Frestunarárátta

panta-bok-fritt

Þegar við byrjum að laga fjármálin okkar þurfum við að framkvæma og fylgjast með framgangi þessara mála. Það mun koma að því að við stöndum frammi fyrir erfiðu verki og þá getur komið upp sú tilfinning að geyma þetta bara. Fresta þessu og gera seinna þegar mér líður betur. Við getum líka orðið óvenju dugleg við önnur mál eins og að þrífa heima hjá okkur eða koma bílnum í viðgerð. Eða allt hitt sem á eftir að gera. Hafa bara ekki tíma í þetta eina erfiða mál. Það frestast.

Það er eðlilegt að vilja fresta erfiðum verkum en sú frestun getur orðið að áráttu. Sú árátta er auðþekkt á því að við frestum nánast öllu. Fátt verður úr verki þótt af nógu sé að taka.

Joseph Ferrari, sálfræðiprófessor og höfundur bókarinnar Still Procrastinating, telur að tveir af hverjum átta megi skilgreina með frestunaráráttu af einhverju tagi. Fólk sem á svo lítinn pening að það frestar því að kaupa bensín á bílinn og verður bensínlaust. Fólk sem langar að sjá uppáhalds hljómsveitina sína en bíður með það að kaupa miða þar til það er orðið uppselt og of seint að fá miða. Fólk sem byrjar ekki á verkefnum fyrr en á lokamínútunum og hamast í álagi og stressi fram að skilafresti. Aðrir fresta því að taka ákvarðanir og koma sér þannig í ógöngur. Fresta þar til það þarf að taka skyndiákvörðun. Ýtir málum meðvitað og skipulega á undan sér þar til ekki verður undan komist eða að annað fólk tekur ákvarðanirnar fyrir þau.

Til þess að vinna á frestunaráráttunni eru nokku atriði til að hafa í huga.

1. Einfalda verkin. Margir horfa á heildarmyndina og fresta vegna þess að málið virðist of mikið eða óyfirstíganlegt. Hlutaðu málið niður í mörg lítil verk. Ef þú þarft að fá skuldastöðuna þína þá gerirðu lista yfir alla sem þú skuldar og velur síðan þann sem virðist auðveldastur. Til dæmis að senda tölvupóst eða hringja í minnst ógnvekjandi aðilann. Til að höggva skóg þá tekur þú niður eitt tré í einu. Fyrr en varir er verkinu lokið.

2. Gefðu þér verðlaun. Fyrir hvern hluta verkefnisins sem þú líkur skaltu hafa verðlaun. Ef verkið er lítið þá færðu þér góðan kaffibolla í ró og næði. Ef verkið er stærra þá horfirðu á góðan sjónvarpsþátt eða skellir þér í heitt bað. Allt sem þér líkar hefur jákvæð áhrif á það sem þér leiðist.

3. Segðu öllum frá. Ef aðrir eru að fylgjast með verkefninu okkar þá verður erfiðara fyrir okkur að fresta. Þess vegna segjum við vini okkar frá áformum okkar eða setjum tilkynningu á Facebook. Það er líka nauðsynlegt að segja vini okkar frá þegar því er lokið því við þurfum klapp á bakið eftir erfið mál. Þessi samskipti við vini okkar forða okkur frá því að einangrast með óþægilegu tilfinninguna um að fresta.

4. Vertu með duglega fólkinu. Það er miklu betra fyrir okkur frestarana að hanga með fólki sem er alltaf að gera eitthvað. Þau hafa góð áhrif á okkur.

5. Ekki missa taktinn. Þegar við erum byrjuð á verkefni þá er auðveldara að halda áfram og halda takti. Það þreytir okkur að taka of langar pásur og upplifa aftur og aftur eins og við séum að byrja frá grunni. Veldu auðveldasta verkið á listanum þínum, lokaðu Facebook, og segðu upphátt „Byrjum!“ og kláraðu verkið.

namskeid