um hve margt er ódýrara í Costco en annars staðar.

Besta leiðin fyrir okkur til að taka til í fjármálunum okkar er að nota innkaupalista og vera meðvituð um hvað okkur vantar til heimilis og hvað okkur langar í. Órúleg verð í Costco geta nefnilega vakið upp mikla og skyndilega löngun til að kaupa einhverjar vörur. En þegar við tökum með okkur innkaupalistann út í búð þá eru líkur á að útgjöldin okkar lækki umtalsvert. Það er vegna þess að skynsemin okkar er komin á blað og við eigum að geta ýtt hvatvísinni og skyndikaupunum til hliðar.

Hér eru tíu góð ráð til að versla skynsamlega:

1. Áður en farið er út í búð að setjast niður og ákveða hvað skal kaupa t.d. með því að fara yfir það sem þegar er til í ísskápnum og velja aðeins vörur sem vantar.

2. Allir ættu að gera innkaupalista áður en farið er út í búð og halda sig við listann í búðinni.

3. Velja sér lágverðsverslun í stað þess að skjótast alltaf út í næstu búð. Töluverður verðmunur getur verið milli lágverðsverslana og þeirra sem eru t.d. opnar allan sólarhringinn.

4. Ekki fara svöng að versla, þreytt eða stressuð. Það ýtir undir óskynsamleg kaup. Veljum okkur frekar góðan tíma til að fara og gefum okkur þá tíma í að kaupa það sem raunverulega þarf og vantar.

5. Gerum verðsamanburð milli verslana. Það getur verið gagnlegt að bera saman verð af og til á milli verslana. Þannig má t.d. kaupa dósamat, klósettpappír og álíkar vörur í meira magni þar sem þær eru ódýrastar.

6. Það er ekkert að því að fylgjast með tilboðum og gera góð kaup í fleiri en einni verslun.

7. Skoðaðu strimilinn. Til langs tíma má spara umtalsverðar fjárhæðir með því að skoða strimilinn. Því miður er oft munur, jafnvel mikill, á hilluverði og á strimli.

8. Ekki kaupa tískuvörur, skartgripi, úr, raftæki, húsgögn o.s.frv. á fullu verði. Lágverðsverslanir og „outlet“-verslanir selja sömu vörur á langtum betra verði.

9. Hægt er að gera góð kaup í jólagjöfum og leikföngum fyrir börn á útsölum eftir jól. Föt er hægt að kaupa á góðu verði þegar skipt er milli sumar- og vetrarvöru.

10. Notaðar vörur eru ekki endilega ónýtar. Til dæmis er Kolaportið eitt best geymda leyndarmál þeirra sem vilja spara.

bok-ofan-post