Hreinskilni í fjármálum

panta-bok-fritt

Grunnurinn að fjárhagslegum bata, og leiðin að skuldlausu lífi, er hreinskilni í fjármálum og hafa allt uppi á yfirborðinu.  Ég er ekki að tala um að blogga bókhaldið, heldur skrifa niður allar tölur um tekjur og gjöld. Hafa fjárhagsyfirlit.

Fjárhagsyfirlit er öflugasta vopnið okkar ef rétt er með farið.  Það er ekkert mál að stilla öllum tölum upp og búa til þá niðurstöðu sem þú vilt sjá. Tölur ljúga ekki. Það erum við sem erum ekki hreinskilin.  Og ef það eru óheilindi, mun eitthvað gefa sig.

Margir lifa launaseðil til launaseðils og því þarf ekki mikið að gerast til þess að illa fari.  Bilun í bílnum, skyndilegur lækniskostnaður, svo ekki sé talað um atvinnuleysi er nóg til að fella marga.  Sumir hafa ekki takið sumarfrí svo árum skiptir, því orlofsgreiðslan fór í skuldir, og það má ekki við því að taka frí.  Lífið snýst um pening og redda pening og hugsa um pening og hafa áhyggjur af pening.

Meðan peningur stjórnar þínu lífi fara óheilindi að búa um sig í huga þínum og athöfnum.  Það er annars vegar græðgi og hins vegar skortur.  Mér er slétt sama um græðgi í bili því það er skorturinn sem stendur flestum okkar næst.

Mín saga er þessi. Ég reddaði vanskilum á leið í lögfræðing með þeim pening sem til var, en í stað þess að útskýra fyrir maka og fjölskyldu hvers vegna það mætti ekki kaupa of mikinn mat, þá sagði ég ekki orð og setti neysluna á yfirdrátt sem síðar átti að redda.  Yfirborðinu var haldið eins sléttu og mögulegt var og örvæntingarfullar leiðir valdar til að ná endum saman. Lýgi hreiðraði um sig og ótti magnast.  Ég missti stjórn og yfirsýn algerlega.

Til þess að snúa þessu dæmi við þá þarf að ná stjórn á peningum, ekki að peningurinn stjórni okkur.

Fjárhagsyfirlit hjálpar okkur að sjá hvert peningurinn er að fara, og þegar þú veist það getur þú farið að stjórna því hvert þú vilt að hann fari.

Það eru bara nördar sem nota fjárhagsyfirlit.

Að hluta til rétt, en ef vel er að gáð eru það ríkir nördar sem nota fjárhagsyfirlit. Í raun þurfa allir, ekki bara þeir sem vilja græða, fjárhagsyfirlit. Fjárhagsyfirlit er líka rétta leiðin til þess að ná settu marki á styttri tíma.

Með fjárhaginn á yfirborðinu ertu hreinskilinn, og ekki bara við sjálfan þig, heldur maka þinn og þína nánustu.  Það er því miður staðreynd að stór hluti skilnaða stafar af óreiðu í fjármálum.  Skilnaðir sem forða má með einföldum aðgerðum eins og fjárhagslegri hreinskilni.  Ég segi einfalt vegna þess að sjálf aðgerðin er lítil.  Leita upplýsinga um stöðu sína og setja allar tölur á blað.  Erfitt getur þó verið að taka skrefið.  Ég þekki það af eigin raun að það var óþyrmilega erfitt að verða fullkomlega hreinskilinn við konuna mína, en þegar skrefið var tekið og ég lagði allt á borðið, tók við ótrúlegur og ólýsanlegur léttir.  Ótti og kvíði hreinlega hvarf.  Og þótt konan mín upplifði svik og trúnaðarbrot gat ég vegna þess að ótti minn var horfinn, hugsað skýrar en ég hef getað í mörg ár, og saman gátum við tekið á þessu. Ég get sýnt fullkomið traust og ég óttast ekkert í dag. Og ég get farið að sofa klukkan ellefu.

Í dag finnst mér gaman að vera hreinskilinn í fjármálum og það getur þú líka upplifað.  Hvert sinn sem er verslað, eru gjöld skráð í litla bók eða kvittunin tekin.  Hvert sinn sem reikningur er greiddur er afritið geymt. Allar tekjur, stórar sem smáar eru skráðar. Meira að segja 10 krónur sem finnast á bílastæðinu eru skráðar.  Og einu sinni í viku er hellt upp á gott kaffi og maulað á súkkulaði meðan farið er yfir tekjur og gjöld með makanum.

Hreinskilni er eina rétta leiðin til þess að hafa hugarró. Hreinskilni sparar þér ótrúlega mikinn tíma.  Og hálftími á viku með maka þínum getur sparað þér fjölda klukkustunda í bankanum, andvökunætur og óþarfa kvíða vegna þess að þú ert ekki með peningamálin á hreinu.  Þú upplifir margfalt betra samband við makann þinn,  svo ég tali ekki um peninginn sem þú hefur nú fullkomna stjórn á, og græðir.

Verum hreinskilin, alla leið!!

Ef þú finnur þörf fyrir stuðning bendi ég á DA. Þar má finna fundi í hverri viku og ótrúlegan stuðning.  Þér er einnig velkomið að hafa samband beint við mig.

namskeid