Snjóboltaaðferðin

panta-bok-fritt

Svokölluð snjóboltaaðferð hentar þeim sem vilja greiða lán og skuldbindingar sínar hraðar niður en greiðsluyfirlit og samkomulag gera ráð fyrir. Frumskilyrði fyrir því að nota snjóboltaaðferðina er að við séum í skilum með afborganir okkar og að við höfum hagrætt daglegum reksti þannig að við eigum aukapeninga til að nota til að greiða inn á lán og skuldbindingar.

Hugmyndin er í eðli sínu einföld. Við greiðum afborganir eins og venjulega en tökum síðan aukapeninginn sem við eigum til ráðstöfunar og borgum aukalega inn á valda skuld. Algengt er að velja lægstu skuldina. Á mynd 1 hér fyrir neðan má sjá hefðbundnar afborganir af skuldum þar sem greitt er jafnt inn á hverja skuld þar til hún er uppgreidd. Með tímanum lækka heildarafborganir á mánuði þar sem skuldunum fækkar.

snjóbolti-óvirkt

Mynd 1

 

Á mynd 2 sjáum við hins vegar hvað gerist ef við bætum við 5000 krónum á mánuði í uppgreiðslur á skuld 1. Í stað þess að greiða 3000 krónur í fimm mánuði greiðum við tvær greiðslur, fyrst 8000 krónur og svo 7000 krónur. Þá er skuld 1 uppgreidd þremur mánuðum fyrr og við tökum 5000 kr. aukapeninginn og 3000 krónurnar, sem áður voru afborgun skuldar 1, og leggjum þá upphæð samtals inn á skuld 2.

Svona greiðum við inn á allar skuldir þar til við höfum greitt allar skuldir sem íþyngja okkur. Takið eftir því að við klárum að greiða skuldirnar átta mánuðum fyrr. Það er vegna þess að í stað þess að heildarafborganir á mánuði lækki á tímabilinu (sjá mynd 1) þá greiðum við sömu upphæð í afborganir á mánuði en heildarupphæð skulda lækkar hraðar og greiðist fyrr upp.

Þessi tvö dæmi eru einfölduð og ekki er gert ráð fyrir kostnaði eins og vöxtum og seðilgjöldum. Gera má ráð fyrir að í þessu einfalda dæmi yrði sparnaður af slíkum kostnaði u.þ.b. 5-10 þúsund krónur. Eftir því sem fleiri skuldir greiðast upp hækkar upphæðin sem við notum til að greiða hraðar inn á afborganir. Upphæðin hleður utan á sig eins og snjóbolti sem rúllar. Í okkar dæmi er fyrsta upphæðin 8000 kr., næst 10.000 kr., síðan 13.000 kr., 16.000 kr. og loks 30.000 kr.

snjóbolti-virkt

Mynd 2

 Þegar við skoðum skuldalistann okkar getum við ákveðið hvernig við viljum greiða skuldirnar okkar hraðar niður, en algengast er að fólk greiði lægstu skuldirnar fyrst upp því þá styttist skuldalistinn hraðast. Önnur algeng aðferð er að raða eftir kostnaði. Þá eru skuldir með hæstu vextina greiddar fyrst upp til að tímabilið sem fer í að greiða kostnað verði sem styst. Að lokum er hægt að raða skuldum þannig upp að erfiðustu skuldirnar séu greiddar upp fyrst til að losna við erfiðleikana fyrst.

bok-ofan-post