Fjárhagsleg streita

panta-bok-fritt

Fjárhagsvandi og áhyggjur eru algengur streituvaldur en lítið virðist vera um ráðgjöf og úrræði við þessum vanda á Íslandi. Lítið er um íslenskar rannsóknir á fjárhagslegri streitu en einhvern fjölda má finna af könnunum sem metur stöðu landsmanna.

Í þessari ritgerð mun höfundur fara yfir helstu þætti þessarra tengsla á milli streitu og fjármála og reyna að svara spurningunni: Hvað er fjárhagsleg streita og hver eru úrræðin?

Streita er samheiti fyrir áhrifin sem fólk finnur fyrir þegar aðstæður og atvik virðast vera umfram getu fólks til að ráð við það. Fólk upplifir mismunandi getu sína til að ráða við atvik og aðstæður og því getur einn fundið til streitu en annar ekki í sömu eða sambærilegum aðstæðum. Aðstæður þessar eru oft kallaðar streituvaldur. Streituvaldurinn getur verið utanaðkomandi  þáttur eins og grimmur og ógnandi hundur en líka mikið vinnuálag eða dauðsfall í fjölskyldunni. Hann getur einnig verið hugsun eða tilfinning sem vekur upp streitu. Hver sem streituvaldurinn er þá eru viðbrögð líkamans nokkurn veginn alltaf eins (Stúdentaþjónusta HR, 2008 : Axel Sigurðsson, 2013).

Fjárhagsleg streita er afleiðing af áföllum tengdum fjármálum. Algengt er að fólk tengi áföll við slys, líkamsárásir, ofbeldi og dauðsföll en öll atvik sem vekja upp tilfinningarlega þjáningu eða sársauka geta verið áföll. Fjárhgsleg áföll geta verið atvik sem hafa alvarleg og íþyngjandi áhrif á fjárhag og vekja upp þjáningar og sársauka. (Klontz og Klontz, 2009).

 

Streita

Streita hefur áhrif á alla líkamsstarfsemi okkar. Þegar við erum undir álagi fer taugakerfi okkar í varnarstöðu. Streituvaldur hefur ýtt við okkur og vakið upp taugekerfið. Líkaminn leysir úr læðingi adrenalín sem flæðir um blóðrásina og við það eykst hjartsláttur, blóðþýstingur eykst, augasteina þenjast út, blóðið flæðir út í vöðvana og öndunarvegurinn opnast. Vöðvar stífna og það getur gefið af sér höfuðverki og mígreni. Vöðvabólga er líka algengt einkenni þeirra sem þjást af streitu ((Stúdentaþjónusta HR, 2008: Axel Sigurðsson, 2013).

Séu streitueinkennin eins í stutta stund er talað um jákvæða streitu. Hún hjálpar okkur að halda athygli í ógnandi eða spennandi aðstæðum. Vari ástandið hins vegar lengi er talað um neikvæða streitu (Stúdentaþjónusta HR, 2008).

Endurtekin streituköst eins og lýst er hér að ofan hafa áhrif á æðakerfið og auka líkur á hjartaáfalli. Streita hefur áhrif á matarvenjur okkar. og einnig á virkni meltinagarinnar. Við gætum upplifað bæði niðurgang og harðlífi vegna streitu. Séu streitueinkennin viðvarandi í marga daga í einu í að minnsta kosti sex mánuði er hægt að tala um streituröskun eða kvíðaröskun (Axel Sigurðsson, 2013: American Psychiatric Association, 2013).

 

Fjármál og fjárhagsvandi

Í nútímasamfélagi greiðum við fyrir lífsgæði okkar með peningum. Við greiðum fyrir efnisleg lífsgæði áborð við mat, föt og húsnæði, menningarleg lífsgæði eins og ýmis konar afþreyingu, og siðferðisleg lífsgæði eins og trú, vináttu og stjórnmálaskoðanir. Fátækt er þegar við getum ekki aflað okkur eitthvert þessara lífsgæða og þar með skerðum gæði daglegs lífs (Páll Skúlason, 1986).

