Nýfátækt eða slæm fjármálahegðun

namskeid

Ég las framboðsgrein í DV þar sem lesendur eru kynntir fyrir nýfátækum einstaklingum. Þar er rakið hverjir þeir eru sem teljast nýfátækir og aðalástæðan talin kostnaðarsamt nám, illa launuð störf og kostnaður við daglegt líf hár vegna fjölda barna, matarverðs, og leigu- og húsnæðisverðs.

Þetta nýja hugtak er hættulegt og ég vona að það festist ekki í huga okkar. Ég vona að fólk sættist aldrei á að það sé sjúkdómsgreint í nýfátækt.

Líklegast er að nýfátæka fólkið sem um ræðir sé ekki raunverulega fátækt heldur yfirskuldsett. Fólk sem lét utanaðkomandi þrýsting samfélagsins hjálpa þeim að taka óskynsamar ákvarðanir í fjármálum.

Í umræddri grein er lausnin að auka stuðning við þá sem illa standa fjárhagslega til dæmis með því að húsnæðiskostnaði skuli hagrætt, fjárhagstuðingur aukinn og sett yrði á tekjutengd grunnþjónusta sem létta eiga líf þeirra sem eru nýfátækir. Góðar og göfugar hugmyndir en því miður ekki langvinnar vegna þess að á meðan ekki er tekið á hegðun fólks þá mun ekkert breytast í fjármálum þeirra. Ef venjan er að kunna lítið að fara með pening og taka illa ígrundaðar ákvarðanir í fjármálum þá mun sú venja halda áfram þótt þú eignist meiri pening. Líkurnar eru að ef þú hugsar ekki vel um pening í dag þá gerir þú það ekki heldur á morgun.

Fjármál okkar eru meira vani en skynsemi. Vani sem við lærum af reynslu eða tökum upp eftir öðrum. Við gerum eins og hin og við endurtökum það sem virkar. Hinir nýfátæku sjá ekki venjur sínar í fjármálum. Þau sjá ekki að þau endurtaka sömu mistökin og viðhalda aðstæðum sínum. Þau sjá ekki að þeirra eigin ákvarðanir byggðu upp fjárhagsstöðu þeirra. Þessi shegðun er að miklu leiti orsök alls samfélagsins. Við viðurkennum að það er í lagi að skuldsetja sig fyrir menntun, bílakaupum, farsímum, í raun öllu. Fyrirhyggja í fjármálum er lítil og skuldastaða er feimnismál. Og þegar við höfum yfirskuldsett okkur þá skellum við auðvitað skuldinni á þá sem „leyfðu“ okkur að taka öll þessi lán og heimtum bjarghring frá þeim. En við tókum ákvörðunina. Sama hve illa ígrunduð hún var eða hvort það var fjármálastofnun sem nýtti sér hvatvísi okkar og þrá þá voru það við sjálf sem tókum ákvörðun. Við veljum nám sem skilar lágum launum, við veljum húsnæði sem er dýrari en við höfum efni á, við kaupum dýrari mat en við ættum að kaupa.

Það er engin skyndilausn við „nýfátækt“. Samfélagið mun ekki bjarga okkur.  Það sem hið opinbera getur hins vegar gert er að bjóða fram fagaðila í að aðstoða fólk við að breyta fjármálahegðun sinni. Undirritaður er ráðgjafi í Fjármálahegðun og er að vinna að námsefni fyrir ráðgjafa og fagaðila til þess að styðja við og mennta fólk út úr sínum fjárhagsaðstæðum.

Við einstaklingarnir getum breytt stöðu okkar með því að skoða hvernig við högum okkur. Við getum byrjað að skoða stöðu okkar eins og hún raunverulega er. Við getum skoðað hvað við höfum efni á að lifa við í dag. Við getum byrjað að forgangsraða þannig að þarfir okkar líði ekki skort. Við getum sett okkur markmið. Og við getum nýtt okkur þá fagaðila sem menntaðir eru í fjármálameðferð til að styðja okkur.

Byrjaðu strax í dag að svara spurningum Skuldlaus.is:

  • Hvaða peningur, hverjar eru tekjur okkar?
  • Hvert fer peningurinn, hver eru útgjöld okkar?
  • Þarf peningurinn að fara þangað?
  • Viljum við að peningurinn fari þangað?
  • Er peningurinn að styðja markmiðin þín?

bok-ofan-post