Jólasveinavísur – þær nýrri

Staurblankur kom fyrstur,
með skuldahalann sinn.
Hann laumaðist í hirslur
og týndi í pokann sinn.

Hann hafði á þeim gætur,
þeim sem vegnaði vel,
og hnupplaði um nætur,
því sem verðmætt ég tel.

Viljaaur var annar,
með langan fingur sinn.
-Hann skreið ofan í vasa
og næld‘í aurinn þinn.

Hann krafsaði í krukkur
og klinkinu stal.
Úr koddum og dýnum
hann hristi hvern dal.

Blankur hét sá þriðji,
stúfurinn sá.
Hann krækt‘í sparigrísi,
þegar kostur var á.

Hann hljóp með þá í burtu
og hirti úr þeim aur,
en börnin eftir sátu
orðin alveg staur.

Sá fjórði,  Skuldasleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar skynsemin fór.

Þá lánin ljúfu lagði til,
og bar börnin á höndum.
Þar til þrálát kröfuvakt,
þau flækja í skuldaböndum.

Sá fimmti Lánaskefill,
var skrítið skuldastrá.
-Þegar börnin fóru í búðir
hann lagði ráðin á.

 Ef skynsemin þá spurði um
hvað væri staðgreitt verð,
þá flýtt’ann sér að selja þeim
með skuldabréfagerð.

Sá sjötti Launasleikir,
var alveg dæmalaus.
Á innlánsreikningana
rak sinn ljóta haus.

Hvar fólkið faldi launin sín
fyrir yfirvaldi,
hann slunginn var að ná af þeim
með þjónustugjaldi.

Sjöundi var Bankaskellir,
-virtist nokkuð snjall,
kúlulán í rökkrinu
og afskriftasvall.

Hann lánaði börnum pening
en vildi svo geym‘ann.
Frá tvöþúsund og sjö
hann dvelur á Ceyman.

Eignagámur, sá áttundi,
var skelfileg lús.
Hann keypt‘allt í bænum,
hvern kofa og hús.

Svo leigð‘ann og framseldi
hvert kot og hvern hjall,
á uppsprengdu verði
svo á botninn skall.

Níundi var Bótakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist um kerfið
og hnuplaði þar.

Þar settlegur sat hann
í sóti og reyk
og tók til sín bætur,
af öðrum sveik.

Tíundi var Búðagægir,
með bráðlyndan hramm,
sem laumaðist um bæinn
og eyddi um efni fram.

Ef eitthvað var þar inni
álitlegt að sjá,
hann oftast nær með korti
í það reyndi að ná.

Ellefti var Sjálfumglaður 
-aldrei fann til ótta,
og hafði þó svo hlálegan
og heljarstóran þótta.

Með eign af annarra verkum
á bakið klapp hann vann,
en fljótur var að hverfa,
ef til ábyrgðar hann fann.

Auðkrókur, sá tólfti,
kunni á ýmsu lag.-
Hann þrammaði um sveitina
nótt sem nýtan dag.

Hann keypti af þér kostagrip,
sín kjarakaup gerði.
Og seldi þér svo aftur
á uppsprengdu verði.

Þrettándi var Skuldasníkir,
-þá var tíðin köld.
Hann rændi þínu síðasta
á aðfangadagskvöld.

Hann hvatti litlu börnin,
sem brostu glöð og fín,
að versla um allan bæinn
með kreditkortin sín.

Á sjálfa jólanóttina,
-sagan hermir frá,-
Í gullherbergjum sátu
og töldu góssið þá.

Svo tíndust þeir í burtu,
er hætti bruðl og glens.
Á Þrettándanum síðasti
íbúinn var lens.

En börnin lengi bíta úr
því bölvuðu skuldaflippi.
Andvaka og sof‘ei dúr,
þau óttast Kortaklippi.

(Grunnurinn er kvæðið Jólasveinar eftir Jóhannes úr Kötlum.)

Haukur Hilmarsson 2014