Fjárhagsvandi er þegar einstaklingur getur ekki aflað sér þeirra lífsgæða sem hann þarfnast með því fé sem hann aflar. Framfærsluvandi er eins og honum er lýst í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1994 þegar einstaklingur getur ekki framfleytt sjálfum sér eða börnum sínum án utan að komandi aðstoðar. Ýmsar ástæður liggja á baki þess að einstaklingur eða fjölskylda lenda í fjárhagsvanda. Lágar tekjur, kortur á fjárhagslegu skipulagi, enginn sparnaður og því ekki hægt að bregðast við ófyrirséðum útgjöldum, óúthugsuð eða hvatvís kaup, reikningar ekki greiddir á réttum tíma, vanskil, og yfirskuldsetning af ýmsu tagi (Haukur Hilmarsson, 2014; Þingskjal 574, 1990-1991).

Fjárhagsvandi tengdur yfirskuldsetningu eða lítillar innkomu leiðir til þess að fólk nær ekki að afla allra þeirra lífsgæða sem það þarfnast eða óskar eftir. Til þess að ná endum saman velur fólk því að skerða dagleg lífsgæði sín. Tilhneiging verður til þess að fólk láti afborganir lána og skuldbindinga í forgang og láti önnur lífsgæði mæta afgangi. Dæmi um lífsgæði sem fólk fórnar eru föt, afþreying og dýrari matvara. Fólk fórnar líka óalgengari lífsgæðum eins og almennu heilbrigðiseftirliti. Þau sleppa eftirliti hjá tannlækni og heilsugæslu (Haukur Hilmarsson, 2014).

Fjárhagsleg streita

Brad Klontz sálfræðingur og sérfræðingur í fjármálahegðun segir fjárhagslega streitu vera afleiðingu af áföllum tengdum fjármálum. Algengt er að fólk tengi áföll við dauðsföll eða árásir eins og rán, líkamsárásir eða nauðganir en öll atvik sem vekja upp tilfinningarlega þjáningu eða sársauka geta verið áföll. Margar hversdagslegar upplifanir eins og óvarleg særandi orð maka eða foreldra og neyðarleg atvik fyrir frama ókunnuga geta haft sambærileg neikvæð áhrif á tilfinningar okkar (Klontz og Klontz, 2009).

Fjárhagsleg áföll móta fjáhagslega streitu. Skilnaðir, gjaldþrot, veikindi, fjárhagslegt tap, þjófnaðir, atvinnnuleysi og bankahrun eru algegng atvik sem geta verið fjárhagsleg áföll fyrir þann sem fyrir þeim verða. Atvik sem við metum hversdagsleg og ræðum ekki vegna þess leyndarmáls sem fjármál eru sitja eftir í undirmeðvitund og vekja upp óþægindi og streitu þegar við upplifum sambærilegar aðstæður fjárhagslega. Vegna þess að atvikin eru ekki tengd við fjármál þá verður það að óleystu áfalli (Klontz og Klontz, 2009).

Börn verða fyrir fjárhagslegum áföllum. Birtingarmyndin er ekki eins og bein fjárhagsleg áföll sem lýst var hér að ofan en áhrifin geta orðið þau sömu. Foreldrar og aðstandendur eru fyrirmyndir barna og læra börnin af þeim hvað skal forðast og hvað er eftirsóknarvert. Þegar barn upplifir rifrildi foreldra sinna vegna fjárhagstöðu heimilis mun það ekki tengja þetta atvik við fjármál en óbeint læra að forðast fjármál vegna þeirrar þjáningar og sársauka sem það upplifir í gegnum aðstæður heimilis. Því meiri streita sem foreldri sýnir gagnvart fjármálum því meiri líkur eru á að barn þrói með sér kvíða líka. Börn sem tengja skort á peningum við óhamingju og sorg geta þróað með sér kaupfíkn, áráttukennda yfirskuldsetningu, orðið vinnusjúklingur eða leiðst út í glæpi (Klontz og Klontz, 2009).

