Hömlulausir skuldarar

panta-bok-fritt

 

Vandamál

Ég veit það að fullt af fólki er þessa dagana að berjast í bökkum fjárhagslega.  Yfirvofandi kreppa, háir vextir, efnahagsvandi. Ég veit líka að margir hafa komið sér, oft ómeðvitað, í mjög vonda og sársaukafulla stöðu í fjármálum, og sér veruleika sinn hrynja og veit að það mun taka marga með sér í fallinu.  Þessi staða, auk efnahagsvanda þjóðarinnar, er að buga marga skuldara.

Þessi skuldari lifir í vanmætti gagnvart fjármálum og er stjórnlaus í leit að lausnum. Margir dvelja einfaldlega í afneitun.  Skuldarinn hefur þá rörsýn og ranghugmynd að hann geti „reddað“ heimilinu og skuldunum með skammtíma reddingum.  Hann skortir yfirsýn og sér aðeins hluta af vandanum.  Hann er í skömm og gerir allt sitt til að breiða yfir.  Vegna þess að hann er í skömm þorir hann ekki að koma upp á borð með lýgina og notast við það sem hann hefur til að „bjarga sér“.  Ræðir við félaga frekar enn þá sem ættu að vita af vandamálinu.  Hann stofnar til skulda án ábyrgða, því þær skuldir getur hann nálgast og nýtt  til að bjarga ástandinu án þess að heimilið viti af.  Hann stofnar til skulda í ábyrgð án vitundar heimilisins, og hann lýgur að ábyrgðarmanni um aðstæður.  Allt er gert til að fela skömmina og mistökin, og óheiðarleikinn verður öllu sterkari. Og því lengri tími sem líður verða atburðir, afleiðingar og skuldastaða verri.

Fyrir slíkan skuldara er þögnin er besta vopnið.  Skuldarinn forðast að tala um stöðuna og oftar en ekki lýgur hann til um stöðuna til að vernda sjálfan sig.  Fegrar ástandið.

Þessi skuldasöfnun er hömlulaus.  Viðkomandi upplifir sig í stjórnleysi og óttast framtíð og afkomu.

Hömlulaus skuldasöfnun er sársaukafullt, ruglandi og eyðandi afl. Hömlulaus skuldasöfnun birtist í ýmsum myndum allt frá því að taka óábyrg lán til hömlulauss kaupæðis. Skuldasöfnun getur birst sem ofeyðsla, fátæktarhugsun eða að eiga ekki nóg. Öll skuldasöfnun hefur alvarleg áhrif á fjárhagsleg, tilfinningaleg, andleg, líkamleg og félagsleg gæði lífs okkar.

Einkenni hömlulausrar skuldasöfnunnar eru mörg. Skuldarinn á það til að nota setninguna „að fá lánað“ yfir hluti eins og sígarettur, penna og þess háttar, þótt vitað sé að slíkt verði ekki endurgreitt. Skuldari fær lánaðar litlar fjárhæðir hjá vinum og kunningjum. Þúsund kall hér, hundrað kall þar.  Að vera í reikning, fá skrifað, vera með kreditkort er að vera fullorðinn. Minni pressa og áhyggjur að borga með kreditkorti en að staðgreiða. Skuldari upplifir sig merkilegan bara fyrir það eitt að borga reikningana sína eins og aðrir.  Skuldari finnst hann eignast eitthvað þegar sótt er um lán.  Skuldari er lokaður og vandræðalegur þegar verið er að ræða fjármál.  Hann lætur sig litlu varða um reikninga sem ekki „verður“ að borga þennan mánuðinn, og á oft erfitt að muna hvernig hann ætlar að ráðstafa þeim fjármunum sem hann ræður yfir hverju sinni. Hann upplifir óraunverulegar væntingar þess efnis að það muni verða til peningar í framtíðinni fyrir þeim skuldbindingum sem hann ert að stofna til í dag.  Hann upplifir óútskýrða sælutilfinningu við það að opna nýjan kredit reikning eða yfirdrátt.  Skuldarinn telur sig varla raunverulega geta „lent“ í alvarlegum fjárhagsefiðleikum og það muni alltaf vera einhver sem hann getir snúið sér til.  Hann finnur undirliggjandi og stundum ómeðvitað tilfinningu þess efnis að hann þurfir einhvern til þess að hjálpa sér til þess að komast út úr fjárhagsvandræðum sínum.

Lausn

En það er til lausn, og ég tel mig knúinn til þess að kynna hana fyrir fólki því enginn á skilið að lifa við þessar aðstæður.  Enginn á það skilið að draga aðra með sér í sársauka og óheiðarleika, sem hægt er að stoppa og leiðrétta ef aðeins hugarfari gagnvart sjálfum sér er breytt.

Lausnin er að viðurkenna vanmátt sinn og stjórnleysi. Drepa óheiðarleikann með hreinskilni.  Ein góð leið sem hefur reynst mörgum vel er DA (Debtors Anonymous).  DA eru samtök fólks sem hefur gengið þessa leið og hefur risið upp úr myrkrinu. Þetta fólk er til staðar og er viljugt að sýna stuðning, leiðbeina og kenna viðkomandi að breyta rétt.  Vera heiðarlegur, óeigingjarn og löglegur.  Og umfram allt styðja viðkomandi til að þekkja sjálfan sig og verða hreinskilinn.

Hvernig

D.A. félagar deila reynslu, styrk og vonum svo þeir geti náð bata við sjúkdómi þeim sem kenndur er við hömlulausa skuldasöfnun. Unnin eru Reynsluspor með einföldum verkfærum og sú vinna mun færa efirfarandi gjafir:

1. Þar sem við áður höfðum örvænt, munum við upplifa nýja von.
2. Skýrleiki mun koma í stað sljóleika; við munum geta ráðið fram úr kringumstæðum sem áður komu okkur í vanda.
3.  Við munum lifa samkvæmt því sem fjárráð okkar leyfa en fjárráð okkar munu ekki skilgreina okkur.
4. Við munum hefja líf í velmegun, án þess að ótti, áhyggjur, gremja og skuldir íþyngi okkur.
5. Við munum komast að því að við erum nóg, við munum meta okkur sjálf og framlag okkar.
6. Félagsskapur mun koma í stað einangrunar og trú mun koma í stað ótta.
7. Við munum sjá að það er til nóg; auðlindir okkar munu verða örlátar og við munum deila því með öðrum og D.A.
8. Við munum hætta að bera okkur saman við aðra, afbrýðissemi og öfund munu hverfa.
9. Viðurkenning og þakklæti munu koma í stað eftirsjár, sjálfsvorkunar og ílöngunar.
10. Við munum ekki lengur óttast sannleikann; Við munum færast frá afneitun til lífs í raunveruleika.
11. Heiðarleiki mun leiða gjörðir okkar til innihaldsríks lífs.
12. Við munum skilja að máttur, æðri okkur sjálfum, er uppsprettu auðlegðar okkar; við munum komast að því að Guð er að gera það fyrir okkur sem við gátum ekki sjálf.

Þetta eru ekki fjarstæðukennd loforð. Þau hafa ræst á meðal fólks sem lagðist í þessa vinnu í einlægni og eftir bestu getu, einn dag í einu.

Líf velmegunar (auðsældar) og æðruleysis mun verða þitt.

heimasíða DA á Íslandi: http://www.daiceland.org/index.htm

panta-bok-fritt