Reiknum með þreytunni

panta-bok-fritt

Margir sem taka ákvörðun um að snúa fjármálum heimilisins úr mínus í plús finna sig knúna til að bæta aðstæðurnar til að losna undan álagi og stressi sem getur fylgt fjárhagsáhyggjum. Til er mikið magn af greinum og efni í bókum, tímaritum og á veraldarvefnum sem gefur okkur góðar og auðveldar hugmyndir til að setja okkur raunhæf markmið og yfirlit.Það er auðvelt að leggja af stað þegar við höfum tekið slíka ákvörðun, viljinn er mikill og öflugur og verkið virðist auðvelt. En fyrir marga er viljinn ekki endalaus. Við þurfum að reka heimili og takast á við dagleg störf. Hversdagsleg þreyta og álag dregur úr okkur kjark og vilja til að laga fjármálin. Þegar við erum þreytt, önug og viljalítil eru meiri líkur á að við hættum að spara og látum áform um fjárhagsáætlanir fjúka út í veður og vind.Ein af mörgum góðum aðferðum til þess að gefast ekki upp á miðri leið er að gera ráð fyrir þreytunni. Viðurkenna að það kemur að því að við verðum önug, þreytt og stressuð og langar að gefast upp. Þá er nauðsynlegt að stoppa og ná áttum. Fimm hagnýt atriði til að forðast uppgjöf:

1. Við einföldum óyfirstíganleg verkefni með því að hluta þau niður í stutt tímabil og eitt lítið verkefni í einu. Til að höggva niður skóg þá tökum við eitt tré í einu.

2. Við gefum okkur verðlaun fyrir hvert lokið verk. Erfið markmið verða auðveldari ef við höfum eitthvað til að hlakka til. Góð slökun, góður matur, góður sjónvarpsþáttur eftir erfiðan dag gæti breytt öllu fyrir okkur.

3. Við segjum öðrum frá því hvað við erum að gera. Við erum ekki að kvarta heldur útiloka að við verðum þau einu sem vita um þreytu og álag dagsins. Ræðum við vini okkar sem eru góðir hlustendur. Líkur eru á að þeir hvetji okkur áfram og hrósi fyrir hvert lokið verk.

4. Við umgöngumst duglega fólkið. Drífandi fólk hefur jákvæð áhrif á líðan okkar.

5. Við gerum okkar besta til að halda áfram. Þrátt fyrir að það sé erfitt að ná erfiðum markmiðum þá er enn erfiðara að byrja aftur ef við hættum eða tökum of langa hvíld. Við getum stytt tímann eða minnkað markmiðin til að fá kraft til að halda áfram.

Haukur Hilmarsson

Greinin birtist 9. febrúar 2013 í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Untitled-1