Fjárhagsleg streita eykur líkur á erfiðleikum í sambúð og hjónaböndum. Skuldastaða er þar sterkasti áhrifaþátturinn. Því minna jafnvægi í fjármálum því meiri líkur eru á rifrildum vegna fjármála. Samkvæmt könnunum Gallup náðu rúmlega helmingur landsmanna endum saman árið 2009. Þá náðu 37% endum saman með naumindum og 10,5% notuðu sparifé til að ná endum saman (Gallup, 2009). Árið 2015 náðu 36% íslendinga endum saman með naumyndum og 11% notuðu sparifé til að ná endum saman (mbl.is, 2015). Um helmingur íslendinga gæti því þjáðst af fjármálastreitu og samkvæmt tölum Gallup þá gæti sú streita hafa varað árum saman.

Fjármál eru feimnismál. Könnun sem gerð var í Bandaríkjunum árið 2014 sýndi að 44% forðast að ræða persónuleg fjármál. Meiri líkur eru samkvæmt þessari könnun á að fólk ræði umeigið kynlíf, pólitík og trúmál en fjármálin (Wells Fargo, 2014). Í breskri könnun sem 15.000 manns svöruðu voru 3% aðspurðra ekki reiðubúin tilbúin að ræða um kynlíf en 20% neituðu að ræða um tekjur sínar.( Johnson, Nardone, Clifton, Mindell, Copas, o.fl., 2015). Suze Orman (1997) fjármálaráðgjafi segir í bók sinni The 9 steps to financial freedom að við ræðum ýmisleg vandamál okkar eins og hjúskaparvanda en við viðurkennum ekki fjárhagsvanda okkar við vini eða ættingja. Fjármál eru leyndarmál bæði opinberlega og í einkalífinu. Að sögn Suze upplifa flestir streitu fegna fjármála í einhverri mynd.  Streitu og kvíða sem við viðurkennum ekki fyrir öðrum og í mörgum tilfellum ekkki einu sinni fyrir sjalfum okkur.

Fjárhagsleg streita hefur áhrif á þætti í lífi einstaklings. Hún hefur áhrif á heilsu, fjölskyldu, maka, skupulag og atvinnu. Könnun sem lögð var fyrir heilbrigðisstarfsmenn sýndi að fjárhagsleg streita skýrði um 50 prósent af heildarstreitu einstaklinga. Þessar niðurstöður leggja til að hægt væri að minnka álag á einstaklinga með því að skipuleggja fjármálin og bæta fjárhagslega heilsu. Niðurstöður sýna að uppræta mætti um helming af allri streitu með góðri fjármálakennslu (Bailey, Woodiel, Turner og Young, 1998).

Heilsa og fjármál

Heilsa hefur áhrif á fjárhagsstöðu fólks. Það er að hluta til vegna þess að einstaklingar sem hafa ekki fulla heilsu hafa ekki jöfn tækifæri heilsu sinnar vegna til að afla eins mikilla tekna og fullfrískir.

Aittomaki og félagar rannsökuðu tengsl á milli heimilistekna og heilsufarsvanda á meðal finnsku þjóðarinnar á árunum 1987 til 2007. Bornar voru saman opinberar tölur um tekjur og greiddir veikindadagar semkvæmt tölum frá Finnsku Tryggingastofnuninni. Niðurstöður þeirrar rannsóknar sýndu að fólk með lægstu tekjur sótti helst sjúkradagpeninga en hlutfallið lækkaði með hærri tekjum. Á tuttugu ára tímabili voru efnahagsbreitingar og hagsveiflur og þegar þær voru bornar saman við niðurstöður var greinanlegt að á árum uppsveiflu fækkaði millitekjufólki sem sótti sér sjúkradagpeninga. Aittomaki og félagar telja skýringuna að finna í hækkuðum launum í þremur hæstu tekjuhópunum á því tímabili (Aittomäki, Martikainen, Rahkonen og Lahelma, 2014).

