Hættu þessu væli!!

panta-bok-fritt

Fjármál eru tilfinningadrifin að mjög stóru leiti. Við setjum okkur markmið byggð á framtíðarsýn, einhverjum draumi sem á að veita okkur vellíðan eða stöðu í samfélaginu. Þegar þessi draumur er í hættu þá höfum áhyggjur. Ef okkur skortir pening til að viðhalda draumnumi eða við getum ekki greitt fyrir þau lán sem við tókum til að upplifa drauminn þá erum við með tilfinningalegar fjárhagsáhyggjur. Þá tekur við þjóðarsport íslendinga, að loka á tilfinningar sínar.

Viðmótið gagnvart tilfinningum er almennt neikvætt. Það eru töffararnir og harðduglega fólkið sem kemst áfram í lífinu. Ef ég telst vera of tilfinningasamur er ég stimplaður veikgeðja væluskjóða. Ég er hvattur til þess að herða mig upp og haga mér eins og maður. Ég muni ekki ná langt í lífinu með svona væli og að taka allt svona nærri mér.

Þegar okkur er bannað með þessum hætti að upplýsa um tilfinningar okkar lærum við að aftengja hvernig okkur líður. Við veljum þess í stað að hafa stjórn á aðstæðum með hugsunum okkar. Algeng leið til að ná tökum á aðstæðunum verður því að “lesa” hugsanir annarra.

Í stað þess að nota tilfinningarnar förum við að nota þekkingargreind okkar (e. IQ). Við lærum að nota samskiptakerfi þar sem við segjum eitt en meinum annað. Við lærum að ýta við tilfinningum annarra og notum þannig meðal annars skömm og sektarkennd til að stýra aðstæðum. Vegna þess að við notum þekkingargreind okkar í samskiptum þá förum við að mæla árangur okkar á þann hátt sem þekking er mæld. Sigur og háar einkunir er góður árangur en tap og lélegar einkunnir er slæmt. Samskipti fara að snúast um rétt eða rangt og verðum við ósammála er enginn árangur úr þeim samskiptum nema að einhver vinni, að einn geri aðra sammála.

Það er mín skoðun og margra annara að á meðan þekkingargreindin hjálpar okkur að ná prófum í skóla og skipuleggja verkefni í vinnunni þá er það tilfinningagreindin sem hjálpar okkur í almennum samskiptum. Við þurfum meira á tilfinningargreind en rökhugsun að halda þegar við erum að ala upp börnin okkar. Við þurfum að þekkja hvernig þeim líður til að geta leiðbeint þeim. Setningar eins og hættu þessu væli hjálpa barninu ekki að læra að takast á við sorg eða ótta. Það lærir að forðast sorg eða ótta.

Tilfinningarnar okkar eru okkar besta mæling á núverandi ástandi. Ef við vitum ekki stöðu okkar þá vitum við ekki hvort við eigum að vera ákveðin eða til hlés, í sókn eða vörn.
Tökum sem dæmi þjálfara í boltaíþrótt. Ef hann kann ekki að lesa á stigatöfluna þá mun hann ekki geta metið markmiðin út frá stöðu leiksins. Hann mun ekki geta metið hvort liðið er að vinna eða tapa. Hann yrði að finna nýjar leiðir til að meta stöðuna. Til dæmis ákveðið að leggja áherslu á hægan leik ef leikmenn eru þreyttir, vörn ef andstæðingar eru erfiðir og sókn þegar leikurinn er auðveldur. Hann gæti hitt á rétt augnablik og fengið hrós fyrir góðan leik þótt hann raunverulega viti ekki hvað orsakaði velgengnina. Hann veit ekki heldur hvort andstæðingurinn hætti vegna þess að leiknum er lokið eða af því hann gafst upp.

Þetta er einföld myndlíking en tilfinningum okkar mætti líkja við stigatöfluna. Þar höfum við stöðu leiks og getum vitað hve langt er liðið af tíma og hvenær leik er lokið.

Þegar við kunnum að lesa stöðuna okkar er alltaf auðveldara að ákveða hvernig skal haga sér. Auðveldara að sjá hvort við séum í sókn eða vörn, hvort staðan sé góð og einnig hver staða andstæðingsins er. Við getum valið leikkerfi sem hentar okkar stöðu og spilað eins vel úr aðstæðum og okkur er mögulegt. Þegar staðan er á hreinu getum við skipulagt leikkerfi, m.ö.o. ákveðið hvernig við högum samskiptum okkar í aðstæðum hverju sinni.

Þeir sem þekkja sig og stöðu tilfinninga sinna bera ábyrgð á eigin ákvörðunum. Þeir vita að lífið er gott þrátt fyrir að þeir upplifi slæman dag. Þeir vita að þeir eru uppspretta eigin hamingju og verðleika og að þeirra eigið hugarfarið sé lykillinn.

Þeir sem geta ekki lesið stöðu tilfinninga sinna eru fórnarlömb. Þeir eru sífelt að finna blóraböggul í öllu sem hindrar, annað fólk og aðstæður eru upphaf og endir vandamála þeirra og sama hvað þau muni reyna þá muni það ekki hafa árangur því lífið er ömurlegt. Þau upplifa sig eins og þjálfarinn úr myndlíkingunni hér að ofan. Öllum öðrum virðist ganga vel meðan þeirra eigið líf virðist tilviljanakennt, óráttlátt einn daginn en þokkalegt annan.
Mannskepnan er fyrst og síðast tilfinningavera. Við erum hvert öðru háð og samskipti skipta þar mestu máli. Allar tilfinningar okkar eru réttar. Það sem getur verið rangt er hvernig við túlkum þær. Sú rangtúlkun er í hugarfari okkar og hana má lagfæra og bæta.

Þegar við lærum að beyta tilfinningum okkar rétt munu samskipti okkar á milli lagast sjálfkrafa því við verðum öruggari og okkur líður betur.

Ég skora á þig að kynnast þér betur. Þú átt það inni hjá þér.

panta-bok-fritt