Óverðtryggð íbúðalán Landsbankans – valkostur eða ódýr sölumennska?

panta-bok-fritt

Fréttabréf Spara.is. Birt með leyfi Ingólfs í spara.is

Landsbankinn boðaði til fréttamannafundar í síðustu viku, ekkert kom fram hvað væri á seyði og eftirvæntingin mikil, hjá mér að minnsta kosti. Svo kom það: Landsbankinn bíður upp á óverðtryggð íbúðalán með 7% vöxtum! Ég trúði ekki mínum eigin eyrum! Í kynningu á fréttamannafundinum útskýrði bankastjórinn, Ásmundur Stefánsson, útspilið eitthvað á þá leið, að bankinn treysti sér til þess að gera þetta því að hann byggist við að verðbólga myndi fara hratt hjaðnandi á næstu mánuðum og vera komin niður fyrir 7% fljótlega, bankinn væri því ekki að taka mikla áhættu. Getur þetta verið rétt, hugsaði ég með mér?

 

“Undirmálslán” Landsbankans

Nei, auðvitað er Landsbankinn ekki að bjóða óverðtryggð lán með 7% vöxtum. Þegar betur er gáð eru vextirnir 17% – það er að segja 1,5% yfir stýrivöxtum Seðlabankans sem eru 15,5%. Það sem kemur fram á umbúðunum er að þú greiðir ekki nema 7% vexti fyrstu tvö árin og ekkert af höfuðstólnum, það er að segja engar afborganir af sjálfu láninu. Að liðnum tveimur árum greiðir þú fulla vexti, hverjir sem þeir verða, og byrjar jafnframt að greiða af höfuðstólnum. Þetta er samskonar tilboð og bandarískar lánastofnanir seldu löndum sínum og kölluð hafa verið undirmálslán, en þau komu dýpstu fjármálakreppu sögunnar af stað! Þetta finnst mér nokkuð bíræfið af Landbankanum að gera, bara af því að hann vantar peninga?

 

Verðbætur eða vextir á höfuðstólinn?

Landsbankinn segir í kynningu sinni á þessum óverðtryggðu lánunum að þau séu til þess að koma til móts við gagnrýni á verðtrygginguna og henti sérstaklega þeim sem vilji forðast uppsöfnun verðbóta á höfuðstól. Jæja, er það svo? Það sem ekki kemur mjög skýrt fram á umbúðunum á þessu lánatilboði er, að vextir bankans eru í raun og veru 17% en lántakandi greiðir aðeins 7%, mismunurinn leggst á höfuðstólinn! Í hverju felst eiginlega mótvægið við verðtryggðu lánin?

 

Skyldi það vera tilviljun að Landsbankinn kemur með þetta útspil sitt þegar verðhjöðnun er í landinu og höfuðstóll verðtryggðra lána fer lækkandi? Verðhjöðnun merkir að verðlag fer lækkandi og af því að verðbætur eru það sama og verðbreytingar milli mánaða, þá lækkar höfuðstóll verðtryggðra lána, en það gerir hann ekki á óverðtryggða láninu frá Landsbankanum! Það er sem sagt Landsbankinn sem hagnast á því um þessar mundir ef verðtryggðu láni er skuldbreitt yfir í þetta svo kallaða óverðtryggða lán bankans, en ekki þú.

 

Hentar hverjum?

Landsbankinn fullyrðir í auglýsingu að þessi lán henti vel þeim sem vilji endurgreiða lán sín hratt. Þetta skil ég satt best að segja ekki. Í fyrsta lagi leggjast vextir umfram 7% ofan á höfuðstólin og í öðru lagi tekur það að öllu jöfnu lengri tíma að greiða þessi lán niður en önnur, eða allt að 42 ár, eins og kemur reyndar fram í auglýsingu bankans.

 

Ef Landsbankinn er að vísa til þess að ekkert sérstakt uppgreiðslugjald fylgi þessum lánum, þá er rétt að benda á að flestar lánastofnanir hafa fellt niður uppgreiðslugjaldið tímabundið. Þá væri ekki úr vegi að bankinn benti viðskiptavinum sínum á að við útreikning á vöxtum og álagi er tekið tillit til áhættu af uppgreiðslu og útlánatapi bankans. Sérstakt uppgreiðslugjald ofan á það hefur mér alltaf þótt vera argasta ósvífni. En þetta uppgreiðslugjald skiptir notendur Uppgreiðslukerfis spara.is ekki svo miklu máli, frekar en sjálfir vextirnir. Þau ykkar sem vilja fræðast meira um það getið sent póst á spara@spara.is eða hringt í síma 587 2580

 

Kæru lesendur. Ég þarf ekki að segja ykkur að ég hef barist í mörg ár gegn verðtryggingu neytendalána og ætti því að fagna þegar boðið er upp á þau, en það sem Landsbankinn er að bjóða er því miður ekkert nema nafnið tómt og getur í versta falli komið sér afar illa fyrir þá sem láta blekkjast af greiðslubyrði fyrstu tveggja ára á meðan greiðsluaðlögunin er í gildi. Það sem mestu máli skiptir er það sem gerist þegar afborganir af sjálfu láninu hefjast og vextir koma að fullu til greiðslu á gjalddaga.

 

Ingólfur H. Ingólfsson
www.spara.is 

panta-bok-fritt