Sparað með rusli

Untitled-1

 

Ein algengasta leiðin sem fjölskyldur nota til að ná fram sparnaði er að fylgjast með verði matvöru og þannig spara umtalsverðar upphæðir með því að kaupa rétt inn á heimilið. En það er til önnur leið til að hagræða í matarinnkaupum. Við skoðum ruslið.
Samkvæmt nýlegri breskri rannsókn er talið að allt að 30 prósent matvöru fari í ruslið á hverju heimili og því gætu verið umtalsverðar upphæðir til að spara í ruslinu.Það er ekki nægjanlegt að horfa á verðmiðann ef þú ætlar að spara því ef matvöru er síendurtekið hent áður en hennar er neytt eða áður en hún klárast þá þarf að endurskoða hvað verið er að kaupa.Fyrsta skrefið er að spyrja sig í hvert sinn sem matur endar í ruslinu af hverju við erum að henda honum. Algengustu svörin við þeirri spurningu eru að við borðum ekki þann mat sem við kaupum, hendum afgöngum eða við kaupum of mikið í einu. Einnig að við verslum óundirbúið af handahófi og við kaupum mat sem endist ekki þann tíma sem hann þarf að endast.
Einfaldar leiðir til að snúa vörn í sókn eru að útbúa matseðil fyrir vikuna og kaupa inn eftir honum. Gera magninnkaup og nýta frystinn til að geyma brauð, mjólk, kjöt og fisk sem síðan er affryst daginn fyrir neyslu. Einnig er gott að áætla líftíma á mat og ekki kaupa of mikið af ferskum vörum eins og ávöxtum því þeir eiga að klárast á örfáum dögum. Miðaðu magn við dagsetningar svo vörurnar klárist áður en þær renna út. Frystu afganga því þeir gætu nýst sem skyndibiti beint í örbylgjuofninn eða sem nesti í vinnu eða skóla. Ef þú skráir niður það sem hent er gætir þú séð hvað þú kaupir of mikið af eða geymir of lengi. Nýttu þér það síðan næst þegar þú gerir innkaupalista. Matarinnkaup eru sá þáttur sem hvað auðveldast er að ná góðum sparnaði í og með því að fylgjast með neysluvenjum á þennan hátt gætu sparast töluverðar upphæðir á ári. Höfundur heldur úti vefnum www.skuldlaus.is

Grein birt 17. febrúar 2013 í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 

 

 

Untitled-1