Hvatvísi í fjármálunum

bok-ofan-post

Eitt þeirra atriða sem geta haft mikil áhrif hafa á fjármálin okkar er okkar eigin fljótfæni. Við tökum hvatvísar ákvarðanir sem okkur finnast á þeim tímapunkti vera bestu mögulegu ákvarðanirnar eða að við upplifum að við verðum að gera þetta.

Dæmi um að fólk segi upp í vinnu sem þeim líkar ekki eða er þeim erfið án þess að vera komin með aðra vinnu. Einnig dæmi um að fólk kaupi vörur eða semji um fastan kostnað áður en að tryggt er að hægt er að standa við afborganir.

Ástæða þessarar hvatvísi er það sem við köllum „lottó-hugarfarið“ – að þetta reddast. Þessa ákvarðanatöku flokkum við sem barnslega hugsun og er hún ein þriggja ástæðna þess að við yfirskuldsetjum okkur. Við tökum ákvörðun sem byggir á tilfinningum okkar en ekki tryggðum upplýsingum.

Við skulum samt ekki dæma okkur of harkalega fyrir þessar ákvarðanir. Upplifun okkar og tilfinningar eru nefnilega hvorki rangar né réttar. Þær bara eru. Þegar okkur líður illa í vinnu vegna álags af einhverjum ástæðum þá líður okkur illa. Það er staðreynd. Þegar við finnum mjög mikls þörf að kaupa einhverja vöru þá langar okkur það. Það er líka staðreynd. Það eru hins vegar ákvarðanir okkar og hegðun sem eru ýmist réttar eða rangar. Ef við segjum upp vinnu áður en við tryggjum framtíðartekjur okkar eða kaupum eitthvað án tryggingar um að geta staðið við allar greiðslur þá erum við að taka rangar ákvarðanir.

Hvatvísin er líklegust þegar tilfinningar okkar eru yfirþyrmandi sterkar eða vanlíðan okkar er mikil. Ákvörðunin sem við tökum losar okkur undan þeirri vanlíðan. Okkur líður strax betur þegar við höfum sagt upp eða okkur líður strax betur þegar við höfum samið um raðgreiðslur og erum með draumavöruna í höndunum.

Raunverulegt dæmi um lélega ákvörðunartöku er einstaklingur sem sagði upp vinnu sem færði honum 700 þúsund krónur í tekjur. Umsókn hans um atvinnuleysisbætur tók 6 vikur. Þessi aðili fékk ákvörðuð viðurlög hjá Vinnumálastofnun, 40 daga bið, vegna þess að hann var valdur að eigin uppsögn. Hann fékk því engar tekjur í tæpa þrjá mánuði eftir að hann hætti vinnu. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er lág, mest 167 þúsund krónur, en sú aðstoð er tekjutengd og tekjur aðilans þrjá mánuði áður en hann sækir um hafði áhrif til lækkunar. Léttirinn við að segja upp í erfiðri vinnu varð því dýrkeyptur því þessi aðili lækkaði um 600 þúsund krónur í tekjum á mánuði og lenti í framhaldinu í slæmum fjárslegum vanda þar sem  hann gat ekki staðið við stóran hluta skuldbindinga sinna. Hans mistök voru að segja upp áður en framtíðartekjur voru tryggðar.

Annað raunverulegt dæmi er einstaklingur sem ætlaði að greiða húsaleiguvanskil með barnabótum og samdi um það við leigusala sinn. Þegar að greiðslu barnabóta kom þá tók ríkið barnabæturnar upp í meðlagsskuld og þessi aðili stóð því uppi með vanskil og samning við leigusala sem  hann gat ekki staðið við. Hans mistök voru að semja áður en að tekjurnar voru tryggðar.

Ein góð leið til að minnka fljótfærni er að skipuleggja okkur. Við skipuleggjum hvernig við munum staðgreiða það sem við erum að borga fyrir. Þegar við höfum tryggt fjármagn þá er í lagi að framkvæma. Við tölum líka við fólk um tilfinningar okkar og hvernig þær eru yfirþyrmandi og ýta á okkur að taka vanhugsaðar og fljótfærar ákvarðanir.

Við kynnum okkur hvernig við tökum fljótfærar ákvarðanir og hvernig við getum æft okkur að seinka umbun og fresta fljótfærum ákvörðunum. Þú getur lesið meira um sjálfstjórn, ADHD og fjármál,  og fleiri greinar hér á skuldlaus.is

bokhaskoalprent-ofan-post