Sparikrukkan 2017 – vika 12

namskeid

Kæru vinir,

Nú er vika 12 og við setjum 1200 krónur í krukkuna góðu.
Nú eiga því að vera samtals 7800 krónur í krukkunni.

Sparnaðarráð vikunnar er að skoða aukakostnað og skera hann niður.

Ekki nota kreditkort ef þú átt pening í banka. Ástæðan er einföld, innlánsvextir eru svo lágir að spariféð þitt er ekki að afla þér hærri tekna en kostnaðurinn verður af kreditkortinu. Við leggjum þó áherslu á að við notum ekki neyðarsjóðinn okkar, en ef þú átt nægan pening til að losa þig við að velta neyslu gegnum kreditkortið þá er það alltaf betri kostur.

Ekki kaupa hluti sem tapa verðgildi sínu á raðgreiðslum. Þegar við kaupum  til dæmis snjallsíma á 18 mánaða raðgreiðslum þá erum við að skuldsetja okkur í eitt og hálft ár og bæta við okkur kostnaði á þeim tíma. Hvað kostar svo þessi sími eftir 18 mánuði? Getum við selt hann með hagnaði? Líklegast er að snjallsími sem kostaði 120 þúsund krónur seljist á 30 til 50 þúsund krónur 18 mánuðum síðar. Við höfum því greitt aukakostnað fyrir vöru sem við afskrifum að miklum hluta, jafnvel alveg.

Ekki kaupa nýtt þegar þú getur keypt notað. Ef við höldum okkur við snjallsímakaup þá er auðvelt að kaupa góðan notaðan snjallsíma. Almennt gefa símaframleiðendur út nýja útgáfu af síma á árs fresti. Farsímar endast samt mörg ár áður en þeir bila eða úreldast. Þú getur því keypt ársgamlan snjallsíma á hálfvirði þegar nýrri útgáfa fer í sölu.  Til eru vörur sem við mælum ekki með að keypt sé notað. til dæmis reiðhjólahjálmar, mótorhjólahjálmar og barnabílstólar þurfa að uppfylla öryggiskröfur og við þekkjum ekki sögu notaðra hluta. DVD spilarar og prentarar eru oft ódýrari að kaupa nýja en að senda í viðgerð. Snyrtivörur, svefndýnur og skó ætti að láta vera að kaupa notað hreinlætis vegna.

Ekki kaupa hluti sem þú notar sjaldan eða aldrei aftur. Geymslur landsins eru fullar af ónotuðum hlutum. Margt af því eru hlutir sem við gætum leigt eða fengið lánað í stað þess að eiga árum saman ónotað.  Tækjaleigur margs konar leigja verkfæri, húsbúnað og húsgögn og svo gætu ættingjar og vinir okkar átt þessa hluti og lánað okkur.

bok-ofan-post