Raunhæf markmið

panta-bok-fritt

Þegar einstaklingar og fjölskyldur vilja halda neyslunni stöðugri og í jafnvægi er algengt að setja upp áætlun um hvernig tekjunum sé ráðstafað. Þá er nauðsynjum og öðrum útgjöldum raðað í flokka eða svokallaða sjóði.
Hver sjóður er sú upphæð sem við ætlum að eyða í eitthvað fyrirfram ákveðið. Dæmi um slíka sjóði og upphæðir er matur 50.000, eldsneyti 20.000, föt 15.000 og svo framvegis.
Þegar við veljum upphæðir þurfum við að fylgjast með venjulegri neyslu í mánuð eða að velja raunhæfa upphæð. Ef við eyðum 60 þúsund í mat eigum við ekki að setja 50 þúsund í áætlunina. Við setjum raunverulega neyslu í áætlunina en getum í staðinn vandað okkur í innkaupum til að komast niður í 50 þúsund.
Eitt af mikilvægustu atriðunum er að allir sem eiga að fylgja áætluninni séu samstiga um bæði markmið næsta mánaðar og framtíðarmarkmið. Ef markmiðin eru góð er líklegra að allir vilji vinna með. Algengt er að fyrsta áætlunin gangi ekki upp. Gerum ráð fyrir því að á næstu mánuðum þurfi að aðlaga þær þangað til við náum að fylgja áætlun. Við skráum hjá okkur hvar við förum fram úr áætlun. Erum við að kaupa meiri mat, bensín eða föt og sælgæti? Við fylgjumst líka með því hvers vegna við förum fram úr áætlun. Erum við að eyða meira vegna álags eða erum við þreytt og svöng þegar við kaupum í matinn?
Við lærum með þessu að forðast aðstæður sem leiða til þess að við eyðum um of.
Einnig getum við notað tækifærið til að hagræða útgjöldum þannig að okkur líði betur. Til dæmis með því að láta nauðsynjar eins og mat heima fyrir ganga fyrir og fækka ferðum á skyndibitastaði. Við megum samt ekki gleyma okkur í þessum áætlunum. Við verðum að gera ráð fyrir að við þurfum til dæmis að kaupa ný föt reglulega og fara út að borða eða í bíó. Slíkir sjóðir eru ekki notaðir mánaðarlega en við leggjum fyrir ákveðna upphæð í hverjum mánuði í þá sjóði. Þannig getum við farið í bíó á tveggja mánaða fresti, og út að borða í afmælismánuðum. Einnig þarf með sama hætti að gera ráð fyrir gjöfum og peningum í gott málefni.
Grunnhugmyndin með sjóðum er að snúa ferlinu við. Í stað þess að taka niður tölur eftir á erum við að horfa fram á við. Við finnum til öryggis þegar við höfum sett okkur markmið í fjármálum.
Grein birt 24. febrúar 2013 í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

panta-bok-fritt