Hvað eru peningar?

namskeid

Fréttabréf Spara.is – Birt með leyfi spara.is

Hvað eru peningar?

Peningar eru líklega ein merkilegasta uppfinning mannsandans, fyrir utan guðdóminn. Einhverjum kann að finnast ég taka nokkuð stórt upp í mig, svona rétt eftir sjálfa páskana, og því ætla ég að taka frá nokkrar línur í næstu fréttabréfum til þess að útskýra hvað ég á við. Ég held einnig að það geti verið hjálplegt við að skilja það sem gerst hefur í fjármálaheiminum og gæti jafnvel komið að gagni við að finna heppilegust leiðirnar út úr vandanum. Ég vil þó taka fram að þær skoðanir sem ég kem til með að reifa eru ekki endilega viðurkenndar í hagfræðinni, og er ég satt best að segja alveg sáttur við það; í fyrsta lagi hefur fjármálaheimurinn aldrei hrunið með jafnmiklum glæsibrag og af eins mikilli hagspeki og núna, og i öðru lagi er ég félagsfræðingur og hef því lítið vit á hagfræði. Ef satt skal segja er ég einnig að komast á þá skoðun að umfjöllun um peninga sé hreint ekki hagfræðilegt viðfangsefni.

Skapari peninganna
Það sem ég veit þó úr hagfræðinni er að hún segir okkur að gildi peninga felist í því að þeir séu svo hagkvæmir í nútíma viðskiptum, þá sé auðvelt að nota til varðveislu verðmæta og einnig hentugir sem mælieining. Þetta er allt satt og rétt, en peningar hafa einnig aðra eiginleika. Einn eiginleiki nútíma peninga er, að þá er hægt að skapa úr engu. Engu minni spámaður en Sir Josiah Stamp, forstjóri Englandsbanka á árunum 1928 – 1941 orðaði þetta svona: “Nútíma bankakerfi býr til peninga úr engu. Aðferðin er einhver sá ótrúlegasta blekkingarleikur sem nokkurn tímann hefur verið fundinn upp”. Það getur komið sér vel að geta búið til ómælt magn af peningum, sérstaklega fyrir skaparann. En hver er skapari peninganna og hvernig fer hann að?

“Fiat Money”
Sköpunarsaga Biblíunnar hefst með orðunum “Fiat lux”, verði ljós! Fiat er latína og merkir svo mikið sem ¨verði úr engu”. Þaðan hafa engilsaxneskir hagfræðingar fengið hugtakið “fiat money” til þess að lýsa nútíma pappírspeningum. Þeir verða einfaldlega til við skipun úr engu.

Það sem við köllum dags daglega peninga er í raun og veru engir peningar, það er að segja þeir eru einskis virði í sjálfu sér. Nútíma pappírspeningar eru eins konar ímynd þess sem gæti verið verðmæti. Skýringin á því að við sættum okkur við að nota verðlausa peninga er að við erum neydd til þess, við höfum enga aðra möguleika en að trúa því að þeir séu ávísun á raunveruleg verðmæti.

Allt fram að fyrri heimsstyrjöld var hægt að skipta út peningaseðlum fyrir jafnmikið verðmæti af gulli. Svo langt aftur sem sagnaritun nær hafa eðalmálmarnir gull og silfur verið notaðir í viðskiptum manna á millum á markaði. Það var í þessum viðskiptum sem verðmætið var ákveðið og gullmagnið var því til staðfestingar. Verðmæti gulls var frá örófi trygging fyrir kaupmætti peninganna allt fram að árinu 1913, en það ár er seðlabanki Bandaríkjanna (FED) stofnaður og tengingin við gull er rofin.

Þegar peningamagn í umferð er ekki lengur háð því magni gulls sem bankarnir hafa í hirslum sínum, geta þeir nánast gefið út eins mikið af peningum og þeim sýnist, eða afleiður sem eru eins konar peningaígildi. Til þess að hemja peningamagnið og halda í kaupmátt peninganna færir ríkið sjálfu sér einkarétt á útgáfu þeirra. Peningar verða hér eftir aðeins til samkvæmt tilskipun ríkisins. Peningar halda verðgildi sínu og kaupmætti vegna þess að ríkið skipar svo fyrir, en ekki vegna þess að þeir sé í sjálfu sér verðmætir. Allir aðrir peningar en ríkispappírar eru verðlausir, ekki vegna þess að þeir eru í einhverju frábrugðnir ríkismyntinni, heldur eingöngu vegna þess að þeir eru ekki prentaðir af ríkinu. Í upphafi pappírspeninganna gengu Bandaríkin meira að segja svo langt að banna viðskipti almennings með gull. Það þurfti að berja almenning til trúar á pappírinn.

Ríkið verður að gæta þess að peningamagn í umferð þjóni ekki örðum tilgangi en þess eigin og því fá seðlabankar það hlutverk að stýra því. Hagfræðingar hafa svo skipst á að búa til kenningar um heppilegt peningamagn og mælitæki til þess að fara eftir, eins og vísitölur verðlags sem við þekkjum bærilega. Því miður tókst hagfræðinni ekki mjög vel upp og heimskreppan 1929 skall á. Ekki tókst heldur vel til við að finna leið út úr henni. Svo skellur á önnur heimskreppa árið 2008 og ekki virðist hagfræðin ráða vel við hana heldur, þó svo að hún beiti þveröfugri aðferð en við þá fyrri, það er að segja að prenta ómælt magn af peningum. Kannski er líka til of mikils ætlast af einni fræðigrein að leysa vandann, sérstaklega þegar hún er komin á þá skoðun að best sé að lækna meinið með sjálfu meininu.

Ríkið er skapari pappírspeninganna og segir verði peningar og það verða peningar. Seðlabankarnir búa yfir tækninni, peningaprentsmiðjunum, og háskólarnir setja svo allt í fræðilegan búning. Við, skattgreiðendur, sitjum svo uppi með afleiðingarnar.

 

Kær kveðja,
Ingólfur H. Ingólfsson

www.spara.is

bokhaskoalprent-ofan-post

Athugasemdir

  1. Góð grein en ef við tökum gullið burt sem viðmiðun þá höfum við 2000 ár heimildir fyrir peningum sem hétu denarar, hver denari var daglaun verkaamans.
    Það er athyglisvert að fyrir um 100 árum var fyrirtækjarekstur þar sem forstjórinn réð launahlutföllum Hann ré öllu og þótti sanngjarnt að hann fengi tho hluti meðan óbreyttur fékk einn hlut. Nú er vandfundinn forstjóri sem léti sér þetta nægja. ‘i áðurnefndum 2000 ára heimildum segir einnig að „fégræðgi sé undirrót alls ílla“ Er ekki dálítið til í því?
    kveðja
    Nils