Hvernig verð ég skuldlaus?

panta-bok-fritt

Þetta er ein algengasta spurningin sem ég fæ frá fólki sem leitar til mín. Fyrsta svar er að það mun taka þig tíma að vinna þig út úr skuldunum þínum.  Hvenær þú verður skuldlaus er síðan háð því hve mikið þú skuldar og hve mikla vinnu þú vilt leggja í að losa skuldir. En það er hægt að verða skuldlaus.

Hvað skuldar þú mikið? – Fyrstu skrefin eru alltaf að safna upplýsingum um skuldastöðuna þína. Það er nauðsynlegt að vita fyrst hver staða okkar er áður en við hefjumst handa því ef við byrjum án þess að hafa heildaryfirsýn þá er hætt við að við ráðstöfum of miklu fé í erfiðar skuldir og eigum ekkert eftir til að semja um aðrar skuldir. Verkefnablaðið Eignir og Skuldir er listi sem við fyllum út annars vegar eignir okkar og skuldir okkar hins vegar.

Vertu í skilum – Þegar við ætlum að losna út úr skuldavanda þá þarf að komast í skil. Við þurfum að stoppa vanskil með einhverjum hætti. Það er algengur missklningur að það að standa í skilum sé að vera búinn að borga skuldirnar. Að vera í skilum er einfaldlega bara að standa við gerðan samning. Með öðrum orðum þá greiðum við afborganir samkvæmt samningi. Vanskil verða þegar við erum ekki að greiða afborganir samkvæmt samningi. Það fyrsta sem við gerum er að greiða alla reikninga og skuldir samkvæmt samningum og síðan förum við að yfirfara vanskil. Við greiðum því reikninga sem eru á gjalddaga í þessum mánuði og tökum saman hver vanskilin eru af eldri reikningum.

Athugið að ef við erum í miklum vanskilum þá gæti reynst nauðsynlegt að semja um nýjar afborganir, semja um lengri tíma til að greiða, eða semja um frest þar til við getum greitt. Mörg fyrirtæki sérhæfa sig í að taka við erfiðum og flóknum málum. Mundu bara að fylgjast með öllu sem þeir gera því þetta eru þínar skuldir og þú ert að læra að hugsa um fjármálin þín.

Hvað getur þú greitt aukalega inn á skuldirnar? – Ástæðan fyrir því að ég vel að láta alla fara yfir dagleg útgjöld og mánaðarlegar tekjur áður en við yfirförum skuldir er til að hagræða útgjöldum. Við hagræðum til að eiga aukapening sem við getum notað til að greiða inn á skuldirnar. Verkefnið Fjárhagsdagbók – vikuleg útgjöld og verkefnið Tekjur hjálpa þér að fá yfirsýun til að geta hagrætt í daglegum fjármálum.

Hvaða skuldir borga ég fyrst? – Þegar þú hefur fundið út hve mikið þú getur greitt inn á skuldirnar þá raðar þú þeim upp í lista. Þrjár leiðir eru algengar þegar við borgum aukapening inn á skuldirnar:

  • Lægsta upphæð fyrst
  • Hæstuvextir fyrst
  • Óþægilegustu skuldir fyrst

Ef þú raðar skuldum upp með lægstu upphæð fyrst þá hverfa skuldirnar hratt af skuldalistanum þínum. Ef þú velur hæstu vexti fyrst þá spara þú pening en ef þú raðar óþægilegum skuldum fyrst þá ert þú að losna við þær skuldir sem halda fyrir þér vöku.

Aðalatriðið er að vita stöðuna sína. Það gæti verið erfitt og haldið fyrir okkur vöku en það færir okkur ákveðið öryggi að þekkja hvar við stöndum.

Verkefnabókin Betri fjármál er sérstaklega sett upp til þess að aðstoða þig við að koma skipulagi á fjármálin, finna aukapening og endurskoða stöðu þína.

panta-bok-fritt