Arber, Fenn og Meadows (2006) rannsökuðu tengsl á milli heilsu og fjárhagslegarar stöðu einstaklinga og heimila í Bretlandi. Tæplega 8000 þáttakendur 45 ára og eldri voru beðnir að meta eigin heilsufar  á skalanum Mjög góð, góð, þokkaleg, slæm eða mjög slæm. Einnig var mæld fjárhagsleg heilsa (e. subjective financial well-being) þeirra með spurningunum Hvernig nær heimilið endum saman og Fjöldi vandkvæða með heimilisútgjöld. Tengsl á milli innkomu og heilsu voru sterk. Þátttakendur sem voru atvinnulausir, fráskildir, reyktu, höfðu ekki lokið námi eða voru í lægstu samfélagshópunum voru að eigin mati með lélegustu heilsuna. Þátttakendur sem áttu í erfiðleikum með að ná endum saman voru líklegri til að meta heilsu sína slæma eða mjög slæma en þátttakendur sem áttu auðvelt með að ná endum saman. Þeir sem voru í fjárhagserfiðleikum með tvo eða fleiri útgjaldaflokka voru einnig líklegri til að meta heilsu sína slæma eða mjög slæma. Tengsl á milli heilsu og innkomu eru einnig breytileg eftir aldri einstaklinga. Tengslin eru sterkust á miðjum aldri, 45 til 64 ára og er dregin sú ályktun að á þessum aldri eru einstaklingar háðari innkomu úr launaðri vinnu en yngri og eldri einstaklingar (Arber, Fenn og Meadows, 2006).

Menntun hefur hátt forspárgildi um heilsufarslegt sjálfsmat. Miklar líkur eru á að einstaklingar með enga menntun meti heilsu sína slæma eða mjög slæma. Lág samfélagsstaða gefur einnig hár líkur á slæmri heilsu. Tengsl voru á milli tekna og heilsu og voru einstaklingar meðlægstu tekjur líklegari til að meta heilsu sína slæma. Þegar tengslin á milli heilsu og fjárhagsstöðu eru rannsökuð kemur í ljós að lakari heilsa eykur líkur á fjárhagslegu álagi, streitu (Arber, Fenn og Meadows, 2006).

 

Úrræði

Fyrsta skrefið í að takast á við streitu er að viðurkenna streituna. Næsta skref er að gera áætlun um hvernig tekin verður stjórn á steituvaldinum. Í leiðbeiningabæklingi um streitu sem var lokaverkefni í sérnámi í hugrænni atferlismeðferð árin 2006 til 2008 eru nokkur ráð til að vinna á streitu. Frí frá daglegum verkefnum og þar sem skipt er um umhverfi, afslöppun, samskipti eru mikilvæg, viðurkenna streituna, vera raunsæ og ætla sér ekki um of í öllum sínum verkefnum, hugsa um mataræði og næringu, forgangsraða verkefnum og skipuleggja tímann og regluleg hreyfing eru allt ráð sem geta hjálpað til við að minnka streitu. Einnig er mikilvægt að leita aðstoðar fagaðila (Auður Arnardóttir, Katrín Sverrisdóttir, Kobrún Björnsdóttir, Kristjana Magnúsdóttir og Sigþrúður Arnardóttir, 2008) .

Núvitund

Núvitund (e. mindfulness) er tegund slökunar og hugleiðslu sem hjálpar fólki að tengja sig eigin upplifunum og skynjun. Núvitund eflir sjálfþekkingu og hvetur fólk til að vera vakandi fyrir umhverfi sínu. Núvitund stuðlar að aukinni hugarró og meiri einbeitingu. Einnig fæst betri athygli og hlustun á aðra í samskiptum. Dæmi um núvitundaræfingu er að hjálpa fólki að stöðva svokallaða sjálfstýringu en sjálfstýring er þegar fólk að nota gamlar venjur sem stýringu á meðan hugur þess er upptekinn við annað, til dæmis hugsa um verkefni í fortíð eða framtíð. Dæmi um hvernig slökkt er á sjálfstýringu er að hafa hugann við að bursta tennur og hugsa ekki um annað á meðan (Hamingjuhúsið.e.d).

