Ómarkvissar jólagjafir

namskeid

Desember er sá tími árs þegar flestir þurfa að ákveða hvað gefa skuli í jólagjafir. Áhyggjur vakna hvað þetta varðar og ekki síst hvernig viðkomandi muni taka gjöfinni. Í gegnum tíðina hef ég séð að fólk með fjárhagsáhyggjur tekur þessum tíma árs mjög illa. Það má ekki koma illa út, en það er heldur ekki til nægur peningur til þess að slá í gegn. Einnig virðist það loða við að ódýrar gjafir séu hallærislegar gjafir. Ég hef lengi bent mínum skjólstæðingum á að eyða ekki um efni fram með því að taka lán eða setja jólin á raðgreiðslur til þess eins að færa erfiðleikana fram á sumarið. Margir höfðu viljann til þess að fara að mínum ráðum en það hafa alltaf einhverjir staðið eftir sem völdu að kaupa vinsælu og dýrari gjafirnar.

Ef fólk velur dýrari leiðina þá er hyggilegt að tryggja að hún sé hagkvæm og nytsöm. Ég veit ekki hvað þetta hefur verið mikið rannsakað en það er ljóst að fjöldi jólagjafa mun ekki hitta í mark og margir munu ekki nota það sem þeir fengu að gjöf. Það má vel sjá af fréttaflutningi fyrstu daga eftir hver jól að mikill fjöldi fólks stendur í biðröðum til þess að fá gjöfum skipt – gjöfunum sem það vill ekki eða þarf ekki.

Slíkar gjafir eru dýrustu gjafirnar vegna þess að þetta er peningur sem er illa varið. Þrjú þúsund króna gjöf er verðlaus ef hún fer inn í skáp og nýtist ekki. Hún er verðlaus þeim sem vill ekki gjöfina og verðlaus þeim sem eyddi þrjú þúsund krónum til einskis. Peningur sem hefði betur farið í annað. Samkvæmt bandarískri rannsókn fer að meðaltali 10 til 20% af þeim pening sem eytt er í jólagjafir til einskis á þennan hátt.

Það er í mörgum tilfellum ekki nóg með að keyptar séu gjafir sem nýtast ekki heldur velja margir að nota til þess pening sem það á ekki – velja að skuldafæra gjafir á kreditkort eða yfirdrætti. Þannig skapa margir sér fjárhagsvanda og áhyggjur sem auðvelt væri að forðast.

Dýrar gjafir eru augljóslega óhagkvæmar fyrir þá sem standa illa fjárhagslega. Þær eru oft valdar vegna dýrðarljóma og verðgildi gjafanna. Snjallsímar og spjaldtölvur eru ekki ódýrar gjafir en hafa ákveðinn dýrðarljóma þar sem viðtakandi gapir af undrun og ánægju. Notagildi er ekki alltaf rétt metið því þvottavélar geta verið ódýrari og langlífari en þær rata sjaldan undir jólatréð.

Vinsælar gjafir geta líka verið óhagkvæmar. Hver jól eiga sínar vinsælustu gjafir sem allir hljóta að vera ánægðir með. En ef við horfum á hvað selst best fyrir jól og svo hverju er mest skipt eftir jól má sjá að oft á tíðum eru þetta sömu vörurnar. Margir fá því annað hvort mörg eintök af sömu vinsælu gjöf eða hafa einfaldlega ekki not fyrir hana.

Síðast en ekki síst er það hvernig við högum gjafakaupunum. Það verður æ algengara að fólk noti síðustu mínúturnar fyrir jól þegar það á jafnvel minnst af pening og er orðið hvað þreyttast til þess að velja gjafir sem eiga að gleðja þeirra nánustu. Undir þessum kringumstæðum er líklegra að kaupa ónothæfar eða ómarkvissar gjafir.

Þegar velja á jólagjafir er það hugurinn sem gildir. En til þess þá þurfum við að vanda okkur og hugsa vel um þann sem gjöfina skal fá. Hugsa með sér hvað viðkomandi gæti notað í hverri viku og jafnvel daglega. Það má líka einfaldlega spyrja viðkomandi hvað vanti og hvað sé snjallt að gefa. Það sem allir skyldu forðast er að velja gjafir aðeins út frá dýrðarljóma þeirra eða vinsælda og alls ekki fara svöng, blönk og í tímaþröng á Þorláksmessu og giska hvað manns nánustu vilja í jólagjöf.

Í grunninn skiptir engu máli hvað gjafir kosta. Ef gjöfin nýtist þá er gjöfin góð. Hún hittir í mark vegna þess að hún er ekki valin af vinsældum almennings heldur úthugsuð og sérstaklega valin fyrir þann sem fær hana. Þær gjafir eru ekki metnar til fjár og þess vegna gæti vel verið að ódýrasta gjöfin verði langbesta gjöfin.

Vöndum valið og gefum úthugsaða gjöf um jólin.

(Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. desember 2012)

bok-ofan-post