Fermingar í fjárhagsvanda

Untitled-1

Í kringum páska eru fermingar og fermingaveislur með öllu sínu tilstandi og kostnaði. Flestir komast nokkuð vel frá þessum verkefnum en það er þó nokkuð stór hópur fólks sem er í vanda með fermingar vegna tekjuleysis.

Ferming er stór hluti af ungdómnum. Fyrir marga er þetta viðurkenning á að vera ekki lengur barn heldur ungmenni. Fyrir aðra er þetta sjálfstæðisyfirlýsing að játa sig í sinni trú og fyrir enn aðra er þetta spurning um gjafir. Hver sem ástæðan er þá fylgir fermingum kostnaður.

Fermingin sem slík er ekki dýr heldur er kostnaðurinn fólginn í veislunni, sparifötum og gjöfunum. Fyrir fjölskyldu sem rétt nær endum saman á góðu ári þá tekur fermingin fjármálin úr öllu jafnvægi.

Eitt af því sem ég hef orðið vitni að í mínum ráðgjafarstörfum er hve fólk er illa undirbúið fyrir fermingar. Það er vitað í rúm 13 ár að ferming er yfirvofandi og því er tíminn til þess að spara fyrir öllum kostnaðinum meira en nægur. Þrátt fyrir það þá kemur fólk til mín alltof seint og vill ráð til að halda fermingarveislu sem þau eiga ekki efni á. Það er ekki hægt.

Í flestum tilfellum er ástæðan að viðkomandi er á lágum launum, er í fjárhagsvanda, eða fær ekki fyrirgreiðslu í banka og er að vakna upp við að geta ekki greitt fyrir draumaveisluna. Ég ráðlegg engum að taka lán fyrir veislum. Við höldum veislur sem við höfum efni á.

Mín ráð eru því einföld.

Láttu gestina koma með matinn með sér. Pollyönnuboð eru algeng. Þá taka gestirnir, vinir og vandamenn, sig til og baka eða elda eitthvað sem þau taka með sér í veisluna.

Ekki bjóða of mörgum. Oftroðin veisla er erfiðari en hófleg mæting. Nánustu vinir og vandamenn er feikinóg til að skapa góða stemningu í veislum.

Haltu veisluna heima. Það eru langeinföldustu veislurnar sem eru bara heima. Rúm og stór húsgögn eru hreinlega tekin í sundur og færð í geymslu. Nágrannar, vinir og ættingja lána lítil kaffiborð og stóla. Vinir og ættingjar eru duglegir að aðstoða við undirbúning. Ef þú átt ekki rúmgóða íbúð þá er einhver í fjölskyldunni sem á hana til.

Gefðu skynsama fermingargjöf. Barn sem þekkir raunverulega fjárhagsstöðu heimilis setur ekki fram óraunhæfar kröfur. Það er því nánast sama hvað er gefið, við fáum þakklæti fyrir.

Ekki kaupa spariföt sem verða bara notuð einu sinni. Unglingarnir stækka hratt á næstu árum og því líklegt að fínu sparifötin verði ónothæf fyrr en síðar. Fáið því lánuð spariföt eða leigið þau þar sem því er komið við.

Hárgreiðslan í höndum vina eða ættingja. Það er hægt að fara í klippingu tímanlega fyrir fermingardaginn en hárgreiðslan á sjálfan fermingardaginn getur verið í höndum einhvers handlagins í fjölskyldunni eða vinahópnum.

Ljósmyndarinn er í fjölskyldunni. Á 21. öldinni þar sem margir eiga góða stafræna myndavél er auðvelt að taka fjöldamargar fermingamyndir og velja þær bestu úr.

Fermingin og veislan eru hátíð og hafa í grunninn ekkert með fjármál að gera. Það er hugarfarið og andrúmsloftið sem skapar bestu veisluna. Það er því mikilvægt að fjárhagsáhyggjur liti ekki undirbúning og framkvæmd dagsins. Takið ákvarðanir sem hafa góð áhrif á líðan ykkar og njótið dagins. Ódýrasta veisla í heimi gæti verið sú besta.

 

Untitled-1