Ávinningur núvitunar er minnkuð streita, meiri einbeiting, meiri hugarró, jákvæðara hugarfar og tilfinningar. Aukin sjálfsvitund (e.self-awareness), bætt samskipti, og jákvæðar líkamlegar breytingar eins og jafnari blóðþrýstingur og minni verkir og vanlíðan (Haminguhúsið.e.d)

Fjármálameðferð

Í fjármálameðferð (e. financial therapy) er samtalsmeðferð þar sem unnið með skjólstæðingi  að því að finna orsök fjárhaglegarar streitu. Orsökin, svokallað fjárhagslegt blossamark (e. financial flashpoints), eru áföllin sem fá skjólstæðinginn til að þróa með sér fjárhagslega streitu. Einnig er unnið með dagleg útgjöld til að leiða fólk að fjárhaglegri núvitund með því að fylla út fjárhagsdagbók.    skipulag ráðgjöf til að bæta streituna gagnvart fjármálunum. Rannsóknir sýna að það eitt að nota fjárhagsdagbók þar sem fólk skráir fjármálin sín lækkar streitu  (Klontz og Klontz, 2009: Oten og Cheng, 2007).

Reeta Wolfsohn (2012) fjármálráðgjafi hefur á síðastliðnum 15 árum sett saman fjóra grunnþætti sem horfa þarf á í vinnu með fjárhagslega streitu.

1) Andlegi þátturinn. Tilfinningar, hegðun og hugsanir er  meginþáttur í sambandi okkar við fjármál. Því betur sem við erum tengd eigin tilfinningum því betri ákvarðanir getum við tekið.

2) Tengsl einstaklings við fjármál. Við höfum öll ákveðin viðhorf og tengingu við fjármálin okkar Wolfsohn setur þessi tengsl upp  í fimm flokkum:

  1. Vonleysi: Vonleysi og upplifun um að við getum engu breytt kemur í veg fyrir að við breytum neinu í fjármálunum okkar.
  2. Svartsýni: Viðhorfið er að sama hvað við gerum það mun ekkihafa áhrif á fjármálin.
  3. Þolanlegt: Við náum endum saman með naumindum Við getum ekki sparað eða eignast neitt. Við bara lifum af.
  4. Bjartsýni: Við náum endum saman og rúmlega það. Við greiðum reikninga og eigum eftir pening til að setja í sparnað og neyðarsjóð. Við getum gert fjárhagsáætlun og flylgt henni..
  5. Stöðugleiki: Við stjórnum fjármálunum okkar í stað þess að við séum á sjálfstýringu og að fjármálin stjórni okkur.

3) Fjárhagsleg hegðun. Samband okkar við peninga hefur áhrif á hegðun okkar með peninga og það hefur síðan áhrif á aðstæður okkar fjárhagslega. Ef við erum lítið eða ekkert í tengslum við fjármál okkar og erum illa eða ekkert upplýst um hvert peningar okkar fara  þá eru meiri líkur á að við óttumst og forðumst fjármálin okkar. Þessi ótti og streita eykur líkur á að við forðumst að hugsa um fjármálin. Einn stærsti þátturinn við að breyta fjárhagslegri hegðun verður því þegar við byrjum að yfirstíga ótta og streitu í fjármálum (Wolfsohn, 2012).

Rafræn viðskipti með debit- og kreditkortum og í gegnum netbanka auka líkur á að við missum tengsl við fjárm´lain okkar og við missum yfirsýn. Þessi aftenging eykur líkur á fjárhagslegri streitu og ótta gagnvart fjármálum. Óttinn og tæknin leiða því bæði að því að við missum yfirsýn og jafnvel stjórn á fjármálunum (Wolfsohn, 2012).

