Hvernig eyðum við bleikum sköttum?

Untitled-1

Fréttablaðið birti um helgina grein um bleikan skatt, en það er aukaálagning á vörur ætluðum konum og stúlkum. Þarna er verðmuninum stillt upp sem kynjamismunun. Það er staðreynd að það hallar á konur í útgjöldum. Konur eru meiri neytendur en karlar því þær hugsa almennt meira um útlit og ásýnd og eru því að kaupa meira af snyrtivörum, fötum og skóm. Þessar vörur hafa margar hverjar svokallaðan bleikan skatt sem gerir þessa neyslu dýrari fyrir konur. Að auki má bæta við að konur lifa lengur þannig að ævilöng útgjöld þeirra eru því samkvæmt þessu  hærri, í meira magni og yfir lengri tíma en hjá körlum. Til að kosta þennan mismun í útgjöldum fá þær lægri laun en karlar.

Fyrir nokkrum áratugum gekk þetta auðveldlega upp eða þegar karlinn var fyrirvinnan og „baðaði frúnna í gjöfum og peningum til að punta sig“. Það er að minnsta kosti ímyndin. En neysluvenjur okkar hafa breyst mikið á síðastliðnum 50 árum. Konur taka í ríkari mæli þátt í tekjuöflun og verða sjálfstæðari með breyttu hugarfari samfélagsins. En hugarfar beggja kynja til fjármála er enn óbreytt. Við erum enn feimin við að ræða fjármálin við aðra og við erum enn of feimin til að hugsa um eigin fjármál. Um það bil helmingur landsmanna hugsar lítið eða ekkert um útgjöldin sín. Venjan er að fá tekjur og eyða þeim á mánaðartímabili. Lítið sem engin gaumur gefinn að því hvert peningarnir eru að fara og hvort við séum að eyða þeim skynsamlega. Þarna verður bleiki skatturinn til. Annars vegar vegna þess að konur eru meiri neytendur og hins vegar vegna þess að stór hluti beggja kynja hugsar lítið um útgjöldin – borga bara.

Íslendingar eru almennt séð tekjumiðað samfélag. Það er auðséð á því að háværar raddir heyrast þegar tekist er á um hærri laun og hærri bætur en lágróma tal þegar kemur að mótmælum um verðlag. Samkeppniseftirlitið og Félag íslenskra bifreiðaeigenda hafa nýlega bent á að íslendingar borga óþarflega hátt eldsneytisverð. Það eru ekki jafn sterk mótmælin við því og í kjarabaráttunni í fyrra. Bent hefur verið á að álagning á matvöru er hærri hér á landi en í nágrannalöndunum. Aftur heyrist lítið í okkur neytendum. Tekjumiðuð neysla eins og við höfum vanist mun alltaf ýta verðlagi upp því að í hvert sinn sem laun á vinnumarkaði hækka þá fer verðlag upp. Kaupmenn og innflytjendur nýta sér þessi viðhorf okkar og treysta á að hegðun okkar sé samkvæmt venju að horfa á tekjurnar og forðast að skoða eigin fjármál.

Lausnin er einföld. Við eigum að leggja jafn mikla áherslu á útgjöldin okkar og tekjurnar. Þegar við horfum ekki aðeins á það að fá meiri tekjur til að borga fyrir neysluna okkar heldur horfum líka á hve mikið við fáum fyrir peningana þá batnar hagur okkar enn frekar. Það er líka miklu árangursríkara að horfa á útgjöldin því við getum tekið ákvarðanir um að kaupa eða ekki kaupa vörur strax í dag en það tekur okkur að jafnaði langan tíma að vinna okkur upp í tekjum.

Besta kjarabótin, og um leið aðferð til að eyða bleikum sköttum, er áhersla á lægra verðlag og að lækka útgjöld heimilanna. Með því að nota innkaupalista og skipuleggja útgjöldin má lækka rekstrarkostnað einstaklinga og heimila strax. Þessi einfalda vitundarvakning getur haft áhrif á fjármálin þín núna í dag. Tugi prósenta lækkun í útgjöldum á næstu vikum er miklu betri en 3-5% launahækkun yfir nokkurra ára tímabil.

Þegar við krefjumst lægra verðlags þá höfum við ekki bara áhrif á matvöru, eldsneyti eða sérvörur fyrir konur. Við höfum áhrif á allar stéttir samfélagsins. Í dag hefur lágtekjufólk og lífeyrisþegar enga kosti aðra en að kaupa vörur og þjónustu millistéttarinnar. Þeirra val er í mörgum tilfellum of dýrar vörur eða þiggja ölmusu. Það er rangt að hluti samfélagsins sé háður öðrum fjárhagslega vegna verðlagsins. Ef við stöndum saman og hugsum um peningana okkar þá höfum við áhrif. Ef fjöldinn leitar í ódýrari en sambærilegar vörur og mótmælir hækkunum og mikilli álagningu þá ýtum niður verði á eldsneyti og matvöru og ýtum niður bleikum sköttum. Við aukum lífsgæðin.

Það er hagur okkar allra að snúa vörn í sókn. Byrjaðu strax í dag að skoða í hvað þú eyðir peningunum þínum og hvort þú getir ekki gert betur. Lægri útgjöld styrkja samfélagið.

panta-bok-fritt