Sparaðu ruslið og sparaðu pening

bok-ofan-post

Eitt það augljósasta sem ég hef fundið að lágverðsverslunum hingað til er léleg ending ferskvöru.  Til dæmis hef ég lært að ég versla ekki ávexti og grænmeti hvenær sem er, því það er greinilega ekki bætt við daglega.  Oft er bara „drasl“ í boði.  Fersk vara, til dæmis kjötvara á stundum undarlega stutta lífdaga í ísskápnum mínum.  Ég hef heyrt grín eins og “kjötið rann ekki út fyrr en ég kom heim”, og áttað mig á að fólk viðurkennir ódýra vöru sem lélega vöru. Ég hef lært  (kannski sætt mig við) að svona er þetta ef ég vil spara.

En auðvitað á þetta ekki að vera svona.  Þetta eiga að vera lágverðsverslanir, ekki lágvöruverslanir.

Ég skora því á ykkur að horfa ekki aðeins á verðmiðann þegar þú sparar, því ef varan endist illa og rennur út fljótt, er hún líka að nýtast illa.  Ef þú hendir oft útrunni vöru áður en hennar er neytt eða áður en hún klárast, þá þarftu að endurskoða kauphætti þína.

Sparnaður er aukin meðvitund um hvað við erum að gera við peningana okkar. Hvaðan hann kemur og hvert hann fer.  Ódýr vara getur þess vegna orðið dýrari ef hún nýtist ekki.

Að henda matvælum er í raun að henda peningum.  Við þurfum því að læra að verðleggja það sem fer ónotað og ónýtt í ruslið.  Ef þú kaupir 2 kg. af eplum á 500 kr, og hendir seinna kílói af skemmdum eplum, þá ertu að henda 250 krónum.  Eins er farið með mjólkurfernuna, eða skinkubréfið sem er útrunnið og hent er í ruslið.

Ástæðurnar fyrir lélegri nýtni matvöru geta verið nokkar, til dæmis:

 • Þú borðar ekki það sem þú kaupir. Það er ansi algengt hjá þeim sem kaupa skyndibita í stað þess að elda heima.
 • Þú kaupir of mikið í einu. Þetta er algengt hjá þeim sem versla óundirbúið.  Þetta er líka algengt hjá þeim sem versla á álagstímum, eru þreytt, svöng eða ergileg, og versla þannig mikið ónauðsynjar.
 • Þú verslar óundirbúið. Algengt hjá þeim sem tileinka sér ekki innkaupalista, þ.e. kaupa ekki inn eftir þörfum.  Að versla eftir minni bíður upp á að versla ónauðsynjar.Þeir sem versla án þess að hafa á hreinu hvað verður í matinn í vikunni velja oft bara eitthvað í körfuna.  Þeir sömu eiga líka mörg eintök af sömu vöru, t.d. nokkrar smjördósir, sósur, álegg og slíkt.
 • Gæði vörunnar eru léleg. Reynsla mín af sparnaði er stundum sú að ég vel lélegri vöruna því ég er að spara.  Ef ég vel þessa leið ég verð að nota þessar vörur strax, annars skemmast þær eða renna út.
 • Afgangar eru útrunnin matvara. Ótrúlega margir henda afgöngum í stað þess að nýta þá sem skyndibita. Pottréttir og eggjahrærur eða afgangarnir beint úr ísskápnum í örbylgjuofninn er ódýrasti og fljótlegasti skyndibiti í heimi.

En hvernig snúum við vörn í sókn?

 • Matseðill. Fyrirfram ákveðinn matseðill fyrir vikuna, helst mánuðinn, sparar innkaup á hráefni.
 • Afgangar. Afgangar eru skyndifæði.
 • Lesa á dagsetningar. Verslaðu matvöru miðað við tímann sem hún þarf að geymast.
 • Magnkaup. Magnkaupin eiga að vera þurrmatur, niðursoðinn, frosinn o.sv.fv. sem geymist.  Ekki fylla frystinn af kæfu, ef enginn borðar kæfu.
 • Áætlaðu líftíma matvörunnar. Verslaðu ferskvöru (ávexti, grænmeti, kjöt, fisk) fyrir vikuna, ekki meira.
 • Notaðu frystinn. Brauð ,mjólk, fiskur og kjöt geymast vel í frysti og sett í ísskáp inn til afþíðingar daginn fyrir neyslu.
 • Hverju hendirðu? Fylgstu vel með hverju þú hendir, og hve miklu þú hendir. Skrifaðu hjá þér hvað fer í ruslið í mánuð og þú verður steinhissa á niðurstöðunni.  Nýttu þetta þegar þú gerir innkaupalistann fyrir vikuna.

Ef þú temur þér að versla inn eftir þörfum, gerir matseðil og innkaupalista og fullnýtir matvæli þannig, getur þú sparað stórar fjárhæðir á því að henda ekki í ruslið.

Gangi þér vel

Untitled-1