4) Upplýsingar. Upplýsingar og þekking er stór hluti af því að minnka fjárhagelga streitu. Við getum fundið mikið magn upplýsinga um fjármál og leiðir til að vinna á fjárhage-slegri streitu á veraldarvefnum.  Wolfsohn segir þó að magn upplýsinga er ekki nóg því að það er mikilvægt að framkvæma. Fjármál einstaklinga eru ólík og ekki hægt að finna eina leið sem hentar öllum. Það er því mikilvægt að hver og einn safni upplýsingum og þekkingu um sín eigin fjármál og fjárhagsstöðu svo hægt verði að framkvæma og viðhalda vinnunni (Wolfsohn, 2012).

 

Samantekt og umræður

Fjárhagsleg streita er algeng. Samkvæmt rannsóknum má rekja rúmlega helming af streitu fólks til fjármála (Bailey, Woodiel, Turner og Young, 1998) Á sama tíma er lítið rætt um fjárhagslega streitu í samfélaginu og í einkalífi fólks. Fjármálavandi er feimnismál. Svo mikið að fólk forðast að ræða þau við sína allra nánsutu. Samt sem áður eru fjámál fínofin í allt samfélag okkar og peningar og fjármunir eru ain aðalaðferð samfélagsins til að nálgast og nýta lífsgæði sín Orman, 1997).

Fjárhagsleg streita er rakin til áfalla sem tengd eru fjármálum. Skilnaðir, þjófnaðir, veikindi, atvinnuleysi eru allt áföll sem tengjast fjármálum. Skyndilegur tekjusissir eða mikið álag á fjármal heimilis og einstaklings en er sjaldnast rakið til fjámála. Eftir situr streita sem ekki fær úrvinnslu og er jafnvel ekki viðurkennd eða engin skýring fæst á henni (Klontz og Klontz, 2009).

Sem dæmisögu mætti tala um Jón sem er í sínum rólegheimum og öryggi að mála þakið á húsi sínu. Skyndilega misstígur Jón sig og dettur niður af þakinu og bakbrýtur sig. Þetta áfall hefur þau áhrif að Jón þorir ekki upp á þak lengur. Hann þróar með sér lofthræðslu og hugsunin ein um að mála þak vekur hjá honum streitu.

Jón fer því ekki að mála þakið. Lofthræðslan hefur meiri áhrif en bara á það að Jón forðast það að mála þak. Jón getur ekkert gert annað sem krefst þess að hann klifri eða sé uppi í einhverri hæð. Hann getur ekki farið á háar byggingar, hann fer ekki út á svalir og hann getur ekki lengur notið þess að ganga á fjöll. Lífsgæði Jóns hafa verið  skert við áfallið sem hann varð fyrir þegar hann datt af þakinu. Jón þarf því aðstoð við að komast yfir lofthræðslu svo hann endurheimti skertu lífsgæðin.

Ef fallið hefði ekki verið af þaki heldur fjárhagslegt áfall þá hefði það á sambærilegan hátt skert lífsgæði Jóns í fjámálum. Jón finnur á sama hátt til streitu þegar hann stígur inn í fjárhagslegar aðstæður og ef áfallið er nægjanlega stórt og sársaukafullt mun hann forðast aðstæður frekar enn að stíga í þær. Áhrifin geta verið því orðið margvísleg og skaðandi fyrir fjármál Jóns og lífsgæði tengdum fjármálum hans (Klontz og Klontz, 2009).

Jón, og allir sem þjást af fjárhagslegri streitu þurfa að finna rétta orsök streitunnar. Viðurkenna vandann. Það þarf að gera áætlun um að vinna sig úr streitu og inn í fjárhagslegt öryggi (Auður Arnardóttir, Katrín Sverrisdóttir, Kobrún Björnsdóttir, Kristjana Magnúsdóttir og Sigþrúður Arnardóttir, 2008). En samfélagsleg feimni gagnvart fjárhagsvanda stendur í vegi fyrir úrlausnum (Orman, 1997).

Margir þræðir leiða okkur að fjármálum okkar sem orsakavald streitu. Í þessari ritgerð höfum við dregið saman einkenni streitu og áhrifanna sem þau geta haft. Síðan tókum við saman fjármál sem streituvald og að lokum hvernig hægt er að vinna á streitu bæði almennt og sérstaklega gagnvart fjármálum.

