Sparikrukkan 2017 – vika 13

namskeid

Kæru vinir,

Nú er vika 13 og við setjum 1.300 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 9.100 krónur í krukkunni.

Nú erum við farin að sjá meiri árangur af sparnaðinum þar sem við erum að setja rúmlega þúsund krónur í krukkuna á viku. Þótt við höfum aðeins sparað rúm 6% af heildarupphæðinni þá er einn fjórði liðinn af tímabilinu.

Sparnaðarráð vikunnar er að eiga fjármálastund

Einn af mikilvægustu þáttunum í fjármálum heimilisins er samskipti. Við mælum með fjármálastund þar sem þú sest niður einu sinni í viku til að vinna í fjármálunum þínum. Besta ráðið er að koma sér upp sérstökum aðstæðum til að vinna í fjármálunum. Þetta vinnusvæði er fjármálastaðurinn þinn.

Þessar aðstæður þurfa ekki að vera flóknar. Flestum dugar að taka til á eldhúsborðinu og raða síðan gögnunum sínum skipulega á borðið fyrir framan sig.  Miklu máli skiptir að fjármálastaðurinn sé laus við annað en það sem við erum að vinna með. Tími dags skiptir líka máli. Það er vonlaust að ætla að byrja rétt fyrir matartíma eða mjög seint um kvöld þegar við erum orðin þreytt. Veldu tímasetningu sem hentar vel til að einbeita sér að fjármálunum í 30 mínútur. Slökktu á farsímum og internetinu.

Sestu niður með þeim sem taka þátt í fjárrmálum heimilisins, svo sem maka þínum og eldri börnum, og farðu með þeim yfir fjármál síðustu viku. Skoðið hvert peningurinn ykkar fór og hvort það hafi verið þörf eða löngun. Ræðið og skipuleggið næstu viku. Hægt er að nota tækifærið að tilkynna stór fjárútlát eða ef það þarf að spara. Hægt er að sækja vinnublöð á www.skuldlaus.is/verkefni til að fylla út tekjur og gjöld síðustu viku.

Þegar þú hefur lokið við vikulegu fjármálavinnuna þína  skaltu ganga frá gögnunum á einn stað, til dæmis í möppu sem þú geymir á góðum stað.

Við minnum á facebook síðu okkar og biðjum ykkur að deila henni meðal vina.

Untitled-1