Fjárhagsleg streita

namskeid

Þegar ég var sem óheiðarlegastur og laug að konunni minni um stöðu okkar í fjármálum þá upplifði ég mikla fjárhagslega streitu. Á þeim tíma var þessi streita ósýnileg. Ég fann ekki til fjárhagslegrar steitu því ég tengdi líðan mína aldrei við fjárhagslega streitu. Það var ýmist vegna álags í vinnu eða af því ég vakti of lengi. Ég reykti mikið og það var mér algerlega ómögulegt að hætta að reykja því ég var í of mikilli þörf fyrir „slökun“ í gegnum reykingar. Ég borðið lítið, svaf illa, og ég vaknaði alltaf sveittur á morgnana. Fjárhagsleg staða mín hafði líkamleg, andleg og hugarfarsleg áhrif á mitt líf. Ég var aldrei í stöðu til að líða vel.

Almennt um streitu

Streita hefur áhrif á alla líkamsstarfsemi okkar. Þegar við erum undir álagi fer taugakerfi okkar í varnarstöðu. Streituvaldur hefur ýtt við okkur og vakið upp taugekerfið. Líkaminn leysir úr læðingi adrenalín sem flæðir um blóðrásina og við það eykst hjartsláttur, blóðþýstingur eykst, augasteinar þenjast út, blóðið flæðir út í vöðvana og öndunarvegurinn opnast. Vöðvar stífna og það getur gefið af sér höfuðverki og mígreni. Vöðvabólga er líka algengt einkenni þeirra sem þjást af streitu.

Séu streitueinkennin aðeins í stutta stund er talað um jákvæða streitu. Hún hjálpar okkur að halda athygli í ógnandi eða spennandi aðstæðum. Vari ástandið hins vegar lengi er talað um neikvæða streitu.

Endurtekin streituköst eins og lýst er hér að ofan hafa áhrif á æðakerfið og auka líkur á hjartaáfalli. Streita hefur áhrif á matarvenjur okkar. og einnig á virkni meltinagarinnar. Við gætum upplifað bæði niðurgang og harðlífi vegna streitu. Séu streitueinkennin viðvarandi í marga daga í einu í að minnsta kosti sex mánuði er hægt að tala um streituröskun eða kvíðaröskun.

Fjárhagsleg streita

Brad Klontz sálfræðingur og sérfræðingur í fjármálahegðun segir fjárhagslega streitu vera afleiðingu af áföllum tengdum fjármálum. Algengt er að fólk tengi áföll við dauðsföll eða árásir eins og rán, líkamsárásir eða nauðganir en öll atvik sem vekja upp tilfinningarlega þjáningu eða sársauka geta verið áföll. Margar hversdagslegar upplifanir eins og óvarleg særandi orð maka eða foreldra og neyðarleg atvik fyrir frama ókunnuga geta haft sambærileg neikvæð áhrif á tilfinningar okkar.

Fjárhagsleg áföll móta fjárhagslega streitu. Skilnaðir, gjaldþrot, veikindi, fjárhagslegt tap, þjófnaðir, atvinnnuleysi og bankahrun eru algeng atvik sem geta verið fjárhagsleg áföll fyrir þann sem fyrir þeim verða. Atvik sem við metum hversdagsleg og ræðum ekki vegna þess leyndarmáls sem fjármál eru sitja eftir í undirmeðvitund og vekja upp óþægindi og streitu þegar við upplifum sambærilegar aðstæður fjárhagslega. Vegna þess að atvikin eru ekki tengd við fjármál þá verður það að óleystu áfalli.

Börn verða fyrir fjárhagslegum áföllum. Birtingarmyndin er ekki eins og bein fjárhagsleg áföll sem lýst var hér að ofan en áhrifin geta orðið þau sömu. Foreldrar og aðstandendur eru fyrirmyndir barna og læra börnin af þeim hvað skal forðast og hvað er eftirsóknarvert. Þegar barn upplifir rifrildi foreldra sinna vegna fjárhagstöðu heimilis mun það ekki tengja þetta atvik við fjármál en óbeint læra að forðast fjármál vegna þeirrar þjáningar og sársauka sem það upplifir í gegnum aðstæður heimilis. Því meiri streita sem foreldri sýnir gagnvart fjármálum því meiri líkur eru á að barn þrói með sér kvíða líka. Börn sem tengja skort á peningum við óhamingju og sorg geta þróað með sér kaupfíkn, áráttukennda yfirskuldsetningu, orðið vinnusjúklingur eða leiðst út í glæpi.

Fjárhagsleg streita eykur líkur á erfiðleikum í sambúð og hjónaböndum. Skuldastaða er þar sterkasti áhrifaþátturinn. Því minna jafnvægi í fjármálum því meiri líkur eru á rifrildum vegna fjármála. Samkvæmt könnunum Gallup náðu rúmlega helmingur landsmanna endum saman árið 2009. Þá náðu 37% endum saman með naumindum og 10,5% notuðu sparifé til að ná endum saman. Árið 2015 náðu 36% íslendinga endum saman með naumyndum og 11% notuðu sparifé til að ná endum saman. Um helmingur íslendinga gæti því þjáðst af fjármálastreitu og samkvæmt tölum Gallup þá gæti sú streita hafa varað árum saman.