Höfundur telur að opna þurfi umræðu um fjárhagslega streitu í samfélaginu. Orök streitunnar er að finna allt frá barnæsku og til áfalla á fullorðins árum og umfangið er mikið ef tekið er tillit til fjölda landsmanna sem naumlega ná endum saman og sem þjást af fjárahagslegri streitu ómeðhöndlað árum saman (Klontz og Klontz, 2009: mbl, 2015: Gallup, 2009).

Úrræðin eru til og telur höfundur að auðveldlega megi takast á við þennan vanda með aukinni vitundarvakningu og fræðslu um orsakir og afleiðingar fjáhagslegrar streitu.

 

 

Heimildir

 

Aittomäki, A., Martikainen, P., Rahkonen, O., Lahelma, E. (2014). Household income and health problems during a period of labour-market change and widening income inequalities – A study among the Finnish population between 1987 and 2007. Social Science & Medicine, 100, 84-92. http://dx.doi.org/10.1016/j.socscimed.2013.10.023.

American Psychiatric Association. (2013). Diagnostic and statistical manual of mental disorders: DSM-5 (5th ed.). Washington, D.C: American Psychiatric Association.

Arber, S., Fenn, K. og Meadows, R. (2014).  Subjective financial well-being, income and health inequalities in mid and later life in Britain, Social Science & Medicine. 100, 12-20. http://dx.doi.org/10.1016/j.socscimed.2013.10.016.

Auður Arnardóttir, Katrín Sverrisdóttir, Kobrón Björnsdóttir, Kristjana Magnúsdóttir og Sigþrúður Arnardóttir. (2008). Streita: Leiðbeiningabæklingur. Sótt af http://midstodsalfraedinga.is/sites/default/files/baekl_streita.pdf

Axel F. Sigurðsson. (2013, 11. júní). Hvað er streita og hvaða hlutverki gegnir hún? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65376

Bailey, W. C., Woodiel, D. K., Turner, M. J., & Young, J. (1998). The relationship of financial stress to overall stress and satisfaction. Personal Finances and Worker Productivity2(2), 198-207. Sótt af http://www.creditojusto.org/files/43.pdf

Gallup. (2009). Hagsmunasamtök heimilanna: Áhrif efnahagsástandsins á fjárhag heimilanna. Viðhorfkönnun ágúst-september 2009. Sótt af http://www.mbl.is/media/25/1725.pdf

Hamingjuhúsið. (e.d.). Mindfulness (núvitund). Sótt af http://hamingjuhusid.is/74-2/

Haukur Hilmarsson. (2014). Betri fjármál: Verkefnabók í fjármálameðferð. Reykjavík: Háskólaprent.

Klontz, B. Og Klontz, T. (2009) Mind over money: Overcoming the money disorders that threaten our financial health.New York: Broadway Book.

Orman, S. (1997). The 9 steps to financial freedom. New York: Crown Publishers.

Oten, M. Og Cheng, K. (2007). Improvements in self-control from financial monitoring. Journal of Economic Psychology, 28, 487-501.

Johnson, P., Nardone, A., Clifton, S., Mindell, J.S., Copas, A.J., og fl. (2015). Asking about Sex in General Health Surveys: Comparing the Methods and Findings of the 2010 Health Survey for England with Those of the Third National Survey of Sexual Attitudes and Lifestyles. PLoS ONE 10(8): e0135203.doi:10.1371/journal.pone.0135203

Mbl.is (2015). Meira en helmingur nær vart endum saman. Sótt af http://www.ruv.is/frett/meira-en-helmingur-naer-vart-endum-saman

Wells Fargo. (2014). Conversations about personal finance more difficult than religion and politics, according to new Wells Fargo survey. Sótt af https://www.wellsfargo.com/about/press/2014/20140220_financial-health

Wolfsohn, R. (2012). Financial Social Work. [rafbók]. Center of Financial Social Work.

namskeid