Fjármál eru feimnismál. Könnun sem gerð var í Bandaríkjunum árið 2014 sýndi að 44% forðast að ræða persónuleg fjármál. Meiri líkur eru samkvæmt þessari könnun á að fólk ræði umeigið kynlíf, pólitík og trúmál en fjármálin. Í breskri könnun sem 15.000 manns svöruðu voru 3% aðspurðra ekki reiðubúin tilbúin að ræða um kynlíf en 20% neituðu að ræða um tekjur sínar. Suze Orman fjármálaráðgjafi segir í bók sinni The 9 steps to financial freedom að við ræðum ýmisleg vandamál okkar eins og hjúskaparvanda en við viðurkennum ekki fjárhagsvanda okkar við vini eða ættingja. Fjármál eru leyndarmál bæði opinberlega og í einkalífinu. Að sögn Suze upplifa flestir streitu fegna fjármála í einhverri mynd.  Streitu og kvíða sem við viðurkennum ekki fyrir öðrum og í mörgum tilfellum ekkki einu sinni fyrir sjálfum okkur.

Fjárhagsleg streita hefur áhrif á þætti í lífi einstaklings. Hún hefur áhrif á heilsu, fjölskyldu, maka, skipulag og atvinnu. Könnun sem lögð var fyrir heilbrigðisstarfsmenn sýndi að fjárhagsleg streita skýrði um 50 prósent af heildarstreitu einstaklinga. Þessar niðurstöður leggja til að hægt væri að minnka álag á einstaklinga með því að skipuleggja fjármálin og bæta fjárhagslega heilsu. Niðurstöður sýna að uppræta mætti um helming af allri streitu með góðri fjármálakennslu.

Bókaðu þig á námskeið hjá okkur strax í dag ef þú telur þig finna fyrir fjárhagslegri streitu og/eða að hún hamlar þér og þínu daglega lífi.

Heimildir:

American Psychiatric Association. (2013). Diagnostic and statistical manual of mental disorders: DSM-5 (5th ed.). Washington, D.C: American Psychiatric Association.

Arber, S., Fenn, K. og Meadows, R. (2014).  Subjective financial well-being, income and health inequalities in mid and later life in Britain, Social Science & Medicine. 100, 12-20. http://dx.doi.org/10.1016/j.socscimed.2013.10.016.

Auður Arnardóttir, Katrín Sverrisdóttir, Kobrón Björnsdóttir, Kristjana Magnúsdóttir og Sigþrúður Arnardóttir. (2008). Streita: Leiðbeiningabæklingur. Sótt af http://midstodsalfraedinga.is/sites/default/files/baekl_streita.pdf

Axel F. Sigurðsson. (2013, 11. júní). Hvað er streita og hvaða hlutverki gegnir hún? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65376

Bailey, W. C., Woodiel, D. K., Turner, M. J., & Young, J. (1998). The relationship of financial stress to overall stress and satisfaction. Personal Finances and Worker Productivity2(2), 198-207. Sótt af http://www.creditojusto.org/files/43.pdf

Gallup. (2009). Hagsmunasamtök heimilanna: Áhrif efnahagsástandsins á fjárhag heimilanna. Viðhorfkönnun ágúst-september 2009. Sótt af http://www.mbl.is/media/25/1725.pdf

Haukur Hilmarsson. (2014). Betri fjármál: Verkefnabók í fjármálameðferð. Reykjavík: Háskólaprent.

Klontz, B. Og Klontz, T. (2009) Mind over money: Overcoming the money disorders that threaten our financial health.New York: Broadway Book.

Orman, S. (1997). The 9 steps to financial freedom. New York: Crown Publishers.

Oten, M. Og Cheng, K. (2007). Improvements in self-control from financial monitoring. Journal of Economic Psychology, 28, 487-501.

Johnson, P., Nardone, A., Clifton, S., Mindell, J.S., Copas, A.J., og fl. (2015). Asking about Sex in General Health Surveys: Comparing the Methods and Findings of the 2010 Health Survey for England with Those of the Third National Survey of Sexual Attitudes and Lifestyles. PLoS ONE 10(8): e0135203.doi:10.1371/journal.pone.0135203

Mbl.is (2015). Meira en helmingur nær vart endum saman. Sótt af http://www.ruv.is/frett/meira-en-helmingur-naer-vart-endum-saman

Wells Fargo. (2014). Conversations about personal finance more difficult than religion and politics, according to new Wells Fargo survey. Sótt af https://www.wellsfargo.com/about/press/2014/20140220_financial-health

Wolfsohn, R. (2012). Financial Social Work. [rafbók]. Center of Financial Social Work.

bokhaskoalprent-ofan-post